„Öðruvísi en við hin“

Andri Freyr Viðarsson og Árni Kópsson.
Andri Freyr Viðarsson og Árni Kópsson.

Fyrsta heimildarmynd Andra Freys Viðarssonar í fullri lengd, Spólað yfir hafið, verður frumsýnd í Bíó Paradís í dag en í henni er keppendum í íslenskri torfæru, fjölskyldum þeirra, aðstoðarmönnum og fylgdarliði fylgt eftir. Í október í fyrra héldu 15 bílstjórar ásamt föruneyti í víking til Dyersburg í Tennesse í Bandaríkjunum og kepptu þar í íslenskri torfæru og var það fyrsta keppnin af því tagi sem haldin hefur verið þar í landi. Þeirra á meðal var þekktasta torfærutröll Íslandssögunnar, Árni Kópasson, sem hætti að keppa í torfæru árið 1993 en draumur hans var alltaf að keppa í Ameríku og því ætlaði Árni ekki að missa af. Hann keypti það sem eftir var af torfærubílnum Heimasætunni, smíðaði hann upp á nýtt og færði í upprunalegt útlit á allt of stuttum tíma, að sögn Andra, og skráði sig í keppnina. Þessi frægðarför hefur nú verið skrásett af Andra, Republik Film Productions og RÚV.

Frelsandi

Andri er margreyndur þegar kemur að gerð sjónvarpsþátta, hefur gert sex þáttaraðir fyrir RÚV en í þeim hefur hann verið á flandri bæði hér á landi og erlendis. Þáttaraðir sem kalla má heimildarþætti eða „menningar- og lífsstílsþætti“, eins og Andri kýs að kalla þá.

En hvernig fannst honum að gera 90 mínútna heimildarmynd, í samanburði við sjónvarpsþáttagerð? „Það var mjög frelsandi einhvern veginn, því ég hef alltaf verið að vinna í um fimm til tíu mínútna löngum innslögum en núna þurfti ég að einblína á eitthvað eitt og kafa dýpra,“ svarar hann. „Í sjónvarpi hef ég alltaf verið gæinn sem stendur fyrir framan myndavélina og er að tala en núna var það akkúrat öfugt. Núna var ég hinum megin við myndavélina að stýra tökum, hvað á að grípa og hvenær. Svo er annað, það þarf að skipuleggja ferðalagið, koma mér og tökumönnum til Dyersburg, Tennesee og sjá til þess að allir fái að éta og þak yfir höfuðið í átta daga og það í krummaskuði í suðurríkjunum. Það er aðeins öðruvísi og eins gott að hafa tökumennina góða, það hvílir mest á þeim og svo fer allt það álag beint á klipparann.“

Kraftur og bjartsýni

–Hvernig og hvenær fékkstu áhuga á að gera heimildarmynd um þetta efni, íslenska torfæru í Bandaríkjunum?

„Þetta er í rauninni mynd um fólkið í þessum kúltúr hérna á Íslandi. Við erum að fjalla um það á meðan það er að standa í þessum útflutningi eða þessari innrás til Bandaríkjanna sem var einstakt tækifæri til að fylgjast með því í aksjón. Ég var búinn að ganga með þá hugmynd lengi að gera eitthvað með fólkinu í þessum bransa,“ segir Andri. Hann hafi horft á þætti um torfæruna sem krakki í byrjun tíunda áratugarins og svo á N4 á sínum tíma og þótt sérstaklega gaman að horfa á viðtöl við keppendur og fólkið á bak við þá, fólkið sem heldur bílunum saman, eins og Andri kemst að orði.

„Þetta fólk er náttúrlega aðeins öðruvísi en við hin, það er meiri kraftur og bjartsýni í því,“ segir Andri og rifjar upp að honum hafi boðist að vera kynnir í torfærukeppni og þá hafi hann áttað sig á því að þetta fólk væri með einhverja sérstaka tengingu sín á milli og hagaði sér öðruvísi á besta mögulega hátt. Þegar hann hafi svo frétt af því að senda ætti 15 bíla og ökumenn ásamt föruneyti til Bandaríkjanna til að keppa í íslenskri torfæru þar í landi í fyrsta sinn, þ.ám. Árna Kópsson, hafi hann áttað sig á því að þar væri komið efni í heimildarmynd. „Mánuði seinna var ég kominn inn í skemmu í Kópavogi að fylgjast með Árna Kóps að endursmíða Heimasætuna og tæplega mánuði eftir það kominn til Tennessee!,“ segir Andri.

