Af hreinleika hjartans

Ari Matthíasson þjóðleikhússtjóri.
Ari Matthíasson þjóðleikhússtjóri. mbl.is/Árni Sæberg

„Það eru mjög margir þættir sem ráða samsetningunni þegar maður setur saman leikár,“ segir Ari Matthíasson þjóðleikhússtjóri og vísar m.a. í menningarstefnu sem mörkuð er pólitískt af ráðherra í samráði við Þjóðleikhúsið. „Frá því ég tók við hef ég lagt mjög mikla áherslu á að Þjóðleikhúsið sé leikhús allra landsmanna og að við förum með leiksýningar út á land,“ segir Ari og rifjar upp að í hittifyrra hafi Þjóðleikhúsið sýnt á fimm stöðum á landsbyggðinni og í fyrra hafi þeim fjölgað í tuttugu.

„Við leggjum mikla áherslu á list án aðgreiningar m.a. með tilliti til efnahags og búsetu,“ segir Ari, en í október verður barnasýningin Oddur og Siggi frumsýnd á Ísafirði og í framhaldinu sýnd á hátt í þrjátíu stöðum. „Mig dreymir um að senda líka fjölmennari fullorðinssýningu í leikferð um landið. Það er auðvitað flóknara í framkvæmd þar sem aðlaga þarf leikmyndina og lýsinguna hverjum stað á takmörkuðum tíma. En við viljum samt gera það vegna þess að það er svo mikilvægt,“ segir Ari og tekur fram að enn sé ekki fullákveðið hvaða sýning verði fyrir valinu. „Þeim mun oftar sem við förum út á land þeim mun staðfastari erum við í því að fara oftar, því fólk kann að meta það og skilur betur tilganginn með Þjóðleikhúsinu.

Sammannlegar spurningar

Við höfum líka mjög ríkar skyldur gagnvart íslenskri leikritun og ég held að sjaldan hafi verið gert meira fyrir íslenskra leikritun en nú um mundir. Það eru fjölmargir höfundar á launum við að skrifa fyrir Þjóðleikhúsið. Okkur ber líka að sýna klassík og ný erlend afburðaverk. Við viljum vera óhrædd við að takast á við erfið viðfangsefni. Eðlilega líkar ekki öllum að fjallað sé um vandmeðfarin viðfangsefni og það getur kallað á miklar umræður og sterk viðbrögð,“ segir Ari og tekur fram að hann fagni umræðunni.

„Því þegar fólk hefur sterkar tilfinningar á því sem leikhúsið er að gera skiptir það máli. Í kjarnanum er það þannig að öll leikverk sem eru almennileg innibera stórar spurningar og mikil átök.“ Meðal áleitinna viðfangsefna á komandi leikári nefnir Ari að alzheimer-sjúkdómurinn verði til skoðunar; hvað gerist þegar einhver sé grunaður um kynferðislega misnotkun gagnvart börnum; kvótakerfið og togstreitan milli höfuðborgar og landsbyggðar; ofbeldi gegn konum; einelti; togstreita hagsmunaafla og umhverfissinna; veikir fjölmiðlar og hversu hallir þeir eru undir auðvaldið; mengun og náttúruvernd.

„Þegar kemur að hlutverki listamannsins og leikhússins er alltaf spurning hversu mikið leikhúsið á að taka þátt í pólitísku umróti og hvenær og hvort leikhúsið er góður vettvangur til að takast á við það sem efst er á baugi í samfélagsumræðunni. Hins vegar eigum við alltaf að vera óhrædd að takast á við klassískar sammannlegar spurningar, en við verðum að gera það af hreinleika hjartans án þess að blanda okkur inn í pólitísk deilumál.“

Falleg og góð sýning

Fyrsta uppfærsla leikársins er endurfrumsýning á Með fulla vasa af grjóti eftir Marie Jones í leikstjórn Ians McElhinneys á Stóra sviðinu 31. ágúst, en þar bregða Hilmir Snær Guðnason og Stefán Karl Stefánsson sér í fjölda hlutverka, en þeir léku verkið fyrst 2000. „Þegar ég frétti að Stefán langaði að leika aftur svo skömmu eftir erfiðan uppskurð tók ég því auðvitað fagnandi,“ segir Ari og tekur fram að einstaklega ánægjulegt sé að Ríkissjónvarpið sýni lokasýninguna, sem verður 1. október, í beinni útsendingu. „Þetta er einstaklega falleg og góð sýning.“

