Söngvarinn R. Kelly hefur verið sakaður um að hafa heilaþvegið konur, lokað þær inni á heimili sínu, skipað þeim fyrir verkum, klippt á samskipti þeirra við umheiminn og neytt þær til kynmaka við sig. Fjölskyldur tveggja kvennanna lýsa þessu sem nokkurs konar „sértrúarsöfnuði“ í rannsókn miðilsins BuzzFeed á málinu.
Blaðamaður BuzzFeed segir að sumarið 2016 hafi að minnsta kosti fimm ónefndar konur verið hluti af „söfnuðinum“ eða „költinu“. Tvær þeirra hafi þá verið táningar, en þó yfir samræðisaldri sem í Bandaríkjunum er 16 ár.
Fjölskyldur stúlknanna, og þrjár fyrrum ástkonur Kellys, segja hann vera gríðarlega stjórnsaman. Hann stjórni því hvernig konurnar klæði sig og hagi sér. Ástkonurnar þrjár eru Cheryl Mack, Kitti Jones og Asante McGee.
„Þú þarft að biðja um mat. Þú þarft að biðja um að fá að fara á salernið. [Kelly] er meistari í hugastjórnun. Hann er brúðumeistari,“ er haft eftir Mack.
Kelly er sagður hafa gert síma kvennanna upptæka og hindrað samskipti þeirra við fjölskyldur sínar. Þá er hann sagður taka upp á myndbönd kynmök sín við konurnar til að sína vinum sínum. Auk þess er hann sagður neyða þær til að kalla sig „daddy“ eða „pabbi“ og krefja þær um að biðja um leyfi til að yfirgefa herbergi sín sem eru í húsum í eigu Kellys í Chicago og Atlanta.
Jones sakar Kelly um að hafa lamið hana og haldið henni upp við tré eftir að hann sagði hana hafa verið „of vingjarnlega“ við starfsmann Subway.
Móðir einnar konunnar sem býr enn hjá Kelly sagði blaðamanni BuzzFeed frá síðasta skipti sem hún hitti dóttur sína, í desember 2016. „Það var eins og hún hefði verið heilaþvegin. Hún leit út eins og fangi - þetta var hryllilegt. Ég knúsaði hana og knúsaði hana. En hún sagði bara stöðugt að hún væri ástfangin og að Kelly væri sá sem annast hana,“ sagði hún.
Samkvæmt fréttinni hefur lögregla í Illinois og Georgíu ekki fundið neitt ólöglegt við fyrirkomulagið á heimilum Kellys. Ein konan, sem er upprennandi söngkona, sagði við lögreglu að hún væri „í góðu lagi og vildi ekki að foreldrar hennar trufluðu hana.“
McGee sagði blaðamanni BuzzFeed hins vegar frá unglingsstúlku sem hefði verið ástfangin upp fyrir haus af Kelly, en hann hefði refsað henni: „Hann skildi hana eftir í tónleikarútunni í þrjá daga og leyfði henni ekki að koma út. Hann sagði að hún hefði ekki unnið heimavinnuna sína - þess vegna væri henni refsað - sem var mjög ruglandi því hún var nýútskrifuð úr menntaskóla.“
Foreldrar sömu stúlku sögðu í samtali við blaðamann BuzzFeed að þau næðu ekki lengur neinu sambandi við dóttur sína. „Fólk hefur látist í fjölskyldunni og það hafa verið haldnar afmælisveislur en ég hef ekkert heyrt frá henni og hún hefur ekki verið hér í gegnum neitt af þessu. Ég heyrði ekki einu sinni í henni á mæðradaginn. Það eina sem ég vil er að fá hana heim,“ sagði móðir hennar.
Lögmaður Kellys hefur hafnað ásökununum í yfirlýsingu til BuzzFeed. „Við getum bara velt því fyrir okkur hvers vegna fólk reynir að ærumeiða frábæran listamann sem elskar aðdáendur sína, vinnur allan sólarhringinn, og passar upp á allt fólkið í sínu lífi. Hann vinnur hart að því að verða besta útgáfan af sjálfum sér og besti listamaður sem hann getur orðið,“ skrifaði Linda Mensch.
„Það er athyglisvert að sögur sem voru afsannaðar fyrir mörgum árum dúkka aftur upp þegar markmið hans er að stöðva ofbeldi; leggja niður byssur; og dásama frið og ást. Ég geri ráð fyrir að þetta sé það sem frægt fólk þarf að gjalda fyrir. Eins og við öll þá verðskuldar Kelly persónulegt líf. Vinsamlegast virðið það.“
Árið 2008 var Kelly sýknaður af ásökunum um að hafa í fórum sínum barnaklám, eftir að hafa verið sakaður um að hafa tekið upp á myndband kynmök við 14 ára gamla stúlku. Þá hefur hann oftar verið sakaður um að hafa haft kynmök við stúlkur undir aldri, og einnig sakaður um að hafa gifst söngkonunni Aaliyah ólöglega þegar hún var 15 ára.
Kelly, sem er fimmtugur, er einn vinsælasti R&B söngvari allra tíma. Hann hefur selt milljónir platna með lögum á borð við I Believe I Can Fly, Bump N' Grind og Ignition.