Rapparinn Aron Can þurfti leyfi frá móður sinni til að spila á balli í Edinborgarhúsinu á Ísafirði í gærkvöldi á tónlistarhátíðinni Aldrei fór ég suður í gærkvöldi.
„Ég Hekla móðir Arons staðfesti að ég viti um og gef leyfi fyrir því að Aron spili á balli í Edinborgarhúsinu á Ísafirði laugardagskvöldið 15. apríl 2017,“ stóð í leyfisbréfi sem móðir Arons undirritaði.
Aron, sem verður 18 ára seinna á árinu, spilaði ásamt Emmsjé Gauta á balli í gær. Gauti birti mynd af Aroni á Twitter-síðu sinni, þar sem Aron var skælbrosandi með leyfisbréfið.
Samkvæmt lögum um dvöl ungmenna á veitingastöðum er ungmennum yngri en 18 ára óheimil dvöl eftir kl. 22 á kvöldin og fram til lokunar staðarins nema í fylgd með foreldrum sínum, öðrum forráðamönnum, ættingjum eða maka, 18 ára eða eldri.
Strágurinn! pic.twitter.com/yn3yNkebwr
— Emmsjé (@emmsjegauti) April 16, 2017