Sortnar yfir vesturheimi

Örlagadaginn 11. september verður í Kúlunni frumsýnt leikritið Smán eftir Ayad Akhtar í leikstjórn Þorsteins Bachmanns í samstarfi við leikhópinn Elefant. „Þetta er margverðlaunað verk og spennandi þar sem til skoðunar er sjálfsmynd og sjálfsvitund okkar í fjölmenningarsamfélagi nútímans. Það er merkilegt að við skulum vera að setja leikárið á sama tíma og sól sortnar yfir vesturheimi og umræðan um hvort mismunandi magn litarefnis í húð fólks hafi áhrif á atgervi þess,“ segir Ari. Meðal leikara eru Magnús Jónsson, Jónmundur Grétarsson og Salóme R. Gunnarsdóttir.

Ibsen talar sterkt til samtímans

Óvinur fólksins eftir Henrik Ibsen verður frumsýndur á Stóra sviðinu 22. september í nýrri leikgerð Grétu Kristínar Ómarsdóttur og Unu Þorleifsdóttur sem jafnframt leikstýrir. „Ég hef lengi haft augastað á þessu verki, enda er það fantagott. Þegar ég endurlas verkið síðast skynjaði ég enn betur hversu sterkt það talar til samtímans. Ibsen fjallar um sígildar spurningar á borð við hagsmuni, núning milli fjármagns og náttúruverndar, hvernig hagsmunir og smábæjarpólitík togast á, hvernig hugsjónir þurfa stundum að víkja fyrir hagsmunum, veika fjölmiðla sem eru háðir ráðandi öflum og hugsjónamann sem vill ekki gefa neinn afslátt af hugsjónum sínum,“ segir Ari. Meðal leikara eru Björn Hlynur Haraldsson og Sólveig Arnarsdóttir.

Nýtt barnaverk um einelti

„Meirihluti leikverka ársins er nú íslensk verk og þriðjungur leiksýninga er fyrir börn,“ segir Ari. Fyrsta barnasýning leikársins er Oddur og Siggi sem er nýtt íslenskt leikrit eftir Björn Inga Hilmarsson, Odd Júlíusson og Sigurð Þór Óskarsson. „Þar er um að ræða verk fyrir 9-12 ára sem gerir einelti að umtalsefni,“ segir Ari. Björn Ingi leikstýrir einnig verkinu Ég get eftir Peter Engkvist í Kúlunni sem ætlað er yngstu börnunum og frumsýnt verður 20. janúar.

Einstaklega klár leikstjóri

Faðirinn eftir Florian Zeller í leikstjórn Kristínar Jóhannesdóttur verður frumsýndur í Kassanum 7. október. „Þetta er frábært og margverðlaunað leikrit. Höfundurinn skilgreinir verkið sem harmrænan farsa, en það fjallar um alzheimer-sjúkdóminn og býður upp á spennandi efnivið fyrir góðan leikhóp,“ segir Ari, en meðal leikara eru Eggert Þorleifsson, Edda Arnljótsdóttir og Sveinn Ólafur Gunnarsson. „Ég hef lengi dáðst að Kristínu sem ég kynntist fyrst í Stúdentaleikhúsinu fyrir rúmum þrjátíu árum. Hún er einstaklega klár og kann þá list að nálgast verk ávallt á forsendum þeirra.“

Skemmtileg nálgun höfundar

Risaeðlurnar eftir Ragnar Bragason í leikstjórn höfundar verða frumsýndar á Stóra sviðinu 20. október. „Ragnar skrifar þetta verk sérstaklega fyrir Þjóðleikhúsið og leikhópinn,“ segir Ari, en um er að ræða lokaverkið í þríleik sem hófst með Gullregni og hélt áfram í Óskasteinum. „Mér finnst efnistök Ragnar og nálgun hvort heldur er í kvikmyndum eða á leiksviðinu mjög skemmtileg. Hann er ótrúlega fær leikstjóri og höfundur,“ segir Ari og tekur fram að sérlega spennandi og skemmtilegt sé að sjá þá raunsæislegu nálgun sem Ragnar hafi tileinkað sér í leikhúsinu. „Í Risaeðlum fjallar Ragnar um yfirborðsmennskuna hvort heldur er í utanríkisþjónustunni eða í listaheiminum,“ segir Ari. Meðal leikara eru Edda Björgvinsdóttir og Pálmi Gestsson, en tónlist semur Mugison.

Fjölskyldudrama um jólin

Jólasýning Þjóðleikhússins er Hafið eftir Ólaf Hauk Símonarson í leikstjórn Sigurðar Sigurjónssonar sem frumsýnt verður á Stóra sviðinu 26. desember. „Í ár eru 25 ár liðin frá frumuppfærslu leikritsins, en Ólafur Haukur hefur uppfært verkið og breytt persónugalleríinu. „Í grunninn er Hafið fjölskyldudrama sem minnir um margt á Lé konung eftir Shakespeare þar sem konungsríkinu er skipt. Auðurinn í Hafinu er afsprengi kvótakerfisins og því varðar fjölskylduuppgjörið fólkið í þorpinu. Þannig birtir verkið átök milli landsbyggðar og höfuðborgar.“

Viljum gera rétt

Leikritið Efi eftir John Patrick Shanley í leikstjórn Stefáns Baldurssonar verður frumsýnt í Kassanum 12. janúar. „Þar er til umfjöllunar kynferðisbrot gegn börnum og hvernig bregðast skuli við því. Við höfum enga þolinmæði gagnvart slíkum brotum og gerum sterka kröfu til þess að þessu sé útrýmt úr samfélaginu með opinni umræðu. Ef grunur um ofbeldi vaknar hvílir á okkur sú skylda að stöðva það, en um leið og það er gert er verið að sakfella þann sem er grunaður. Leikritið býður upp á áhugaverða stúdíu á þessum flóknu málum þar sem við erum mjög fljót að taka afstöðu og dæma á grundvelli ófullkominna upplýsinga af því við viljum gera rétt og vera góð,“ segir Ari og bendir á að leikritið sé frábært sálfræðidrama sem bjóði upp á spennandi hlutverk fyrir góða leikara, en í verkinu leika Steinunn Ólína Þorsteinsdóttir, Hilmir Snær Guðnason, Lára Jóhanna Jónsdóttir og Sólveg Guðmundsdóttir.

Hættulegt og metnaðarfullt

Stuðmannasöngleikurinn Slá í gegn! eftir Guðjón Davíð Karlsson sem jafnframt leikstýrir verður frumsýndur á Stóra sviðinu 24. febrúar. „Stuðmenn eru vinsælasta dægurhljómsveit Íslands fyrr og síðar. Okkur langar að eiga hér gleðilega stund og sýna þessari frábæru hljómsveit virðingu. Við sömdum við þá um aðgang að öllum þeirra katalóg, sem er um það bil það hættulegasta sem hægt er að gera, því maður vill ekki klikka á þessu verkefni, sem verður mjög metnaðarfullt. Við munum leika okkur með hinn ytri veruleika og veruleika Þjóðleikhússins,“ segir Ari. Meðal leikara eru Selma Björnsdóttir, Hilmir Snær Guðnason, Ólafía Hrönn Jónsdóttir, Örn Árnason og Eggert Þorleifsson.

Sigrast á mótlæti með samstöðu

Svartalogn eftir Kristínu Marju Baldursdóttur í leikgerð Melkorku Teklu Ólafsdóttur og leikstjórn Hilmis Snæs Guðnasonar verður frumsýnt á Stóra sviðinu 21. apríl. „Mér finnst mjög mikilvægt að við segjum sögur kvenna. Við sem sitjum í listráði Þjóðleikhússins leituðum markvisst að leikritum með sögum kvenna, en það hallar verulega á þær í leikbókmenntunum. Þegar skáldsaga Kristínar Marju kom út kviknaði sú hugmynd að leikgera hana. Þetta er áhugaverð saga konu um sextugt sem missir vinnuna sökum aldurs. Samtímis er sögð saga innflytjendakvenna sem eru einangraðar og án baklands. Þetta er falleg saga því konurnar sigrast á mótlætinu með samstöðu,“ segir Ari og tekur fram að mikill fengur hafi verið að því að fá tékkneska óskarsverðlaunahafann Markétu Irglová, sem er búsett hér á landi, til að semja tónlistina, sem gegnir veigamiklu hlutverki í verkinu.

Talandi um hlut kvenna er ekki úr vegi að spyrja þjóðleikhússtjóra um kynjahlutfallið þegar leikskáld og leikstjórar eru annars vegar. Þrjú verk af þeim tólf sem frumsýnd verða á komandi leikári, og hér eru til umfjöllunar, eru eftir konur og tvær konur eru í hópi leikstjóra.

