Ísland verður að nýju í einu aðalhlutverkanna í næstu þáttarröð Game of Thrones. Frá þessu greinir Entertainment Weekly sem segir HBO hafa staðfest að miklar breytingar verði gerðar vegna sjöundu þáttaraðarinnar. Hún verður sett í sýningar sumarið 2017 en hefur hingað til verið sýnd á vorin. Þá mun hún samanstanda af aðeins sjö þáttum en ekki 10 eins og vaninn er.
Þáttaröðin verður tekin upp á Norður-Írlandi, Spáni og Íslandi. Nokkur ár eru síðan stjórnendur þáttarins notuðust við Ísland í stórar tökur en landið var einna helst notað í senur sem gerðust „norðan veggjar“.
Ástæður þess að útgáfu þáttaraðarinnar verður seinkað munu tengjast því að nú er „veturinn“ loksins kominn. Það þýðir að tökur þurfa að hefjast seinna svo finna megi grárra vetrarveður, jafnvel á sólríkari tökustöðunum.