Nokkrar flöskur af sterkum verkjalyfjum fundust á heimili Prince daginn sem hann fannst látinn á síðasta ári. Sumar þeirra voru ávísaðar á vini söngvarans. Prince lést úr ofskammti lyfja samkvæmt dómsskjölum sem birt voru opinberlega í dag.
Skjölin fjalla um fyrstu sex mánuði rannsóknar lögreglu á dauða Prince en hann fannst látinn á heimili sínu í Minnesota fyrir tæpu ári síðan. Söngvarinn hafði tekið of stóran skammt af verkjalyfinu fentanyl.
Í skjölunum má sjá vísbendingar um hvernig Prince notaði verkjalyf síðustu mánuðina fyrir dauða hans. Enginn hefur verið ákærður vegna dauða söngvarans en í skjölunum kemur ekki fram hvaðan söngvarinn fékk verkjalyfin.
Rannsakendur fundu hinsvegar pillur í ýmsum pakkningum í svefnherbergi Prince, sum þeirra voru ávísuð á Kirk Johnson, sem er gamall vinur Prince og umboðsmaður.
Sumar flöskurnar voru merktar Aleve og Bayer, sem eru algeng verkjalyf sem fást án lyfseðils, en innihéldu töflur merktar „Watson 853“ sem eru önnur og sterkari verkjalyfjablanda. Einnig fundust umslög og ferðatöskur með verkjalyfjum. Töskurnar voru merktar nafninu Peter Bravestrong sem var dulnefni söngvarans á ferðalögum.
Læknirinn Michael Todd Schulenberg, sem hitti Prince tvisvar áður en hann lést, hefur játað að hafa skrifað upp á verkjalyfið Percocet fyrir Prince en notað nafn Johnson til þess að vernda einkalíf söngvarans. Engin verkjalyf voru ávísuð á Prince sjálfan.
Prince fannst látinn í lyftu á heimili sínu 21. apríl 2016.