Tónlistarmaðurinn Marilyn Manson segir góðvin sinn, leikarann Johnny Depp, hafa verið krossfestan opinberlega. Og það án nokkurrar ástæðu.
„Lily Rose er guðdóttir mín og ég var viðstaddur þegar Jack kom í heiminn, svo við höfum lengi verið vinir,“ sagði söngvarinn í samtali við Daily Beast, en Lily Rose og Jack eru börn leikarans.
„Johnny er einn viðkunnanlegasti maður sem ég þekki, upp að því marki að það er næstum átakanlegt að sjá hversu góðviljaður hann er í garð vina sinna. Ég veit að hann var krossfestur, og það ranglega.“
Skilnaður Johnny Depp og fyrrverandi eiginkonu hans, leikkonunnar Amber Heard, gekk nýverið í gegn en segja má að hann hafi verið afar hatrammur. Heard sakaði leikarann um að hafa beitt sig grófu ofbeldi, og fékk meðal annars dæmt á hann nálgunarbann.
Depp og Heard komust seinna að samkomulagi sem fól í sér að leikkonan myndi draga ásakanir sínar til baka, en hann myndi greiða henni 7 milljónir Bandaríkjadali. Heard gaf síðan féð til góðgerðarmála.
Frétt mbl.is: Depp og Heard ná sáttum
Frétt mbl.is: Gefur 819 milljónir til góðgerðamála