„Ég ætlaði aldrei að verða áttburamamma. Mig langaði alltaf í stóra fjölskyldu, en ekki svona stóra,“ sagði Natalie Suleman, áður þekkt sem Nadya Suleman, í sjónvarpsviðtali.
Suleman öðlaðist fyrst frægð eftir að hún ákvað að fara í tæknifrjóvgun, en hún átti þá sex börn auk þess sem hún var atvinnulaus. Eins og frægt er orðið varð hún síðan þunguð af áttburum og var í kjölfarið harðlega gagnrýnd fyrir að hafa gengið með öll börnin.
Suleman, sem þurfti að þola mikið umtal, segist hafa skammast sín svo mikið fyrir að fá bætur að hún hafi brugðið á það ráð að sitja fyrir nakin til þess að láta enda ná saman.
„Í stað þess að fá meiri hjálp frá hinu opinbera, sem ég skammaðist mín þá þegar fyrir, fór ég og sveik sannfæringu mína.“
Í dag hefur hún snúið við blaðinu, en hún breytti nafni sínu og starfar sem ráðgjafi. Hún segist ennfremur hafa veitt viðtalið til þess að geta hreinsað nafn sitt, enda hafi ímyndin alltaf fylgt henni.
„Ég sneri aftur til lífs míns sem ráðgjafi. Vandamálið er að fortíðin fylgdi mér, því fólk vissi aldrei hvað ég gerði áður fyrr. Það vissi aldrei alla söguna.“
Frétt Daily Mail