Útgáfufyrirtæki tónlistarmannsins Prince ætlar að gefa út fyrstu tónlistina eftir að hann lést í apríl. Þar á meðal verður heil plata með áður óútgefnu efni sem mun fylgja endurútgáfu af Purple Rain.
Tilkynningin kemur viku eftir að tónleikar voru haldnir til heiðurs Prince í heimaríki hans Minnesota.
Warner Brothers Records mun gefa út í næsta mánuði 40 laga safnplötu sem nefnist Prince 4Ever og með henni fylgir 12 blaðsíðna bæklingur með ljósmyndum.
Á plötunni verður eitt lag sem ekki hefur verið gefið út áður, eða Moonbeam Levels, frá árinu 1982.
Hin sígilda plata Prince frá árinu 1984, Purple Rain, verður endurútgefin á næsta ári. Með henni fylgir önnur plata með efni sem ekki hefur áður komið út.
Warner hafði samið við Prince um endurútgáfu Purple Rain áður en hann lést.
Prince 4Ever kemur út 25. nóvember út um allan heim en fer í sölu þremur dögum fyrr í Bandaríkjunum.