Breskur maður hefur stofnað undirskriftalista sem biður íslenska ríkið um að setja upp styttu í Hafnarfirði af Stefáni Karli Stefánssyni leikara.
„Setjum styttu af leikaranum Stefáni Karli Stefánssyni í heimabæ sínum Hafnarfirði,“ heitir undirskriftalistinn, sem tæplega 10.000 manns hafa skrifað undir og fer talan ört hækkandi.
Bretinn, sem gengur undir nafninu Adem A á internetinu, skrifar hjartnæmt bréf með undirskriftalistanum og biður fólk að hjálpa sér að koma listanum á framfæri.
„Stefán Karl er frábær manneskja, hann hefur hjálpað börnum (og fullorðnum líka) um allan heim og glatt þau (eins og mig þegar ég var yngri). Hann hefur líka talað um einelti og hvernig skal stöðva það. Þessi maður á ekki skilið það sem hann er að ganga í gegnum. Ef þú styður þetta, endilega deildu þessu hvert sem þú getur,“ segir Adem í bréfi sínu.
Fólk um allan heim er harmi slegið yfir fréttum af veikindum Stefáns, en hann snerti hjörtu margra með leik sínum sem Robbie Rotten (Glanni glæpur) í Amerísku útgáfunni af Latabæ.
Hægt er að styðja málefnið með því að skrifa undir hér.