Allt um Óskarinn 2017

Byrjað var að undirbúa athöfnina nú fyrir helgi en hún …
Byrjað var að undirbúa athöfnina nú fyrir helgi en hún fer fram í Dolby Theatre í Hollywood. Mynd/AFP

Óskarsverðlaunahátíðin verður haldin í dag í 89. skipti. Sem fyrr verður mikið um dýrðir en alls eru 62 kvikmyndir tilnefndar í 24 flokkum. La La Land er þar fremst í flokki með 14 tilnefningar en aðeins tvær kvikmyndir, Titanic og All About Eve, hafa áður hlotið svo margar tilnefningar. Áhugavert verður að sjá hvort myndin slái núgildandi met um flest verðlaun en þrjár myndir hafa áður hlotið 11 Óskarsverðlaun.

Óskarsverðlaunahátíðin hefst í dag klukkan 16 að staðartíma í Los Angeles í Bandaríkjunum. Útsending frá rauða dreglinum hefst klukkan 00.20 á RÚV og verðlaunaathöfnin verður sýnd í beinni útsendingu rúmum klukkutíma síðar, klukkan 1.30 í nótt.

Kynnir hátíðarinnar er að þessu sinni spjallþáttastjórnandinn Jimmy Kimmel og venju samkvæmt hefst hátíðin á eintali hans. Þar mun Kimmel að öllum líkindum gera góðlátlegt grín að gestum hátíðarinnar en þetta er í fyrsta skipti sem hann er kynnir Óskarsverðlaunanna. Kimmel hefur þó áður verið kynnir  á öðrum verðlaunahátíðum, til dæmis Emmy-verðlaununum og Bandarísku tónlistarverðlaununum.

Spjallþáttastjórnandinn Jimmy Kimmel er kynnir kvöldsins.
Spjallþáttastjórnandinn Jimmy Kimmel er kynnir kvöldsins. Mynd/AFP

Margir eru spenntir fyrir tónlistaratriðunum en þau eru yfirleitt ekki af verri endanum. Í ár verða öll lögin sem tilnefnd eru sem besta lagið í kvikmynd flutt á sviðinu en flytjendur þeirra eru meðal annars Justin Timberlake, John Legend og Sting. Justin Timberlake flytur lagið Can‘t Stop the Feeling úr teiknimyndinni Trolls og Sting flytur lagið The Empty Chair úr myndinni JIM: The James Foley Story. Þá flytur John Legend tvö lög en bæði Audition (The Fools Who Dream) og City of Stars úr myndinni La La Land eru tilnefnd í þessum flokki.

Líklegastar til sigurs

Verðlaunagreinandi The Hollywood Reporter, Scott Feinberg, hefur spáð fyrir um hverjir bera sigur úr býtum í öllum flokkum Óskarsverðlaunanna í ár. Samkvæmt spánni mun La La Land vinna alls 10 verðlaun og þar með slá núgildandi met yfir flest Óskarsverðlaun. 

Feinberg telur líklegt að La La Land verði valin besta kvikmyndin og að leikstjóri myndarinnar, Damien Chazelle, hljóti verðlaun sem besti leikstjórinn. Þá fær Emma Stone Óskarinn sem besta leikkona í aðalhlutverki og Lin­us Sand­gren fyrir bestu kvikmyndatökuna, samkvæmt spánni.

Stone og Gosling í hlutverkum sínum sem Mia og Sebastian …
Stone og Gosling í hlutverkum sínum sem Mia og Sebastian í La La Land.

Samkvæmt spá Freiberg mun Denzel Washington fá Óskarinn sem besti leikari í aðalhlutverki fyrir hlutverk sitt í myndinni Fences. Mahershala Ali (Moonlight) verður þá verðlaunaður sem besti leikari í aukahlutverki og Viola Davis (Fences) sem besta leikkona í aukahlutverki.

Freiberg segir Kenneth Lonergan (Manchester by the Sea) líklegastan til að hljóta verðlaun fyrir besta frumsamda handritið og Barry Jenkins og Tarell Alvin McCraney (Moonlight) fyrir besta handritið sem byggt er á útgefnu efni.

#Oscarssowhite liðin tíð?

