Ásta Fanney handhafi Ljóðstafsins

Ásta Fanney Sigurðardóttir.
Ásta Fanney Sigurðardóttir.

Handhafi Ljóðstafsins árið 2017 er ljóðskáldið Ásta Fanney Sigurðardóttir. Í öðru sæti var Áslaug Jónsdóttir og í þriðja sæti Fríða Ísberg. Verðlaunin voru afhent í gær á 100 ára fæðingarafmæli Jóns úr Vör.

Benedikt Árni Björnsson og Rebekka Rún Oddgeirsdóttir lentu í fyrsta …
Benedikt Árni Björnsson og Rebekka Rún Oddgeirsdóttir lentu í fyrsta sæti og Ásta Hauksdóttir í öðru sæti í ljóðasamkeppni grunnskóla Kópavogs.

Við sama tækifæri voru afhent verðlaun og viðurkenningar í Ljóðasamkeppni grunnskóla Kópavogs. Nemendur úr Kársnesskóla voru þar hlutskarpastir en Rebekka Rún Oddgeirsdóttir lenti í fyrsta sæti og Ásta Hauksdóttir í öðru sæti. Benedikt Árni Björnsson úr Salaskóla lenti í þriðja sæti, en öll eru þau í tíunda bekk. Ellefu önnur skáld á aldrinum 11-16 ára fengu viðurkenningar í keppninni en um 200 ljóð bárust í keppnina, samkvæmt fréttatilkynningu.

Í dómnefnd sátu skáldin Anton Helgi Jónsson, formaður, Ásdís Óladóttir og Bjarni Bjarnason. Hátt í þrjú hundruð ljóð frá skáldum af öllu landinu bárust í keppnina sem lista- og menningarráð Kópavogs stendur fyrir.

Ásta Fanney, handhafi Ljóðstafsins, fær farandgrip til varðveislu í eitt ár, verðlaunagrip til eignar en auk þess fá skáldin í þremur efstu sætunum peningaverðlaun. Sjö ljóð fengu einnig viðurkenningu dómnefndar og voru þau lesin upp við athöfnina.

Úr umsögn dómnefndar um ljóð Ástu Fanneyjar, Silkileið nr. 17:

Umbreytingar einkenna verðlaunaljóðið; það kallar fram í huganum myndir af nánd og nálægð en um leið af fjarska og fjarlægð. Ljóðið virðist fjalla um samskipti tveggja einstaklinga en um leið tengir það saman gamla og nýja tíma og ólíka menningarheima. Það er ró og æðruleysi í rödd þeirrar sem talar í ljóðinu og samt er engu líkara en úr orðunum verði til kvikmynd með hröðum klippingum. Það er farið hratt milli sviða frá snjó og vetri og þröngu sjónarhorni á plöntu í krukku og þaðan yfir í stærri heim með vísunum til tenginga við Austurlönd fjær og eyðimerkur í Mið-Austurlöndum uns snúið er aftur til einangraðrar sveitar og veturs á Íslandi. Verðlaunaljóðið er gott dæmi um sköpunarmáttinn sem býr í málinu og skáldskapnum og sýnir vel hvað eitt lítið ljóð getur rúmað stóran heim og opnað margar leiðir til túlkunar,“ segir í fréttatilkynningu.

Verðlaunaljóðið í samkeppninni um Ljóðstaf Jóns úr Vör 2017:

Silkileið nr. 17

þú breyttir mér óvart í vetur

og hélst ég væri planta (og sól og ský)

sem vökvaði sjálfa sig með snjó

og geymdir mig í brjóstvasa í krukku með mold

og úr laufunum láku silkileiðir í gegnum saumana

að tölu sem ég þræddi eitt sinn með hári

ég ferðast þaðan á hraða úlfalda

því annars verður sálin eftir segja arabar

í eyðimörk skyrtu þinnar

(sem minnir á handklæði)

er ég týnd í sveit milli sanda

of nálægt

til að geta aðskilið

jörð og skinn

svo ég skauta bara hér

þar til vorar

Ásta Fanney Sigurðardóttir

mbl.is
Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Hafðu stjórn á tilfinningum þínum þótt eitthvað verði til að róta upp í þeim. Einhver langt í burtu hjálpar þér með viturlegum ráðum, leiðbeiningum eða bænum.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar
1
Birgitta H. Halldórsdóttir
2
Torill Thorup
3
Solja Krapu-Kallio
4
Sarah Morgan
5
Sofia Rutbäck Eriksson
Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Hafðu stjórn á tilfinningum þínum þótt eitthvað verði til að róta upp í þeim. Einhver langt í burtu hjálpar þér með viturlegum ráðum, leiðbeiningum eða bænum.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar
1
Birgitta H. Halldórsdóttir
2
Torill Thorup
3
Solja Krapu-Kallio
4
Sarah Morgan
5
Sofia Rutbäck Eriksson