Bandaríska söngkonan Ariana Grande kom ungum aðdáendum á óvart er hún kom í óvænta heimsókn á Konunglega barnaspítalann í Manchester í gær. Grande, sem var nýfarin af sviði þegar Salman Abedi virkjaði sjálfsvígssprengju í Manchester Arena tónleikahöllinni í síðasta mánuði, mun halda styrktartónleika til stuðnings fórnarlömbum árásarinnar sem kostaði 22 lífið.
BBC hefur eftir Adam Harrison að dóttur hans Lily, sem var ein þeirra sem særðust, hafi „liðið eins og rokkstjörnu“ eftir að hitta átrúnaðargoð sitt.
„Hún er í sjöunda himni,“ sagði hann, en Lily útskrifast af sjúkrahúsinu í dag.
Lögregla í Manchester greindi frá því á föstudag að einn maður til viðbótar hefði verið handtekinn, grunaður um brot á hryðjuverkalögum. Hafa nú 17 manns verið handteknir í tengslum við árásina og eru 11 karlar enn í haldi lögreglu.
Grande kom til Bretlands á föstudag, en hún mun halda styrktartónleikana „One Love“ á Old Trafford á sunnudag. Auk Grande munu þar koma fram þau Justin Bieber, Katy Perry, Coldplay, Take That og Miley Cyrus.