Stjórnarformaður og annar stofnandi Costco, Jeffrey Brotman, lést á þriðjudag 74 ára að aldri.
Bandaríska verslunarkeðjan greindi fyrst frá andláti Brotmans en hann stofnaði Costco ásamt Jim Sinegal árið 1983. Samkvæmt bróður Brotmans lést hann í svefni heima hjá sér.
Sinegal sagði að lát Brotmans hafi verið mikið áfall þar sem að kvöldið áður hefði hann setið ráðstefnu með 2.000 Costco vakstjórum í Washington-fylki.
„Það var ekki hægt að líka illa við Jeff,“ sagði Sinegal við Seattle Times og bætti við að Brotman hafi aldrei leyft Sinegal að reiðast út í sig og viðhorf hans hafi verið ástæða þess að þeir voru aldrei reiðir hvor út í annan lengur en sólahring.
Brotman sá um útbreiðslu Costco-verslana um allan heim og tók mikilvægar ákvarðanir um hvar næsta verslun skyldi vera staðsett. Hann var sá sem tók ákvarðanir í tengslum við allar þær 736 Costco-verslanir um öll Bandaríkin, Kanada, Mexíkó, Evrópu og Asíu.
Brotman, ásamt Sinegal, byggði upp frá grunni eina stærstu verslunarkeðju heims, sem skilaði veltu upp á 119 milljarða dollara árið 2016.