Margs konar raddir heyrist

Aðspurður segist Ari ávallt vera meðvitaður um mikilvægi jafnræðis kynjanna og að auðvitað hefði verið æskilegt að hafa fleiri konur í báðum hópum. „Þegar leikárið er sett saman er að mörgu að huga og þannig þarf t.d. að gæta þess að leikstjórar séu af öllum kynslóðum. Mér finnst líka mikilvægt að margs konar raddir heyrist og að við segjum sögur karla jafnt sem kvenna. Því ber ekki að leyna að konur bera uppi margar af sýningum Þjóðleikhússins í vetur,“ segir Ari og bendir á að vandasamt sé að stilla saman leikári þar sem fullt jafnvægi sé í öllum flokkum, hvort heldur horft er til verkefnavals, aldurssamsetningar eða kyns. „Síðustu tvö leikár hafa konur verið í miklum meirihluta listrænna stjórnenda, þ.e. milli 60 og 70%,“ segir Ari og tekur fram að hann vísi þar til leikstjóra, leikmynda- og búningahönnuða sem ákveða konsept hverrar uppfærslu.

Stríð á Stóra sviðinu

Líkt og fram hefur komið mun Þjóðleikhúsið í samstarfi við Sinfóníuhljómsveit Ísland setja upp óperuna Stríð eftir Ragnar Kjartansson og Kjartan Sveinsson á Stóra sviðinu 16. maí. „Ragnar er stærsti nútímalistamaður okkar. Það er sérstaklega ánægjulegt að geta sett verkið upp með fullskipaðri sinfóníuhljómsveit, en það var prufukeyrt án hljómsveitar í Volksbühne í Berlín „Við hlökkum til samstarfsins, enda er þetta stórkostlegt ævintýri fyrir þessar tvær menningarstofnanir,“ segir Ari og nefnir að Þjóðleikhúsið muni einnig fara í samstarf við Listaháskóla Íslands.

Ég er þjónn almennings

„Nemendaleikhúsið frumsýnir Aðfaranótt eftir Kristján Þórð Hrafnsson í leikstjórn Stefáns Jónssonar í Kassanum í maí. Verkinu er lýst sem áleitinni rannsókn á árásargirni og ofbeldi sem eigi sér ólíkar birtingarmyndir í samskiptum fólks og sé um leið spegill á samskiptamynstur samtímans. „Það er mjög ánægjulegt að Nemendaleikhúsið komi hingað í hús. Það er mikilvægt að þessar stóru listastofnanir, Þjóðleikhúsið og LHÍ, eigi gott og gjöfult samtarf.“

Frá fyrra leikári verða teknar upp sjö sýningar; Tímaþjófurinn, Fjarskaland, Maður sem heitir Ove, Lofthræddi örninn Örvar, Leitin að jólunum, og brúðusýningarnar Pétur og úlfurinn og Umbreyting úr smiðju Bernds Ogrodniks.

Ekki er hægt að sleppa þjóðleikhússtjóra án þess að spyrja hvað sé skemmtilegast við starfið og mest gefandi. „Mér finnst skemmtilegast þegar leikararnir leika vel, þegar sýningar ganga vel og þegar áhorfendur yfirgefa leikhúsið glaðir í lok sýningar. Markmið mitt er alltaf að gera eins gott leikhús og hægt er. Hins vegar snýst þetta ekki um persónu mína. Ég er hér aðeins þjónn almennings. Aðalatriðið er að gera sitt besta og geta horft sáttur yfir dagsverkið í lok hvers dags.“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Reyndu að hafa alla þræði í hendi þér áður en þú ræðst í þær framkvæmdir sem þig dreymir um. Láttu það bara eftir þér að brosa út í bæði, þú hefur ástæðu til þess.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar
1
Unnur Lilja Aradóttir
2
Colleen Hoover
3
Ragnheiður Gestsdóttir
4
Sigrún Elíasdóttir
5
Camilla Läckberg
Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Reyndu að hafa alla þræði í hendi þér áður en þú ræðst í þær framkvæmdir sem þig dreymir um. Láttu það bara eftir þér að brosa út í bæði, þú hefur ástæðu til þess.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar
1
Unnur Lilja Aradóttir
2
Colleen Hoover
3
Ragnheiður Gestsdóttir
4
Sigrún Elíasdóttir
5
Camilla Läckberg