Sjónvarpsmaðurinn skapstóri, Jeremy Clarkson, stappaði stálinu í bresk ungmenni sem í dag fá afhentar einkunnir úr stúdentsprófi sínu.
Clarkson viðurkenndi sjálfur að hann hefði ekki verið sérlega duglegur námsmaður, en það hefði ekki komið mikið að sök.
„Ekki hafa áhyggjur þótt einkunnirnar hafi valdið ykkur vonbrigðum. Ég fékk C og tvö U, en núna er ég á risasnekkju í Miðjarðarhafinu,“ skrifaði Clarkson á Twitter.
Clarkson, sem gerði garðinn frægan í bílaþáttunum Top Gear, hefur undanfarið verið við tökur á nýjum sjónvarpsþáttum sem nefnast The Grand Tour.
Líkt og flestir vita var Clarkson sagt upp störfum eftir að hann veittist að samstarfsmanni sínum á BBC, en í kjölfarið hóf hann störf fyrir efnisveituna Amazon Prime.
If your A level results are disappointing, don't worry. I got a C and two Us, and I'm currently on a superyacht in the Med.
— Jeremy Clarkson (@JeremyClarkson) August 18, 2016