Gáttaðir á tilþrifunum

„Árni Kópsson er aðalkarlinn, allir sem eru af minni kynslóð og eldri muna eftir Árna og Heimasætunni og það er líka svo fallegt að hann smíðaði bílinn aftur í sinni upprunalegu mynd til að fara með hann út og keppa á þessu magnaða svæði, Bikini Bottoms Off-Road Park í Dyersburg í Tennessee. Árni er þó ekki eina persónan í myndinni, fleiri eru teknir sérstaklega fyrir og þeirra gengi, þar á meðal Guðbjörn „Bubbi“ Grímsson, skipuleggjandi útrásarinnar, og Svanur Örn Tómasson sem í dag á rosalegustu veltu torfærusögunnar.

Andri segir Bandaríkjamenn stunda torfæru sem þeir kalli „Hill climbing“. Slík torfæra sé töluvert ólík þeirri íslensku. „Þeir keyra bara beint upp og hafa aldrei séð svona bíl beygja í braut og hvað þá fara í gegnum einhver hlið og niður og aftur upp,“ útskýrir Andri.

–Menn hafa þá verið furðu lostnir þarna í Bikini Bottoms?

„Þeir voru alveg gáttaðir á þessu og sérstaklega á því hvað það var mikill kraftur í gengjunum sem gerðu við bílana strax eftir hverja braut. Ef það sprakk dekk hjá einhverjum Kananum fór hann bara heim, svona nánast,“ segir Andri og hlær.

–Þetta hefur verið hetjuferð?

„Já, þetta var mikil hetjuferð, maður var stoltur af því að vera Íslendingur þarna.“

Mikill kostnaður

–Fékkstu nýja sýn á þetta sport eftir að hafa gert myndina?

„Já, í rauninni. Það er ótrúlegt hvað þetta fólk leggur á sig og þá á ég m.a. við kostnaðinn sem fylgir því að halda bíl saman, smíða hann, fara með hann landshluta á milli og til útlanda og að borga undir allt liðið líka sem fylgir með. Margir borga undir sig sjálfir til þess að komast út til að halda bílunum saman og skemmta kannski þrjú þúsund manns. Þetta er alveg magnað og þetta fólk vinnur líka eins og ljón allan ársins hring. Þegar sumarið kemur er öllum peningunum eytt í varahluti,“ segir Andri. Torfærufólkið búi auk þess yfir einstakri þolinmæði enda sé hennar þörf þegar bílarnir gefi sig, brotni í sundur og bili hvað eftir annað.

–Þú segir í tilkynningu að myndin fjalli ekki um bíla og hestöfl heldur fallegt samband milli bílstjóra, fjölskyldna þeirra og aðstoðarmanna. Er „fegurð“ kannski orðið sem lýsir myndinni hvað best?

„Já, það er bróðerni í gangi þarna og svo er þetta svo mikið fjölskyldusport,“ segir Andri. Allir séu með; eiginkonur, börn, frændur og frænkur, með á öllum keppnum og á bólakafi í sportinu.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Gættu þess að skapa ekki stærri vandamál með framkomu þinni heldur en þau sem þú ætlar að leysa. Þú ættir að prófa að fara fyrr í háttinn.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar
1
Unnur Lilja Aradóttir
2
Jenny Colgan
3
Kathryn Hughes
4
Sarah Morgan
5
Birgitta H. Halldórsdóttir
Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Gættu þess að skapa ekki stærri vandamál með framkomu þinni heldur en þau sem þú ætlar að leysa. Þú ættir að prófa að fara fyrr í háttinn.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar
1
Unnur Lilja Aradóttir
2
Jenny Colgan
3
Kathryn Hughes
4
Sarah Morgan
5
Birgitta H. Halldórsdóttir
Loka