Chris Evans, nýr þáttastjórnandi Top Gear, hefur sagt starfi sínu lausu og gengið út. Stutt er síðan Evans tók við keflinu af Jeremy Clarkson, en aðeins eru sjö mánuðir liðnir af þriggja ára samningi hans við sjónvarpsstöðina BBC.
Að sögn hafði Evans fengið sig fullsaddan að afskiptasemi yfirstjórnenda sinna, auk þess sem hann er sagður hafa verið ósáttur við að fá ekki jafn mikið listrænt frelsi og fyrirveri hans. Þá kemur uppsögnin í kjölfar rannsóknar bresku lögreglunnar á kynferðisbroti sem Evans hefur verið sakaður um, en fyrrverandi samstarfskona hans sakaði hann um að hafa gripið í brjóst sitt fyrir rúmum 20 árum.
Sýningar á nýjum Top Gear þáttum hófust í maí. Áhorf á sjónvarpsþáttinn Top Gear hefur hríðfallið eftir að nýir kynnar tóku við, en Chris Evans og Matt LeBlanc tóku við keflinu af Jeremy Clarkson, James May og Richard Hammond.
Clarkson var á sínum tíma sagt upp störfum eftir að hafa veist að samstarfsmanni sínum, en í kjölfarið sögðu May og Hammond starfi sínu lausu. Þremenningarnir færðu sig síðan yfir til streymisveitunnar Amazon Prime, þar sem þeir munu stýra nýjum bílaþætti.
Fyrsti þáttur nýrrar þáttaraðar Top Gear fór í loftið í maí, en 4,4 milljónir manns fylgdust með frumraun Evans og LeBlanc. Þátturinn hlaut fremur neikvæð viðbrögð og var jafnvel kallaður „Flop Gear“ af gárungum á netinu. Áhorfið hríðféll svo á milli vikna, því að einungis fylgdust 2,8 milljónir manna með útsendingunni á öðrum þætti.