Enn meiri Ófærð

Baltasar Kormákur (t.h.) ásamt Magnúsi Geir Þórðarsyni útvarpsstjóra við tökur …
Baltasar Kormákur (t.h.) ásamt Magnúsi Geir Þórðarsyni útvarpsstjóra við tökur á Ófærð.

RVK Studios og RÚV hafa náð samkomulagi um að hefja vinnu við nýja seríu af þáttaröðinni Ófærð. Áætlað er að nýja þáttaröðin verði frumsýnd á RÚV haustið 2018.

Fyrsta sería Ófærðar var framleidd af Baltasar Kormáki og Magnúsi Viðari Sigurðssyni og handritshöfundar voru Sigurjón Kjartansson og Clive Bradley. Sigurjón mun áfram leiða skrifin en í hópinn hafa nú bæst þær Yrsa Sigurðardóttir og Margrét Örnólfsdóttir, að því er segir í tilkynningu.

Þar segir ennfremur, að um 5,7 milljónir hafi séð fyrstu þætti Ófærðar í Frakklandi og að meðaltali horfðu 1,2 milljónir á þættina á BBC 4 í Bretlandi.

Þakklát fyrir samstarfið

„Við höfum átt í afar farsælu samstarfi við RÚV um þróun og framleiðslu Ófærðar, með þessum líka frábæra árangri, bæði hér heima og erlendis. Það er því mikið gleðiefni að ná samningum við RÚV um áframhaldandi samstarf og framleiðslu á annarri þáttaröð af Ófærð og við erum þakklát fyrir samstarfið við RÚV. RÚV er gríðarlega mikilvægt fyrir íslenskan kvikmyndaiðnað og það er afar ánægjulegt hvað nýir stjórnendur RÚV hafa aukið áhersluna á þennan þátt. Ég vona að RÚV verði gert kleift að halda áfram að sækja fram á þessum vettvangi, það hefur mikil margfeldisáhrif inn í greinina,” segir Baltasar Kormákur í tilkynningunni.

„Við erum afar spennt fyrir því að ná aftur saman þessum hæfileikaríka hópi til að vinna að annarri þáttaröð af Ófærð. Það má kannski segja að sagan sé rétt að byrja því við eigum eftir að kynnast söguhetjunum mun betur og fylgjast með þeim leysa fleiri margflóknar morðgátur,“ segir hann ennfremur.

Heiður fyrir RÚV

„Þetta eru gleðitíðindi fyrir okkur á RÚV og íslenska sjónvarpsáhorfendur. Fyrsta þáttaröð reyndist meiriháttar sjónvarpsviðburður sem óhætt er að segja að hafi heltekið gervalla þjóðina og sló öll áhorfsmet,“ segir Magnús Geir Þórðarson útvarpsstjóri í tilkynningu.

„Það er heiður fyrir RÚV að gefast tækifæri til að taka þátt í svona metnaðarfullri leikinni framleiðslu hjá Baltasar og samstarfsfólki hans sem stenst fyllilega samanburð við það allra besta sem gerist erlendis. Enda hefur árangurinn ekki látið á sér standa og verið einstaklega ánægjulegt að fylgjast með velgengni þáttaraðarinnar á erlendri grundu og það fyllir okkur stolti að eiga svo beina aðkomu að því að auka hróður íslenskrar kvikmyndagerðar og vita til þess að merki RÚV birtist milljónum spenntra sjónvarpsáhorfenda um heim allan. Það er metnaðarmál RÚV að bjóða upp á eins mikið af vönduð leiknu íslensku efni og kostur er og Ófærð er kannski skýrasta dæmið um hvert við viljum stefna og hvernig til getur tekist þegar nær allt gengur upp,“ segir ennfremur.

mbl.is
Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Þú heldur af þér með að gera eitthvað. Leyfðu sjálfstraustinu að njóta sín, því það er þitt bezta vopn.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar
Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Þú heldur af þér með að gera eitthvað. Leyfðu sjálfstraustinu að njóta sín, því það er þitt bezta vopn.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar