Jude Law hefur verið ráðinn til að fara með hlutverk Albus Dumbledore í næsta hluta Fantastic Beasts and Where to Find Them-kvikmyndaseríunnar. Myndirnar gerast í galdraheimi J.K. Rowling en atburðir næstu myndar eiga sér stað áratugum áður en Dumbledore verður skólastjóri hins heimsþekkta Hogwarts.
Law verður hinn ungi Dumbledore; þegar hann starfar sem ummyndunarprófessor við Hogwarts. Líklega mun myndin gera átökum hans og Gellert Grindelwald skil en komið er inn á þau í bókunum um Harry Potter og þá kom Grindelwald við sögu í fyrstu Fantastic Beasts-myndinni, þar sem hann var leikinn af Johnny Depp.
Tilkynnt var um ráðninguna á Pottermore.com, heimili skáldskapar J.K. Rowling á internetinu. Höfundurinn reit sjálf handritið að fyrstu Fantastic Beasts-myndinni og á einnig heiðurinn að handriti næstu myndar.
Tökur myndarinnar hefjast í sumar en hún verður frumsýnd 16. nóvember 2018. Til stendur að Fantastic Beasts-myndirnar verði fimm talsins.