„Kominn tími til að elta drauminn“

Þóra Karítas Árnadóttir við tökur á Islandia.
Þóra Karítas Árnadóttir við tökur á Islandia.

Upptökum á stuttmyndinni Islandia er nú að mestu lokið og fer að líða að því að hún verði klippt og fullunnin. Eydís Eir Björnsdóttir skrifaði og leikstýrði myndinni og byggði söguna á eigin reynslu.

„Ég hef unnið alls konar störf; þ. á m. hef ég skrifað í tímarit og unnið í skapandi verkefnum ótengdum kvikmyndagerð. Ég hef tekið kúrsa í handritaskrifum og leikstjórn en mér finnst maður ekki endilega þurfa að fá einhverjar gráður í kvikmyndagerð. Ég útiloka samt aldrei neitt. Sem kona í kvikmyndagerð gæti það algjörlega verið skrefið fyrir mig, “ segir Eydís.

Kafað djúpt inn í sjálfan sig

„Nú er kominn tími til að elta drauminn því mig hefur alltaf langað til að skrifa og leikstýra kvikmyndum. Ég hef mikið verið að láta drauma annarra verða að veruleika en nú vil ég vinna í eigin verkefnum. Mér var sagt að ég væri svo mikill brunnur af sögum og ég held að ég muni einmitt nota reynslu mína áfram í fleiri myndum. Í skapandi starfi er maður alltaf að kafa djúpt inn í sjálfan sig. Þó langaði mig að segja líka sögur annarra kvenna og helst akkúrat sögur um konur. Konur bera margar hverjar ósagðar sögur innra með sér og því er mikilvægt að heyra í okkur og sjá okkur á hvíta tjaldinu.“

Eydís Eir Björnsdóttir.
Eydís Eir Björnsdóttir.

Endar í fangelsi

Islandia fjallar um íslenska konu sem ferðast til annars lands, lendir þar í hremmingum og endar í fangelsi. „Þetta er svo stór og mikil saga að það var áskorun að þjappa þessu saman í tuttugu mínútur. Þess vegna hef ég íhugað að gera kvikmynd í fullri lengd út frá Islandia. Ég er þó með fjöldann allan af sögum sem mig langar að segja. Ég á nokkur handrit til, bæði fyrir stuttmyndir og kvikmyndir í fullri lengd. Það breytist þó alltaf hvernig sagan verður á endanum. Ég er í samtökum um konur í kvikmyndum og sjónvarpi og hef farið á nokkrar ráðstefnur þar sem konur frá Norðurlöndunum hittast og segja frá hugmyndum sínum. Ég kynnti þar einmitt hugmyndina að Islandia. Ég faldi það um tíma að þetta væri byggt á mér, ætli það hafi ekki verið til þess að fjarlægja mig frá sögunni; að tala um mig í þriðju persónu í þessu. Ég var komin í miðja ráðstefnuna án þess að hafa nefnt það en svo ýtti ein konan í mig og sagði mér að ég yrði að greina frá að þetta væri um mig. Það myndi grípa fólk. Nú fyrst finnst mér þægilegt að tala um að þetta sé byggt á mér en á sínum tíma vissi meira að segja fólk sem var búið að samþykkja að vera í myndinni það ekki. Ég hef falið það rosalega vel,“ segir Eydís.

Leikarar flestir spænskir

Islandia er tekin upp í fangelsi við fjallabæinn Segovia norðan við Madríd á Spáni en fer aðallega fram á ensku og eru flestir leikararnir, að aðalleikkonunni undanskilinni, spænskir. „Þetta er svo margt fólk. Maður fattar ekki alveg fyrr en maður er kominn þangað hversu mikið batterí þarf í svona myndir. Þetta var stór hópur, um fimmtíu manns að aukaleikurum meðtöldum. Þetta var hellingur af fólki frá Íslandi, Spáni, Kanada og Tyrklandi. Við bjuggum saman í húsum og unnum náið saman. Allir höfðu mikla trú á verkefninu. Hverjum einasta fannst sagan alveg geggjuð; allir höfðu þessa sömu ástríðu fyrir verkinu og ég. Það var rosalega gott að finna það. Ég var í frábæru standi í kringum allt þetta fólk þótt ég þekkti suma ekki neitt því allir brunnu fyrir myndinni og sögunni. Mögulega var það þess vegna sem upptökurnar vöktu svona mikla athygli heimamanna. Það kom hellingur af fólki á settið og bað um að vera með og fá að leika í myndinni.“

„Eins og kamelljón“

Eydís hrósar Þóru Karítas Árnadóttur, sem leikur aðalhlutverk myndarinnar, sérstaklega og segist hafa unnið náið með henni til þess að hjálpa henni að lifa sig inn í hlutverkið. „Það var magnað að vinna með henni. Upphaflega átti Ágústa Eva að leika aðalhlutverkið en ýmislegt kom upp á svo að við ákváðum að hafa opnar prufur. Við fengum svo margar hæfileikaríkar konur. Leikkonur fá sjaldan tækifæri til að koma í prufur í okkar litla landi. En Guð minn almáttugur, mér datt ekki í hug að Þóra myndi negla þetta. Ég var með ákveðnar skoðanir, enda skrítið að vera leita að einhverri sem líkist sjálfri mér. Þóra nefndi að sumir í bransanum hefðu sagt við hana að hún væri of sæt fyrir hlutverk sem hún sóttist eftir. Ég held að þeir hafi vanmetið þessa mögnuðu leikkonu. Hún var til í allt og brann fyrir sögunni. Hún var tilbúin að breyta öllu útliti sínu ef því væri að skipta. Það er einmitt mjög gaman að sjá leikara bregða sér í annað hlutverk en venjulega, eins og kamelljón. Þá fá þeir að blómstra,“ segir Eydís.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Sýndu öðrum tillitssemi og umburðarlyndi og þú munt fá þá framkomu endurgoldna þúsundfalt. Lærðu af reynslunni og mundu að ekki hafa allir sömu kímnigáfu og þú.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar
1
Kathryn Hughes
2
Torill Thorup
3
Steindór Ívarsson
4
Birgitta H. Halldórsdóttir
Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Sýndu öðrum tillitssemi og umburðarlyndi og þú munt fá þá framkomu endurgoldna þúsundfalt. Lærðu af reynslunni og mundu að ekki hafa allir sömu kímnigáfu og þú.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar
1
Kathryn Hughes
2
Torill Thorup
3
Steindór Ívarsson
4
Birgitta H. Halldórsdóttir