Carrie Fisher er kynslóðum fólks um allan heim sem dáði hana í hlutverki sínu sem Lilja prinsessa í Stjörnustríðsmyndunum harmdauði. Leikkonan og rithöfundurinn sem fæddist fræg vakti einnig athygli og virðingu með opinskáum lýsingum sínum á eigin vandamálum með fíkn og geðræn veikindi.
Samferðafólk Fisher og aðdáendur Stjörnustríðs um víða veröld hafa minnst hennar eftir að hún andaðist aðeins sextug að aldri í gær. Hún hafði fengið meiriháttar hjartaáfall í flugvél á leið frá London til Bandaríkjanna á Þorláksmessu.
Frétt Mbl.is: Carrie Fisher er látin
Í Lilju prinsessu af Alderaan túlkaði Fisher eina ástsælustu persónu kvikmyndasögunnar en hún var aðeins 19 ára gömul þegar hún fékk hlutverkið. Fyrir leikinn öðlaðist hún heimsfrægð og þrátt fyrir að hún hafi komið fram í fjölda annarra kvikmynda og sjónvarpsþátta verður hennar fyrst og fremst minnst fyrir prinsessuna með snúðana í hárinu.
Þó að Fisher hafi fyrst skotist upp á stjörnuhimininn í Stjörnustríði sagðist hún sjálf hafa fæðst fræg. Hún var dóttir leikkonunnar Debbie Reynolds og söngvarans Eddie Fisher, fædd 21. október árið 1956. Fyrsta ljósmyndin sem birtist af stúlkunni opinberlega var á síðum tímaritsins Life og var tekin þegar hún var hvítvoðungur.
Hjónaband foreldra Fisher var stormasamt en þeir skildu þegar hún var aðeins átján mánaða gömul. Faðir hennar yfirgaf móður hennar fyrir stórleikkonuna Elizabeth Taylor sem var þá eitt stærsta hneykslið sem hafði skekið Hollywood. Reynolds sneri sér að flöskunni eftir það. Samband Fisher við foreldrana var erfitt. Hún deildi hatrammlega við móður sína og sá föður sinn varla í æsku en tók kókaín með honum þegar hún komst á fullorðinsár.
Frétt Mbl.is: Stjörnustríðsleikarar minnast Fisher
Þegar tökur á Stjörnustríði hófust árið 1976 var Fisher þegar orðin drykkfelld og tók kókaín, LSD og verkjalyf. Fíkn hennar jókst aðeins með frægðinni sem hún öðlaðist með Stjörnustríðsþríleiknum. Árið 1985 þurftu læknar að dæla upp úr maga Fisher eftir að hún hafði tekið of stóran skammt af verkjalyfinu percodan.
„Ég er fegin að þeir gerðu það því það var sterk vísbending um að ég og eiturlyfin þyrftum að halda hvor í okkar átt,“ sagði Fisher um reynsluna.
Fisher greindist síðar með geðhvörf og þurfti að leggjast inn á geðdeild. Hefur hún verið lofuð fyrir að tala tæpitungulaust um veikindi sín og sjúkdóminn. Kom hún meðal annars fram í þætti breska gamanleikarans Stephen Fry um geðhvörf árið 2006.
„Ég er andlega veik. Ég get sagt það. Ég skammast mín ekki fyrir það. Ég lifði það af. Ég er enn að lifa það af, en komdu með það,“ sagði Fisher eitt sinn um veikindin.
Ástarlíf Fisher sjálfrar var einnig litríkt. Hún var gift söngvaranum Paul Simon en þau skildu eftir tæplega árs hjónaband. Síðar giftist hún umboðsmanninum Bryan Lourd sem hún átti dóttur sína Billie með. Lourd yfirgaf hana fyrir karlmann.
„Ég geri fólk samkynhneigt. Það er það sem ég geri. Það er óvenjulegur ofurkraftur,“ sagði Fisher við Baltimore Sun árið 2002.
