Carrie Fisher hefur verið lögð til hinstu hvílu, við hlið móður sinnar Debbie Reynolds, og var aska hennar var borin í duftkeri í laginu eins og risavaxin Prozac-tafla.
Útfararathöfnin fór fram í kyrrþey, en Fisher, 60 ára, og Reynolds, 84 ára, létust með aðeins dags millibili í desember.
Frétt mbl.is: Munu hvíla hlið við hlið
Fisher, sem einna best er þekkt fyrir leik sinn í hlutverki Leiu prinsessu í Stjörnustríðsmyndunum, var opinská um reynslu sína af geðsjúkdómum.
Eftir athöfnina, sem fram fór í Forest Lawn Memorial-garðinum í Hollywood-hæðum Los Angeles-borgar, sagði Todd Fisher, bróðir Carrie, að „taflan“ hefði orðið fyrir valinu vegna þess að systir hans hélt mikið upp á hana.
„Hún elskaði töfluna, sem var í húsinu hennar, og okkur Billie [dóttur Carrie] fannst að þarna myndi hún vilja vera.“
Bætti hann við að Fisher og móðir hennar væru nú saman, og að þær myndu vera „saman hér og í himnaríki“.
Engar aðrar upplýsingar voru gefnar upp um athöfnina, samkvæmt frétt BBC.
Þunglyndislyfið Prozac kom fyrst á markað í Bandaríkjunum árið 1988 og ári síðar í Bretlandi.