Justin Bieber birti bréf á Instagram í nótt þar sem hann útskýrði fyrir aðdáendum sínum af hverju hann aflýsti síðustu tónleikum Purpose-tónleikaferðarinnar sem hann hefur nú verið á í rúmlega eitt ár. Þetta er í fyrsta sinn sem hann tjáir sig opinberlega um málið frá því að því var lýst yfir á Facebook-síðu hans í síðustu viku að því sem eftir væri af tónleikaferðinni væri aflýst. Tilkynningin vakti mjög hörð viðbrögð. Margir höfðu keypt miða fyrir fleiri mánuðum, jafnvel fyrir börn sín.
Bieber byrjar bréf sitt á því að lýsa því hversu þakklátur hann er fyrir aðdáendur sína. „Ég er þakklátur fyrir tónleikaferðalagið en fyrst og fremst er ég þakklátur fyrir YKKUR!“ skrifaði hinn 23 ára gamli söngvari. „Að vaxa úr grasi hefur ekki alltaf verið auðvelt en fullvissan um að ég væri ekki einn hefur haldið mér gangandi. Ég hef látið óöryggi mitt ná yfirhöndinni á tíðum. Ég hef leyft samböndum sem gengu ekki upp stjórna því hvernig ég hagaði mér gagnvart fólki. Ég hef látið biturð, afbrýðisemi og ótta stjórna lífi mínu! Ég er einstaklega heppinn að hafa fólk í kringum mig síðustu ár sem hefur hjálpað mér að byggja mig aftur upp og hefur minnt mig á hver ég er og hver ég vil verða!“
Bieber segir að Purpose-tónleikaferðin hafi verið ótrúleg og að hann hefði lært mikið á henni.
Hann tjáir sig svo um hvers vegna henni var frestað og ítrekar að hann hafi þurft að fá hvíld.
„Með því að taka mér þennan tíma núna þá er ég að segja að ég vilji verja SJÁLFBÆR,“ skrifar söngvarinn ungi. „Ég vil að ferill minn verði sjálfbær og ég vil að hugur minn, hjarta og sál verði sjálfbær. Svo að ég geti verið sá maður sem ég vil verða, sá eiginmaður sem ég einhvern tímann vil verða og sá faðir sem ég vil verða.“
Í tilkynningunni í síðustu viku kom fram að tónleikaferðinni væri frestað vegna „ófyrirsjáanlegra ástæðna.“ Ítrekað var að Bieber elskaði aðdáendur sína og þyki leiðinlegt að hafa valdið þeim vonbrigðum.“
Á tónleikaferðinni hefur Bieber haldið 150 tónleika, m.a. hér á landi.
Í síðustu viku voru sagðar fréttir af því að Bieber hefði keyrt á bíl ljósmyndara er hann var að yfirgefa kirkju í Los Angeles. Samkvæmt fréttum var Bieber að reyna að aka í burtu frá kirkjunni en bílar ljósmyndara fylltu götuna. Hann er sagður hafa ekið óvart utan í bíl eins þeirra er hann reyndi að komast af vettvangi.