Hinn vingjarnlegi Matt LeBlanc mun snúa aftur sem kynnir bílaþáttanna Top Gear, en kollegi hans Chris Evans mun vera fjarri góðu gamni.
Frétt mbl.is: Chris Evans hættir í Top Gear
LeBlanc og Evans tóku við keflinu af fyrrverandi stjórnendum þáttanna, þeim Jeremy Clarkson, James May og Richard Hammond, en þremenningarnir færðu sig yfir til streymisveitunnar Amazon Prime í kjölfar uppsagnar Clarksons.
Nýjasta þáttaröðin af Top Gear, undir stjórn LeBlanc og Evans, olli miklum vonbrigðum enda var áhorfið ekki með besta móti.
Fyrsti þáttur nýrrar þáttaraðar Top Gear fór í loftið í maí, en 4,4 milljónir manns fylgdust með frumraun Evans og LeBlanc. Þátturinn hlaut fremur neikvæð viðbrögð og var jafnvel kallaður „Flop Gear“ af gárungum á netinu. Áhorfið hríðféll svo á milli vikna, því að einungis fylgdust 2,8 milljónir manns með útsendingunni á öðrum þætti.
Samkvæmt frétt Mirror hefur LeBlanc verið boðið að snúa aftur sem kynnir þáttanna, en heimildamenn segja hann þegar hafa samþykkt tilboð BBC.
„Matt var einn af jákvæðu þáttunum við síðustu þáttaröð. Hann er spenntur fyrir því að snúa aftur og við viljum endilega fá hann, þannig að af því mun verða. Það á bara eftir að ganga frá lausum endum.“