Breska söngkonan Adele hlaut Grammy verðlaunin fyrir bestu plötu ársins í Los Angeles í nótt en sagði við áhorfendur: „Ég get ekki þegið þessi verðlaun“. „Ég er mjög auðmjúk og þakklát en Beyonce er listamaður lífs míns.“
Verðlaunin fékk Adele fyrir plötu sína 25 og þykir þetta enn ein vísbending um að svartir listamenn eru hundsaðir á Grammy-verðlaunahátíðinni en hennar helsti keppinautur um verðlaunin var bandaríska tónlistarkonan Beyonce fyrir albúm sitt Lemonade.
Adele hlaut þrenn helstu verðlaunin á Grammy-verðlaunahátíðinni, fyrir smellinn Hello sem kom út á smáskífu og 25 sem var valin albúm ársins. Hún var tárvot þegar hún tók við verðlaununum og var Beyonce henniofarlega í huga.
Segir Adele að plata Beyonce, Lemonade, hafi veitt sér innblástur og að Beyonce sé dáð af öllu listafólki. „Þú er ljós okkar,“ bætti Adele við og beindi enn á ný orðum sínum til Beyonce sem greinilega var snortin af ummælum starfsystur sinnar.
25 er mest selda platan í heiminum undanfarinn áratug með einni undantekningu, fyrri plötu Adele, 21, sem var valin plata ársins á Grammy tónlistarhátíðinni 2012. Nöfnin á plötunum koma til af aldri Adele þegar þær eru teknar upp.
Adele hlaut alls fimm Grammy-verðlaun á hátíðinni í Los Angeles í nótt, þar á meðal þrjú af fjórum helstu verðlaunum hátíðarinnar: Besta albúm ársins (25), lag ársins (Hello) og plata ársins fyrir smáskífuna Hello.
Mikil umræða hefur verið um skertan hlut svartra tónlistarmanna á Grammy-verðlaunahátíðinni líkt og á Óskarsverðlaunahátíðinni. Vegna þessa ákváðu nokkrir tónlistarmenn að sitja heima í ár og mæta ekki á Grammy. Meðal þeirra eru þeir Frank Ocean og Kanye West, segir í frétt BBC.
Ocean jafnvel neitaði að heimila að plata hans Blonde, hefði möguleika á að verða fyrir valinu sem albúm ársins og sagði af því tilefni að Grammy verðlaunin virðast ekki hafa í för með sér neina breytingu fyrir þá sem koma úr sama umhverfi og hann.
Fyrir tveimur árum strunsaði West af sviðinu þegar albúm Becks, Morning Phase, hafði betur gegn Beyonce.
En hvað sem öllu líður þá seldist plata Adele 25 margfalt betur en Lemonade plata Beyonce á síðasta ári.
Ekki liggur ljóst fyrir hvort Adele hafnaði því formlega að þiggja verðlaunin fyrir albúm ársins (album) og ef svo er þá er það í annað skiptið sem það gerist.
Árið 1990 afþakkaði Sinead O'Connor verðlaunin þegar hljómplata (album) hennar I Do Not Want What I Have Not Got var valið albúm ársins á þeirri forsendu að hátíðin væri orðin of mikil söluvara.
David Bowie var tilnefndur í fimm flokkum og hlaut verðlaunin í þeim öllum. Eins fékk Beyonce þrenn verðlaun á hátíðinni.
Hér er hægt að skoða lista yfir verðlaun í öllum flokkum
Íslendingar áttu sinn fulltrúa á Grammy-verðlaunahátíðinni því ópera Corigliano - Draugar Versala vann til tvennra verðlauna á hátíðinni en Kristinn Sigmundsson syngur hlutverk Loðvíks 16 í uppfærslunni. Óperan hlaut tvenn verðlaun - sem besta klassíska albúmið og besta óperuupptakan.