Bandaríska leikkonan Debbie Reynolds hefur verið flutt á sjúkrahús, degi eftir að dóttir hennar, Star Wars-leikkonan Carrie Fisher lét lífið.
Hún er talin hafa fengið heilablóðfall.
Vefsíðan TMZ greindi fyrst frá þessu.
Reynolds, sem er 84 ára, er sögð hafa verið stödd á heimili sonar síns Todd Fisher í Beverly Hills að ræða við hann um fyrirhugaða jarðarför dóttur sinnar þegar hún veiktist.
Report: Debbie Reynolds rushed to hospital for medical emergency https://t.co/wUHEOjfQBy pic.twitter.com/SLfe7jzx4e
— Hollywood Reporter (@THR) December 28, 2016
Reynolds er þekktust fyrir hlutverk sitt í söngvamyndinni Singing in the Rain frá árinu 1952 þar sem mótleikari hennar var Gene Kelly.
Hún sendi frá sér yfirlýsingu í gær vegna fráfalls dóttur sinnar: „Þakkir til allra sem hafa fagnað hæfileikum minnar ástkæru og mögnuðu dóttur. Ég er þakklát fyrir hugsanir ykkar og bænir, sem munu hjálpa henni á næsta tilverustig."
Frétt mbl.is: Stjörnuprinsessan sem fæddist fræg
Reynolds var tilnefnd til Óskarsverðlaunanna fyrir hlutverk sitt í The Unsinkable Molly Brown sem kom út 1964.
Hún gaf út sjálfsævisögu fyrir þremur árum sem nefndist Ósökkvanleg: Æviminningar. Þar greindi hún frá hæðum og lægðum fjölskyldulífsins í Hollywood.
Reynolds var gift föður Carrie Fisher, söngvaranum Eddie Fisher, í fjögur ár á sjötta áratugnum.