Stjörnurnar og „glamúrinn“ eru ávallt órjúfanlegur hluti af Óskarsverðlaunahátíðinni en í gegnum árin hefur annað slagið borið á pólitískum og málefnalegum undirtónum og hafa verðlaunahafar og aðrir þá gjarnan tjáð sig á einn eða annan hátt um skoðanir sínar á ýmsum málefnum.

Á síðasta ári var Kvikmyndaakademían gagnrýnd harðlega fyrir skort á lituðu fólki í hópi tilnefndra en enginn þeldökkur, rómanskur (e. hispanic) eða asískur einstaklingur var tilnefndur fyrir leik, leikstjórn eða kvikmyndatöku. Var hátíðin sú „hvítasta“ frá árinu 1998.

Í ár eru 10 litaðir einstaklingar tilnefndir í þessum þremur flokkum en ekki eru allir sammála um hvort um er að ræða breytingu til frambúðar eða tímabundið svar við gagnrýni síðustu ára.

Fyrir besta leikara í aukahlutverki eru tilnefndir þeir Mahershala Ali (Moonlight), sem er þeldökkur, og Dev Patel (Lion), sem er breskur en af indversku bergi brotinn. Í flokki bestu leikkonu í aukahlutverki má finna þrjár þeldökkar konur, þær Viola Davis (Fences), Naomie Harris (Moonlight) og Octavia Spencer (Hidden Figures).

Bandaríska leikkonan Viola Davis hlaut BAFTA og Golden Globe fyrir …
Bandaríska leikkonan Viola Davis hlaut BAFTA og Golden Globe fyrir aukahlutverk í myndinni Fences. Mynd/AFP

Minni fjölbreyttni er meðal tilnefndra í flokki bestu leikara og leikkvenna í aðahlutverki en í hvorum flokki má finna einn litaðan einstakling. Denzel Washington er tilnefndur fyrir Fences og Ruth Neggawas fyrir Loving.

Tveir litaðir menn eru tilnefndir fyrir bestu kvikmyndatökuna, Bradford Young (Arrival) og Rodrigo Prieto (Silence), og einn fyrir leikstjórn, Barry Jenkins (Moonlight).

Má enn gera betur

Á sama tíma og margir gleðjast yfir meiri fjölbreytni í ár eru einhverjir sem segja að enn þurfi að gera betur en mikill meirihluti þeirra sem nefndir eru hér að ofan eru þeldökkir. Aðeins einn er af asískum uppruna og annar frá Rómönsku-Ameríku.

Í umfjöllun USA Today um fjölbreytileika Óskarsverðlaunanna í ár er haft eftir Octavia Spencer, sem hlaut Óskarsverðlaun fyrir besta leik í aukahlutverki árið 2012, fyrst þeldökkra kvenna, að hún sé að vonum ánægð með tilnefninguna. Hún gleðst yfir því að fleiri þeldökkir einstaklingar séu meðal tilnefndra en segir að sama skapi vanti enn meiri fjölbreytni.

Octavia Spencer hlaut Óskarsverðlaun árið 2012. Hún varð fyrst þeldökkra …
Octavia Spencer hlaut Óskarsverðlaun árið 2012. Hún varð fyrst þeldökkra kvenna til að hljóta Óskarinn sem besta leikkona í aukahlutverki. Mynd/AFP

„Mér finnst ekki að það sé mikil fjölbreytni. Það er svart og það er hvítt […] en það eru fleiri litaðir einstaklingar en amerískir blökkumenn […] Ég myndi vilja sjá fjölbreytni í leikstjórn, það eru stjórsnjallar konur í leikstjórn og kvikmyndatöku.“

Spencer er ekki ein um að gagnrýna skort á konum en aðeins 20% þeirra sem tilnefndir eru fyrir annað en leik eru konur. Þá er engin kona tilnefnd fyrir leikstjórn eða kvikmyndatöku og aðeins ein er tilnefnd fyrir besta handritið, Allison Schroeder fyrir Hidden Figures.

Pólitískar þakkarræður

Að því sögðu getur ekki sagst að gagnrýnendur skorts á fjölbreytileika meðal tilnefndra hafi verið háværir í ár en af fjölmiðlum þar vestra að dæma virðast fleiri búa sig undir pólitískar þakkarræður sem beint eða óbeint munu snúa að Donald Trump Bandaríkjaforseta.

