Vaxtarræktarmaðurinn Rich Piana er látinn, 46 ára að aldri, eftir að hafa verið haldið sofandi í nærri þrjár vikur á spítala.
Piana missti meðvitund á heimili sínu þegar kærasta hans, Chanel, var að klippa á honum hárið 7. ágúst. Hann var síðan fluttur beinustu leið á spítala.
Sögusagnir hafa verið á sveimi á samfélagsmiðlum um lát Piana en það hefur ekki verið staðfest fyrr en nú en það var fréttaveitan TMZ sem var fyrst með fréttirnar.
Piana rataði í fréttir á Íslandi eftir að hann kvæntist vaxtarræktarkonunni Söru Heimisdóttur. Hins vegar skildu þau að borði og sæng í fyrrasumar en Sara tilkynnti það í dag að skilnaðurinn hafi aldrei gengið alveg í gegn og eru þau þar af leiðandi enn gift.