„Trekk í trekk stend ég mig að því að fá gæsahúð af hrifningu,“ segir Hörður Áskelsson, organisti, kantor og stjórnandi Mótettukórs Hallgrímskirkju, um Messu í h-moll eftir J.S. Bach sem hann stjórnar á tvennum tónleikum í Hallgrímskirkju um helgina.
„Ástæðan fyrir því að við flytjum messuna að þessu sinni er kannski fyrst og fremst krafa frá kórfélögunum, sem hafa þurft að sitja undir sífelldum spurningum um hvenær við myndum flytja h-moll messuna aftur. Þegar 35 ára afmæli kórsins var við sjóndeildarhringinn nefndi ég við þau hvort væri ekki kominn tími á þetta verk, og var þá mikið júbblað,“ segir Hörður.
Helgina 10. og 11. júni, flytur kórinn í þriðja sinn Messu í h-moll eftir Johann Sebastian Bach. Um leið er því fagnað að kórinn hefur starfað í 35 ár, og sömuleiðis liðin 35 ár bæði frá stofnun Listvinafélags Hallgrímskirkju og frá því að Hörður hóf störf sem organisti kirkjunnar. „Það var nákvæmlega á þessum kirkjuársdegi fyrir 35 árum, fyrsta sunnudaginn eftir hvítasunnu árið 1982, að ég kom til starfa hjá kirkjunni,“ segir Hörður, en stofnun kórsins og Listvinafélagsins voru með fyrstu verkum hans.
Hann segir að Listvinafélaginu hafi m.a. verið ætlað að bæta ímynd Hallgrímskirkju. „Á þessum tíma var kirkjan mjög umdeild og ekki fullkláruð. Margir höfðu horn í síðu þessarar byggingar, þótti húsið ljótt og engin þörf fyrir svona mannvirki. Var listvinafélagið gagngert stofnað til þess að efla listalífið í þessum þjóðarhelgidómi, og virðist ég hafa verið svolítið klókur ungur maður á þessum tíma að gera mér grein fyrir því að við myndum þurfa á breiðum stuðningi að halda,“ útskýrir Hörður og bætir við að í stjórn félagsins hafi m.a. valist Sigurbjörn Einarsson biskup, Knut Ödegaard skáld og Matthías Johannessen, ritstjóri Morgunblaðsins. „Ég fékk gríðarlegan stuðning í gegnum listvinafélagið, og rétt að muna að á þessum tíma voru sáralitlir peningar aflögu til að fjármagna listviðburði – allt fór í að klára sjálfa bygginguna. Með því að safna áskrifendum, og með þetta góða fólk innanborðs, tókst að hleypa starfinu vel af stað.“
Hörður hafði nýlokið námi í orgelleik og kórstjórn í Düsseldorf þegar hann tók við organistastarfinu í Hallgrímskirkju. Hann segir að það hafi ekki verið erfið ákvörðun að koma aftur til Íslands, til að taka við hálfkláraðri kirkju. „Ég fór út að mennta mig með því hugarfari að geta snúið aftur til Íslands og orðið þar að einhverju gagni. Sjálfsagt hafa mér staðið allar dyr opnar eftir námið, og eftir að hafa leyst af einn þekktasta organista Þýskalands á meðan hann tók sér ársleyfi frá aðalkirkju mótmælenda í miðborg Düsseldorf. Hvarflaði samt aldrei annað að mér en að flytja aftur til Íslands.“
Hörður hefur heldur ekki verið einn að verki og hefur kona hans, Inga Rós Ingólfsdóttir, verið helsti samverkamaður hans við kirkjuna. Í síðustu viku lét Inga Rós af störfum hjá Sinfóníuhljómsveit Íslands, þar sem hún hefur verið sellóleikari í 35 ár, en undanfarin 20 ár hefur Inga líka verið framkvæmdastjóri Listvinafélagsins. „Inga Rós ákvað því fyrir tveimur áratugum að vera í hálfu starfi hjá Sinfóníuhljómsveitinni og hálfu starfi sem framkvæmdastjóri Listvinafélagsins,“ segir Hörður. „Umfang starfsins hefur vaxið smám saman og stöndum við núna fyrir um 50 listviðburðum á ári. Hjá bændum er það búskapurinn á býlinu sem er ræddur uppi í hjónarúmi á kvöldin, en hjá okkur er það búskapurinn uppi á Skólavörðuhæð sem er til umræðu.“
Eitt af fyrstu verkum Harðar var að stofna öflugan kór sem gæti ráðið við krefjandi verk. Hörður segir stofnun Mótettukórsins hafa gengið betur en hann þorði að vona, og var hann samt nokkuð bjartsýnn þegar hann auglýsti í blöðunum eftir „ungu fólki í kór sem kynni að lesa nótur“.
„Ég heyrði það út undan mér að sumum kollegum mínum þætti þetta helst til hrokafullt uppátæki hjá mér, og áttu von á að þessi ungi gikkur myndi fljótt renna á rassinn. En ég reyndist hafa heppnina með mér, og eftir fyrsta veturinn voru um 20 til 25 manns komin í kórinn. Eftir eitt ár til viðbótar var kórinn búinn að ná í um 40 meðlimi og í dag telur Mótettukórinn nærri 60 manns.“
Fyrstu árin fékk kórinn að halda tónleika í Kristskirkju enda var ekki búið að reisa meira en turninn á Hallgrímskirkju og litla kapellu þar sem messað var á sunnudögum. „Fljótlega vorum við komin á flug, farin að sækja söngviðburði erlendis og ná góðum árangri í keppnum.“
En af hverju vildi Hörður aðeins hafa ungt fólk í kórnum? „Ég var yngri þá en ég er nú, og get núna sagt frá öðrum sjónarhóli að ég hafði þá ranghugmynd að eftir fertugt gætu komið of miklar sveiflur í raddir söngvara, og hætt við að kórinn myndi missa þann léttleika sem ég vildi að einkenndi hann. Svo gerist það að ég eldist og þroskast, og þegar ég verð sjálfur fertugur átta ég mig á að þá er lífið rétt að byrja og aldurstakmarkið fullstrangt. Síðan þá má segja að hámarksaldur kórmeðlima hafi fylgt mínum eigin aldri. En kórinn hefur líka endurnýjað sig sjálfkrafa, og aldurinn haldist tiltölulega lágur. Virðist alltaf nokkuð stór hópur fólks á aldursbilinu 20-30 ára sem vill fá að spreyta sig í kröftugum kór.“
Að halda kór gangandi í 35 ár er ekki lítið afrek, og síst léttara núna á tímum snjallsíma og internets. Þegar Mótettukórinn var stofnaður var mun minni samkeppni um athygli kórfélaganna, og ekki einu sinni sjónvarp á fimmtudögum. „Ég get alveg staðfest það að hlutirnir hafa breyst. Núna vill fólk vera í kórnum og í svo mörgu öðru til viðbótar og álagið á vinnumarkaði er líka orðið meira. Áður fyrr var skipulagið miklu auðveldara, og fólk mætti þegar það átti mæta, en er núna skotist til Tenerife þegar síst varir. Á móti kemur að meira framboð er af hæfum söngvurum,“ segir Hörður. „Engu að síður getur verið gremjulegt þegar forföll verða í hópnum, og mikilvægt að fólk mæti samviskusamlega á æfingar. Að syngja í kór er ekki ósvipað og að spila knattspyrnu: fólk þarf að læra að leika saman, og æfingarnar eru undirstaða þess að ná árangri sem ein heild.“
Tónleikagestir geta vænst mikillar veislu á laugardag og sunnudag og þykir H-moll messa Bachs eitt fegursta verk sinnar tegundar. „Það gerist stundum við æfingarnar að ég upplifi mig eins og inni í einhvers konar paradísarhöll fegurðar og snilldar,“ segir Hörður, en messan þykir jafn krefjandi og hún er falleg. „Þegar Bach samdi verkið var það ekki hugsað til flutnings, heldur frekar sem eins konar vitnisburður um hans eigin snilld, og var það ekki fyrr en um miðja 19. öldina að verkið var flutt í heild sinni,“ útskýrir Hörður. „Bach fær að láni ýmsa búta úr eigin verkum, og hver kafli messunnar er nánast eins og sýning á mismunandi tónsmíðatækni og formum svo að það að ganga í gegnum verkið er eins og að spóka sig á myndlistarsýningu.“
Mótettukórinn flutti H-moll messuna fyrst sumarið 1999 á tónleikum í Hallgrímskirkju og Skálholti. Næst var messan flutt árið 2007. Er það ekki að ástæðulausu að svona langur tími hefur liðið á milli flutninga á verkinu, enda dýr uppfærsla. „Miðasalan gæti seint staðið undir kostnaði enda þarf kórinn að kalla til leiks fjölda atvinnumanna; bæði hljómsveit og einsöngvara. Styrkir og aðrar tekjur gera okkur kleift að ráðast í verkefni af þessari stærðargráðu,“ segir Hörður.
H-moll messan reynir líka á söngvarana og stjórnandann og er verkið t.d. á flestum stöðum fimmraddað, en venjuleg kórverk eru alla jafna fjögurra radda. „Bach notar mikið tvískiptan sópran, og fer jafnvel upp í átta radda söng á köflum þar sem ég skipti kórnum í tvennt. Þetta er mjög flókinn vefur en algjört gull.“
Segir Hörður kröftuga upplifunina af H-moll messunni síst minnka þó að hann hafi í tvígang áður kafað ofan í þetta verk. „Mér finnst núna orðið auðveldara að stjórna flutningnum, og eflaust spilar önnur reynsla þar inn í líka. En samt er alltaf eitthvað sem kemur á óvart, og eitthvað nýtt til að uppgötva. Trekk í trekk stend ég mig að því að fá gæsahúð af hrifningu.“