Bandaríski kvikmyndaleikarinn Shia LaBeouf hefur beðist afsökunar eftir að hann var handtekinn fyrir að ógna lögreglumanni síðasta laugardag.
„Ég skammast mín gífurlega fyrir hegðun mína og hef engar afsakanir fyrir henni,“ stóð í skilaboðum sem LaBeouf birti á Twitter í gær.
Leikarinn bætti því við að hann ætli að vinna í því að verða edrú þar sem hann sé búinn að vera fíkill of lengi og vonar að botninum sé náð.
LaBeouf ógnaði lögreglumanni eftir að hann neitaði að gefa honum sígarettu samkvæmt tilkynningu lögreglunnar í Georgíu-fylki.
Myndband af handtökunni hefur farið eins og eldur um sinu um netið en á myndbandinu heyrist LaBeouf ásaka lögreglumennina um að vera rasistar vegna þess að hann segir þá aðeins hafa handtekið sig fyrir að vera hvítur.
Þetta er í annað skipti sem leikarinn er handtekinn á þessu ári.
— Shia LaBeouf (@thecampaignbook) July 12, 2017