Hversdagsleikinn sýndur í Gerðarsafni

Ellefu íslenskir samtímalistamenn sýna nú sitt sjónarhorn á hversdagsleikann á sýningunni Normið er nýja framúrstefnan sem opnaði í vikunni í Gerðarsafni í Kópavogi. Hugmyndin er að vekja upp spurningar um þýðingu hins venjubundna og heimilislega í samtímanum​.

Mörg verkanna hafa ekki sést áður og voru sérstaklega gerð fyrir sýninguna. Listamennirnir sem sýna í Gerðarsafni eru eru: Anna Hrund Másdóttir, Arna Óttarsdóttir, Arnfinnur Amazeen, Emma Heiðarsdóttir, Finnur Arnar Arnarson, G. Erla – Guðrún Erla Geirsdóttir, Guðrún Hrönn Ragnarsdóttir, Loji Höskuldsson, Sólveig Aðalsteinsdóttir, Sveinn Fannar Jóhannsson, Þorvaldur Þorsteinsson.

mbl.is kom við í Gerðarsafni í vikunni.

Í tilkynningu segir:

Sýningin NORMIÐ ER NÝ FRAMÚRSTEFNA er hugleiðing um birtingarmyndir hversdagsleikans í íslenskri samtímalist. Markmið sýningarinnar er að skapa hugmyndalegar og sjónrænar tengingar milli verka listamanna af ólíkum kynslóðum, sem eiga það þó sameiginlegt að vísa í og vinna úr víðu merkingarsviði hversdagsins. Til grundvallar liggur sú tilgáta að finna megi snertipunkta milli myndlistar tíunda áratugarins og verka síðustu ára, sem verða sýnilegir ef verkin eru skoðuð í ljósi samtímahugmynda um hversdagsleikann.

Sýningin er ekki tilraun til þess að gera hefðbundna úttekt á ákveðnu listsögulegu viðfangsefni, því hér eru skilin á milli kynslóða ekki skýrt afmörkuð og verk yngri og eldri listamanna sýningarinnar skarast í tíma. Þá eru nokkur verk unnin fyrir árið 1990 og endurspegla hræringar í íslenskri myndlist áttunda áratugarins. Loks má draga í efa hvort rétt sé að tala um „íslenska samtímalist“ á sýningunni, en um helmingur sýnenda er búsettur og starfar að mestu erlendis. Allt er þetta til marks um þá flóknu söguskoðun sem fylgir nútímamyndlist en lýsir um leið vel samtímanum sem sýningin tekst á við.

Á sýningunni er hversdagsleikinn skoðaður frá sjónarhorni ellefu listamanna sem eiga það sameiginlegt að vinna verk sem verða til ​úr efni og aðstæðum hversdagsins og gera það hver með sínum persónulega hætti,​ hvort sem er á hugmyndalegan, myndrænan eða rýmislegan hátt​. Hér á hugtakið „hversdags“ ekki við um það sem er fábrotið eða ómerkilegt. Þvert á móti eru verkin á sýningunni póetísk. Þau varpa ljósi á fagurfræði hluta, þar sem kringumstæður hversdagsins eru undirstrikaðar og hið venjulega öðlast nýja merkingu með því að vera sett í óvænt samhengi. Verkin ​vekja með þessum hætti upp spurningar um þýðingu hins venjubundna og heimilislega í samtímanum​. Þau lýsa afdráttarlausri listrænni afstöðu til hversdagsleikans þar sem skynja má aðdáun á því sem er óvenjulega venjulegt.

Flest verkin sem eru til sýnis eru í eigu listamannanna sjálfra en einnig var leitað til íslenskra safna og gallería við gerð sýningarinnar. Mörg þeirra hafa ekki verið sýnd áður hér á landi, önnur eru að koma fyrir sjónir almennings aftur eftir langan tíma. Þá eru nokkur verk unnin sérstaklega fyrir sýninguna: annars vegar ný staðbundin verk sem eru gerð sérstaklega fyrir rými safnsins og hins vegar eldri verk sem ekki voru lengur sýningarhæf og ákveðið var að endurgera. Það er við hæfi að sýningin fari fram í Gerðarsafni sem hóf starfsemi sína um miðjan tíunda áratuginn, en hönnun safnsins ber þess merki í útliti og stíl. Í dag er safnið eitt helsta samtímalistasafn á landinu og því tilvalin umgjörð fyrir viðfangsefni sem teygir sig frá þessum tíma til dagsins í dag.

Listamenn: Anna Hrund Másdóttir, Arna Óttarsdóttir, Arnfinnur Amazeen, Emma Heiðarsdóttir, Finnur Arnar Arnarson, G. Erla – Guðrún Erla Geirsdóttir, Guðrún Hrönn Ragnarsdóttir, Loji Höskuldsson, Sólveig Aðalsteinsdóttir, Sveinn Fannar Jóhannsson, Þorvaldur Þorsteinsson.

Sýningarstjóri: Heiðar Kári Rannversson.

mbl.is
Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Sýndu öðrum tillitssemi og umburðarlyndi og þú munt fá þá framkomu endurgoldna þúsundfalt. Lærðu af reynslunni og mundu að ekki hafa allir sömu kímnigáfu og þú.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar
1
Kathryn Hughes
2
Torill Thorup
3
Steindór Ívarsson
5
Birgitta H. Halldórsdóttir
Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Sýndu öðrum tillitssemi og umburðarlyndi og þú munt fá þá framkomu endurgoldna þúsundfalt. Lærðu af reynslunni og mundu að ekki hafa allir sömu kímnigáfu og þú.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar
1
Kathryn Hughes
2
Torill Thorup
3
Steindór Ívarsson
5
Birgitta H. Halldórsdóttir