Glíman við fíknina, veikindin og æskuárin urði Fisher efniviður í bækur sem hún skrifaði og voru að meira eða minna leyti sjálfsævisögur. Árið 1987 gaf hún út skáldsöguna Póstkort frá brúninni (e. Postcard from the Edge) þar sem sagði frá lífi á meðferðarstöðvum, ástarsamböndum og samskiptum dóttur við móður sína.
Síðasta bók Fisher, „Princess Diarist“, kom út á þessu ári en hún byggðist á dagbókum sem hún hélt á meðan tökur á fyrstu Stjörnustríðsmyndinni stóðu yfir. Uppljóstraði hún þar um að hún hefði átt vingott við mótleikara sinn Harrison Ford, sem þá var 33 ára gamall og giftur tveggja barna faðir.
Af kvikmyndunum sem hún lék í utan Stjörnustríðsagnabálksins minnast Fisher líklega flestir sem fyrrverandi kærustu persónu John Belushi í „Blúsbræðrum“ frá árinu 1980 og bestu vinkonu persónu Meg Ryan í „When Harry met Sally“ frá árinu 1989. Hún endurtók hlutverk sitt sem Lilja í framhaldi Stjörnustríðs sem frumsýnd var í fyrra, „Mátturinn vaknar“. Hún er sögð hafa klárað atriði sín fyrir næstu Stjörnustríðsmyndina sem á að koma út á næsta ári áður en hún lést.
Fisher varð einnig eftirsóttur ráðgjafi við handritsgerð í Hollywood. Lappaði hún meðal annars upp á handrit kvikmynda eins og „Sister Act“, „The Last Action Hero“ og „Wedding Singer“.
Fisher var gagnrýnin á meðferð Hollywood á konum og sagði frá því að hún hafi verið beðin um að léttast fyrir hlutverk Lilju prinsessu, bæði á sínum tíma og fyrir nýjustu framhaldsmyndina.
„Þeir vilja ekki ráða mig alla, bara um það bil þrjá fjórðu! Ekkert breytist, þetta snýst um útlitið. Ég er í bransa þar sem það eina sem skiptir máli er þyngd og útlit. Það er svo ruglað. Þeir gætu alveg eins sagt manni að yngjast því það er svipað auðvelt,“ sagði Fisher.
Vinir Fisher og samstarfsmenn hafa minnst vitsmuna hennar, kímnigáfu og persónutöfra. Gamanleikkonan Tina Fey, sem fékk Fisher til að leika aukahlutverk í þáttum sínum 30 Rock sem hún hlaut Emmy-tilnefningu fyrir árið 2007, minntist sérstaklega rithæfileika hennar.
„Carrie Fisher hafði mikla þýðingu fyrir mig. Eins og margar aðrar konur á mínu reiki þakti Lilja prinsessa um 60% af heilanum mínum á hverjum tíma. En hreinskilin skrif Carrie og beittir vitsmunir hennar voru enn stærri gjöf,“ sagði Fey í yfirlýsingu sem hún sendi frá sér vegna andláts Fisher.
Mark Hamill sem lék Loga geimgengil, bróðir Lilju, í Stjörnustríðsmyndunum, sagði Fisher hafa leikið lykilhlutverk bæði á starfsferli sínum og í persónulegu lífi sínu.
„Carrie var einstök og hún tilheyrði okkur öllum, hvort sem henni líkaði betur eða verr. Hún var OKKAR prinsessa, fjandakornið, og leikkonan sem lék hana rann inn í gullfallega, sérstaklega sjálfstæða og ferlega fyndna konu sem tók stjórnina og lét okkur missa andann. Hún var ákveðin og hörð af sér en viðkvæm á hátt sem lét fólk halda með henni og óska henni velgengni og hamingju,“ sagði Hamill í yfirlýsingu í gær.
#AFewWords pic.twitter.com/rOKiPr7gP9
— Mark Hamill (@HamillHimself) December 28, 2016