Söngvarinn Justin Bieber hefur undanfarna daga verið óhræddur við að láta aðdáendur sína heyra það, en hann hefur ítrekað skammað þá fyrir að vera með háreysti og yfirgang á tónleikum.
Í gær kom söngvarinn fram á tónleikum í Manchester og var hreint ekki ánægður með öskur og læti sem bárust frá áhorfendaskaranum.
Bieber var í þann mund að útskýra fyrir tónleikagestum hvers vegna yfirstandandi tónleikaferðalag ber heitið „Purpose“ þegar hann áttaði sig á því að gestir voru ekki áfjáðir í að hlusta á útskýringar hans.
„Ég hélt að ég gæti fengið augnablik til þess að segja svolítið. Ég skal bara hætta þessu kjaftæði ef þið viljið. Ég er bara að reyna að ná sambandi við ykkur, en ef þið viljið skal ég bara spila tónlistina.“
Nokkrum dögum áður skammaði söngvarinn tónleikagesti í Birmingham, en honum þótti þeir öskra heldur til mikið líkt og fram kemur í frétt Mirror.
„Krakkar getið þið gert mér greiða? Getið þið slakað á í smá stund? Ég kann að meta alla ástina, en getið þið sýnt hana með öðrum hætti? Þessi öskur eru svo andstyggileg.“