Björk Guðmundsdóttir segist hafa verið heppin að alast upp á Íslandi því þá hafi hún þurft að finna upp á hlutunum sjálf. Björk sat fyrir svörum hjá samfélagssíðunni Reddit í gærkvöldi, þar sem aðdáendur söngkonunnar spurðu hana um allt frá eiginhandáritunum og að trúnni á framhaldslíf.
Blaðamaður Independent fjallar um málið og segir viðhorf Íslendinga til frægðarinnar og sjálfsmynda með frægu fólki vekja hjá sér löngun til að panta miða til landsins samstundis.
Björk var m.a. spurð hvort hún tryði á líf eftir dauðann og svaraði söngkonan „já og ég mun elda þar.“
Þá þakkaði hún aðdáanda sem var yfir sig hrifinn að sjá hana tilsýndar á bar í Reykjavík, en lét hjá líða að biðja um eiginhandáritun eða mynd af sér með henni. „Takk fyrir að leyfa mér að vera í friði. Það er ekki mikil valdaskipan á Íslandi og enginn er í raun mikilvægari en næsti maður og þess vegna verða sjálfsmyndir svolítið kjánalegar. Hér snýst þetta um sjálfsvirðingu. Ef þú vilt fá eiginhandáritun, þá viltu að hún sé þín eigin lol.“
Björk var sömuleiðis spurð að því hvert hún sækti innblástur í tónlist sína.
„Ég held að sköpunargleðin búi í okkur öllum, en náttúran getur verið stríðin og í hvert skipti sem maður heldur að maður hafi fundið sköpunargáfuna þá finnur hún sér nýjan stað að dvelja á ... hún leynist í sósuuppskriftum, leikritaskrifum, pappamassafígúrugerð með frændum, fundi á nýjum göngustöðum eða bara því að kynnast húmor fjölskyldumeðlima.“
Þá tjáði hún sig einnig um pressuna að vera eins og aðrir.
„Ég var líklega heppin að þegar ég var unglingur í Reykjavík var lítið við að vera. Þannig að við urðum eiginlega að búa þetta til sjálf og gefa það út. Þess vegna hef ég líka hunsað það þegar ég hef verið kynnt fyrir hamlandi aðferðum, vegna þess að þær voru ekki sannar. Það hræðir mig ekki að selja þrjú eintök mér finnst mikilvægara að vera samkvæm sjálfri mér.“
Þá lék einum aðdáanda forvitni á að vita hvernig henni hefði litist á eftirhermu Katyu af sér í raunveruleikaþættinum RuPaul’s Drag Race.
„Jessss, mér fannst hún æðisleg. Sérstaklega þegar hún byrjaði að raula með sjálfri sér. Ha ha ha á sjálfhverfan hátt var ég að vonast eftir nýrri týpu eins og t.d. af Vulnicura lol, en hún gjörsamlega negldi femíníska aðgerðarsinnan á Volta.“