Leikkonan Evan Rachel Wood segir að hún hafi þráð háska og spennu þegar hún hóf samband við tónlistarmanninn Marilyn Manson.
Wood var aðeins 18 ára þegar hún fór að stinga saman nefjum með söngvaranum, en hann var 36 ára og giftur Ditu Von Teese.
„Ég þráði háska og spennu. Einn daginn sagði ég móður minni að ég ætlaði að stíga um borð í þessa tónleikarútu og skoða heiminn. Ég ætlaði að upplifa brjálæðislegt ferðalag og finna sjálfa mig,“ sagði leikkonan í viðtali við Rolling Stone, og bætti því við að á þessum tíma hafi hún verið að reyna að finna sjálfa sig.
„Svo er maður úthrópaður fyrir að reyna að finna út úr þessu og að sleppa fram af sér beislinu. Fólk kallaði mig hóru á götum úti, en það er ómögulegt að taka slíkt ekki nærri sér,“ sagði leikkonan.
Samband Wood og Manson stóð yfir í nokkur ár, en leiðir þeirra skildu árið 2010.