Búist er við því að dans- og söngvamyndin La La Land muni fara með sigur af hólmi á 89. Óskarsverðlaunahátíðinni, sem haldin er í Los Angeles í kvöld.
Alls keppir myndin í 13 verðlaunaflokkum og af þeim 14 sem eru tilnefndir fyrir aðkomu sína að myndinni, þykja margir skotheldir sigurvegarar ef marka má veðbankana.
Kvikmyndin, með þeim Emmu Stone og Ryan Gosling í aðalhlutverkum, hefur heillað gagnrýnendur um heim allan og halað inn tekjur sem nema rúmlega tíföldum kostnaði við gerð myndarinnar, sem voru 30 milljónir bandaríkjadala.
Mest þykir spennan vera í keppninni um verðlaun fyrir besta karlleikara í aðalhlutverki. Lengi hefur Casey Affleck þótt sigurstranglegastur, fyrir hlutverk sitt í myndinni Manchester by the Sea, en Denzel Washington hefur sótt á forskot hans síðustu vikur, miðað við tölur veðbanka, fyrir hlutverk sitt í Fences.
Hvað sem því líður er ljóst að mikið verður um dýrðir í kvöld.
Alls eru 62 kvikmyndir tilnefndar í 24 flokkum. La La Land er þar fremst í flokki með áðurnefndar 14 tilnefningar en aðeins tvær kvikmyndir, Titanic og All About Eve, hafa áður hlotið svo margar tilnefningar. Áhugavert verður að sjá hvort myndin slái núgildandi met um flest verðlaun en þrjár myndir hafa áður hlotið 11 Óskarsverðlaun.
Óskarsverðlaunahátíðin hefst í dag klukkan 16 að staðartíma í Los Angeles í Bandaríkjunum. mbl.is mun að sjálfsögðu greina frá því sem þar fer fram.
Kynnir hátíðarinnar er að þessu sinni spjallþáttastjórnandinn Jimmy Kimmel og venju samkvæmt hefst hátíðin á eintali hans. Þar mun Kimmel að öllum líkindum gera góðlátlegt grín að gestum hátíðarinnar en þetta er í fyrsta skipti sem hann er kynnir Óskarsverðlaunanna. Kimmel hefur þó áður verið kynnir á öðrum verðlaunahátíðum, til dæmis Emmy-verðlaununum og Bandarísku tónlistarverðlaununum.