BBC hefur þannig tekið saman lista yfir þá leikara og leikkonur sem líklegust eru talin til að gagnrýna Trump eða stefnu hans í þakkarræðum sínum, fái þau verðlaunin.

Efst á lista er Meryl Streep en hún hefur ekki legið á skoðunum sínum gagnvart forsetanum. Þegar Streep tók við heiðursverðlaunum á Golden Globe-hátíðinni í byrjun janúar gagnrýndi hún Trump harðlega og sagði Hollywood að miklu leyti byggja á innflytjendum og starfi þeirra.

Meryl Streep hélt áhrifaríka ræðu á Golden Globe-verðlaunahátíðinni þar sem …
Meryl Streep hélt áhrifaríka ræðu á Golden Globe-verðlaunahátíðinni þar sem hún gagnrýndi stefnu Donald Trump í málum innflytjenda. Mynd/AFP

Ekki er þó talið líklegt að Streep hreppi hnossið en Emma Stone (La La Land) og Natalie Portman (Lion) hafa einnig talað opinberlega gegn stefnu Trump. Þær eru allar þrjár tilnefndar sem besta leikkona í aðalhlutverki.

Meðal tilnefndra sem bestu leikarar í aðalhlutverki er Casey Affleck talinn líklegastur til að tjá sig um stjórnmálin en hann hrósaði Streep fyrir Golden Globe-ræðuna þegar hann tók við BAFTA-verðlaunum fyrr í mánuðinum.

Þá eru þau Mahershala Ali og Viola Davis talin líkleg til að beina spjótum að Trump. Þau eru tilnefnd fyrir besta leik í aukahlutverki en bæði hafa þau áður talað opinberlega gegn stefnu forsetans.

Einnig er líklegt að Jimmy Kimmel, kynnir hátíðarinnar, nýti eintal sitt við setningu hátíðarinnar til að skjóta á Trump og bandamenn hans en hann hefur, eins og fjölmargir aðrir spjallþáttastjórnendur í Bandaríkjunum, verið óhræddur við að gera grín að forsetanum á undanförnum vikum og mánuðum.

Sniðganga hátíðina í mótmælaskyni

Þá hefur íranski leikstjórinn Asghar Farhadi þegar sagt að hann muni ekki verða viðstaddur athöfnina, hvort sem hann fær að koma inn í Bandaríkin eða ekki. Með þessu vill Farhadi mótmæla tilraun Trump til að banna fólki frá Íran og sex öðrum löndum að koma til landsins.

Mynd Farhadi, The Salesman, er tilnefnd sem besta myndin á erlendu tungumáli en árið 2012 hlaut leikstjórinn íranski Óskarsverðlaun í sama flokki fyrir myndina A Seperation.

Íranski leikstjórinn Asghar Farhadi ætlar að sniðganga hátíðina í mótmælaskyni …
Íranski leikstjórinn Asghar Farhadi ætlar að sniðganga hátíðina í mótmælaskyni vegna tilskipunar Trump um að banna fólki frá sjö ríkjum að komast inn í Bandaríkin. Mynd/AFP

Aðrir ætla sér að sniðganga hátíðina af gagnstæðum ástæðum en hópur stuðningsmanna Donald Trump segist ekki ætla að fylgjast með Óskarsverðlaununum 2017 til að mótmæla „bitra fólkinu í skemmtanabransanum“. Þá sýndi nýleg könnun að 66% stuðningsmanna Trump hætta að horfa á verðlaunahátíðir ef þakkarræður verðlaunahafa verða of pólitískar. Hið sama átti við um 19% stuðningsmanna Hillary Clinton.

Ekkert er þó enn vitað um hvort hátíðin í ár verði með pólitískara móti eða hversu langt verðlaunahafar og kynnar munu ganga í að deila skoðunum sínum með áhorfendum. Það eina í stöðunni er því að bíða og sjá hvað setur. Hægt verður að fylgjast með hátíðinni í beinni útsendingu á RÚV frá klukkan 1.30 í nótt.

mbl.is
Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Þú heldur af þér með að gera eitthvað. Leyfðu sjálfstraustinu að njóta sín, því það er þitt bezta vopn.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar
Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Þú heldur af þér með að gera eitthvað. Leyfðu sjálfstraustinu að njóta sín, því það er þitt bezta vopn.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar