Frumstæð athöfn

Dubfire, réttu nafni Ali Shirazinia.
Dubfire, réttu nafni Ali Shirazinia. Birt með leyfi listamannsins

Bandaríski raftónlistarmaðurinn og plötusnúðurinn Dubfire, réttu nafni Ali Shirazinia, er einn þeirra sem koma munu fram á tónlistarhátíðinni Secret Solstice sem hefst í dag í Laugardal en hann þykir með þeim fremstu í heimi þegar kemur að rafmagnaðri danstónlist. Shirazinia skipaði áður dúettinn Deep Dish með félaga sínum Sharam Tayebi og nutu þeir mikillar hylli á sínum tíma, hlutu m.a. Grammy-verðlaun fyrir besta danslagið og bestu dansplötuna og endurhljóðblönduðu lög eftir fjölda heimskunnra tónlistarmanna og hljómsveita, m.a. Madonnu, Rolling Stones, Depeche Mode, Dido, Janet Jackson og Justin Timberlake. Deep Dish lék framsækna house-tónlist en þeir Shirazinia og Tayebi héldu svo hvor í sína áttina og hófu sólóferla. Shirazinia sneri sér að teknói og hefur nú leikið á nánast öllum tónlistarhátíðum og dansklúbbum heims, ef marka má vefsíðu Secret Solstice.

Líf í ferðatösku

Shirazinia er á leið í flug þegar blaðamaður nær tali af honum, viku áður en Secret Solstice hefst. Förinni er heitið til Suður-Kóreu og þaðan til Singapúr, Barcelona og Varsjár. Að loknum tónleikum í Varsjá liggur leiðin svo til Íslands og er Shirazinia að öllum líkindum lentur þegar þetta viðtal birtist. „Þetta er dálítið galið,“ segir hann um ferðalögin. „Mér tekst í raun aldrei að taka upp úr ferðatöskunni. Hún er alltaf tilbúin fyrir næstu ferð.“

Shirazinia hefur komið nokkrum sinnum áður til Íslands og komið fram með Deep Dish. „Ég á minningar frá þeim tíma og vini sem ég eignaðist og held enn sambandi við. Ég hef ekki hitt þá lengi og hlakka mikið til að snúa aftur. Og núna get ég sem betur fer staldrað við í nokkra daga og skroppið í skoðunarferðir,“ segir hann.

Í leit að ameríska draumnum

En hver er Ali Shirazinia? „Tja, í ljósi stöðunnar í stjórnmálum nú um stundir þá er ég innflytjandi sem kom til Bandaríkjanna árið 1979. Ég flúði byltinguna í Íran með foreldrum mínum og bróður í von um betra líf. Við vildum freista þess að upplifa ameríska drauminn sem við höfðum heyrt svo mikið um, njóta þeirra tækifæra og frelsis sem landið hafði upp á að bjóða. Ég var svo heppinn að geta nýtt mér þau tækifæri og frelsi til að hefja feril í tónlist og sem betur fer náði ég góðum árangri,“ svarar Sirazinia.

–Þú fæddist árið 1971. Hvaða tónlist hafði hvað mest áhrif á þig þegar þú varst ungur maður að hefja tónlistarferilinn ?

„Ég hlustaði mikið á það sem var í útvarpinu þá, á níunda áratugnum, popptónlist þess tíma og ég á margar góðar minningar tengdar henni. Þegar ég heyri lag frá níunda áratugnum kveikir það um leið ákveðnar minningar. En þar sem ég var ekki með góð tök á ensku og ekki einn af vinsælu krökkunum í skólanum, var frekar innhverfur, fór ég að umgangast meira krakka sem voru líkir mér og hneigðust að listum; myndlist, ljósmyndun, tónlist og annarri list. Þannig uppgötvaði ég alls konar áhugaverða tónlist sem ekki var leikin í útvarpi og naut ekki vinsælda og mér fannst hún tala til mín frekar en önnur. Ég kafaði djúpt í þann brunn og fann innblástur sem fleytti mér í gegnum unglingsárin. Mörg okkar voru að fikta við tónlist og ég fór að spila með hljómsveitum og grufla í raftónlist, koma fram sem plötusnúður og þetta vatt svo allt saman upp á sig og endaði með tónlistarferli,“ svarar Shirazinia.

Mikilvægt að tónlistin veki tilfinningar

„Það er auðvitað tæknileg hlið á starfinu en líka mikilvægt að persónulegur smekkur þinn skili sér í því, að þú spilir tónlist sem talar til þín og kveikir tilfinningar innra með þér,“ svarar Shirazinia, spurður að því hver sé mikilvægasti hluti starfs plötusnúðarins. „Síðan er það þessi andlega tenging sem þú nærð við áheyrendur, þessi rytmíska og tónlistarlega endurtekning sem getur leitt til þess að fólk verður gagntekið, líkt og það falli í trans, og þú með því. Plötusnúðar tala oft um að þeir verði eitt með áheyrendum og það þýðir í raun að þér hefur tekist að búa til hinn fullkomna storm, fullkomna einingu flytjanda og áheyrenda með þessari endurtekningu og þá skiptir máli hvernig þú hleður endurtekningunni upp, lag fyrir lag,“ útskýrir Shirazinia.

Hann segir listsköpun eða gjörning plötusnúðsins í raun mjög frumstæða athöfn og að það sé í eðli mannsins að dansa eða hreyfa líkamann þegar hann heyri takt sem höfðar til hans. „Að vera plötusnúður er því, fyrir mér, mjög frumstæð listsköpun og tjáningarform. Þú nærð einhvers konar sælu- og algleymisástandi með gestum.“

–Þetta virðist samt sem áður flókið starf tæknilega séð. Þú þarft að stýra flóknum græjum og ýta á marga takka?

Shirazania segir það misjafnt eftir því hver eigi í hlut. Tæknin sé ekki að flækjast fyrir plötusnúðum sem fari einföldustu leiðina, að spila hvert lagið á fætur öðru. Hann fari hins vegar aðra leið sem reyni á sköpunargáfuna og ögri sér í hvert sinn sem hann kemur fram. „Ég kem fram á yfir 100 viðburðum á ári og það yrði ansi leiðinlegt ef ég væri bara með heyrnartólin á hausnum og léki hvert lagið á fætur öðru. Með því að spila eins og ég geri og nýta tæknina til fullnustu verður upplifunin lífrænni og betri, bæði fyrir mig og gestina,“ bætir Shirazania við. Í ljósi þessa alls geti hann því ómögulega svarað því hvað hann komi til með að spila fyrir gesti Secret Solstice þó hann sé með ákveðna leið í huga, viti hvaða stefnu hann ætli að taka. „Það tekur allt frá hálftíma upp í klukkustund að fá góða tilfinningu fyrir áheyrendum, sjá við hverju þeir bregðast best. Þegar sú kanínuhola er fundin er hægt að fara ofan í hana.“

Of lítið og of mikið stuð

–Hefurðu lent í tónleikagestum sem virðast ekki bregðast vel við neinu sem þú spilar, komast hreinlega ekki í stuð?

Shirazania hlær. „Ég held að allir plötusnúðar hafi lent í því. Þú getur verið í besta klúbbi sem völ er á með besta hljóðkerfi sem til er og frábæra tónlist en samt lent í daufum gestum sem ekkert virðist hreyfa við. Og hið gagnstæða getur líka gerst.“

–Þú átt við að tónleikagestir geti orðið of æstir og að þú þurfir jafnvel að róa þá niður?

„Já. Ég hef lent í því að tónleikagestir séu að ganga af göflunum yfir einhverju sem ég er að spila og ég skil ekkert af hverju af því tónlistin hefur ekki þau áhrif á mig, lýsingin kannski líka of sterk eða hljóðið ekki nógu gott,“ segir Shirazania kíminn.

Hann er að lokum spurður að því hvað það sé sem haldi honum enn gangandi og spenntum fyrir því að koma fram sem plötusnúður. „Ég held að í grunninn sé það tvennt. Annars vegar tengist það því að hafa verið innhverfur á unga aldri en vilja vera úthverfur og finna þá leið í því koma fram fyrir fjölda fólks. Mér leið betur þegar ég tók þátt í skólaleikritum eða lék með hljómsveitum, mér fannst það betra en að eiga í persónulegum samskiptum innan fámenns hóps. Hins vegar er það svo tónlistin, mig langar að koma henni á framfæri. Ég naut þess sem strákur að uppgötva nýja tónlist og kynna hana fyrir öðrum og ég nýt þess enn. Ég hef verið að uppgötva nýja og stórkostlega raftónlist og nýti mér plötusnúðarstarfið til að koma henni á framfæri. Þessi löngun hefur ekkert dvínað með aldrinum þó tækninni hafi fleygt mikið fram og raftónlist þróast og náð mikilli útbreiðslu,“ segir Shirazania, betur þekktur sem Dubfire.

Tónleikar Dubfire fara fram í Hel á Secret Solstice, á miðnætti sunnudaginn 18. júní.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Þú ættir að eiga betra með að einbeita þér nú þegar þú hefur sett þér takmark. Sinntu því skyldum þínum af kostgæfni.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar
1
Birgitta H. Halldórsdóttir
2
Birgitta H. Halldórsdóttir
3
Sarah Morgan
4
Karin Härjegård
5
Unnur Lilja Aradóttir
Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Þú ættir að eiga betra með að einbeita þér nú þegar þú hefur sett þér takmark. Sinntu því skyldum þínum af kostgæfni.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar
1
Birgitta H. Halldórsdóttir
2
Birgitta H. Halldórsdóttir
3
Sarah Morgan
4
Karin Härjegård
5
Unnur Lilja Aradóttir