Viðræður samevrópska kvikmyndafyrirtækisins Studiocanal standa yfir við Baltasar Kormák um að kaupa spennuþáttaröðina Kötlu sem Baltasar ætlar að framleiða. Greint er frá þessu í Variety í dag.
Studiocanal mun taka þátt í framleiðslu og annast sölu og dreifingu þáttanna erlendis en þáttaröðin er enn á handritsstigi. Líkt og nafn þáttaraðarinnar bendir til verður eldfjallið Katla áberandi í þáttunum.
Kvikmyndaritið hefur eftir Baltasar Kormáki að Studiocanal sé mjög áhugasamt um verkefnið og að fyrirtækið sé stórfyrirtæki í Evrópu. Hann mun leikstýra Kötlu og verkefnið verður unnið af fyrirtæki hans, RVK Studios.
Baltasar Kormákur segir í viðtalinu við Variety að verkefnið hafi þegar vakið athygli og áhugi sé fyrir því að endurgera þættina. Katla verður bæði tekin upp á ensku og íslensku.
Þáttaröðin mun gerast í Reykjavík þegar Katla hefur gosið í tvö ár með tilheyrandi áhrifum á líf íbúa landsins.