Victor Guðmundsson stundar nám í læknisfræði í Slóvakíu, en hann notar tímann þegar hann er ekki að læra til þess að búa til tónlist og Dj-a meðal annars í Slóvakíu og Ungverjalandi. Victor var að gefa út lagið Feeling á Spotify undir nafninu Doctor Victor.
Um hvað er lagið Feeling?
Lagið Feeling er í raun og veru þessi orka og fílingur sem maður kemst í þegar maður er annað hvort að æfa, skemmta sér eða eitthvað annað sem krefst mikillar orku. Hugmyndin spratt upp þegar ég kynntist einum norskum félaga, en hann prodúseraði einmitt lagið með mér og er líka að gera tónlist undir nafninu HAV2.
Hvar hefur þú verið að DJ-a?
Ég hef aðallega verið að spila úti í Slóvakíu og Ungverjalandi, en svo spilaði ég í mitt fyrsta skipti á Íslandi í sumar á Þjóðhátíð. Ég er með mjög breiðan tónlistarsmekk, en ég spila aðallega svokallaða EDM (Electronic Dance Music) eða House tónlist í öllum þeim formum sem hún finnst. Það er þó future house, progressive house og future bass/trap tónlistin sem heillar mig mest. Dæmi um tónlistarmenn sem ég fæ innblástur af eru Axwell /\ Ingrosso, Don Diablo, Martin Garrix og Oliver Heldens.
Hvernig var að spila á Þjóðhátíð?
Það var algjör snilld, en ég er mikill aðdáandi Þjóðhátíðar og var þetta sjöunda skiptið sem ég fór en fyrsta skiptið sem ég spila. Ég var að spila öll kvöldin í Tuborg Tjaldinu og það var gríðarlega góð stemning og glæsileg uppsetning á öllu saman bæði hjá RVK Events og Tuborg, þannig að ég hlakka mjög til þess að spila á Íslandi aftur.
Virkar að spila sömu tónlistina á Íslandi og í Austur-Evrópu?
EDM/House tónlistin ræður ríkjum í austrinu, en það er einmitt tónlistin sem ég er að prodúsera og spila sjálfur, þannig að það hentar mér mjög vel að búa í Slóvakíu. Þar eru yfirleitt stórir klúbbar og meira lagt upp úr rosalegum hljóðkerfum og alls konar ljósum og látum, á meðan hérna heima á Íslandi er meira um bari og skemmtistaði - þannig að það er mjög mismunandi stemning, þó svo að mér finnist hvort tveggja skemmtilegt. Hér á landi heyrist mér rappið vera að taka yfir og er ég mikill aðdáandi þess, en miðað við það sem ég upplifði á Þjóðhátíð og það sem ég hef heyrt undanfarið út um allan heim, þá er EDM/House tónlistin og DJ menningin alltaf að stækka og ég sé fram á að það eigi eftir að aukast með tímanum.
Hvernig er að búa í Slóvakíu?
Ég bý í smábænum Martin í Norður Slóvakíu sem er 70.000 manna bær umvafinn fjöllum og náttúru, þannig að það minnir smá á Ísland, en menningin og tungumálið er mjög frábrugðið því sem maður er vanur. Fólk heldur oft að Slóvakía sé eins og senan úr EuroTrip myndinni og gerir sér kannski ekki grein fyrir því hvað þetta er magnað land fyrr en það virkilega fer að skoða það nánar, en mér finnst algjör snilld að búa þar. Ég kann samt best við Ísland og það er alltaf gott að koma hingað heim bæði á sumrin og um jólin, en ég sakna þess kannski mest að fá íslenskan mat þegar ég er úti.
Heldurðu að það fari vel saman í framtíðinni að vera læknir og tónlistarmaður?
Ég hef alltaf haft gríðarlegan áhuga fyrir bæði læknisfræðinni og tónlistinni, en mér finnst það passa mjög vel saman þar sem bæði sviðin snúast að fólki og tilfinningum. Það er mikill lestur sem fylgir læknisfræðinni og þá er gott að geta kúplað sig algjörlega út og leita þá í tónlistina, hvort sem það er að búa hana til eða spila. Ég er viss um að tónlistin muni hjálpa mér að fá aðra nálgun á læknisfræðina í framtíðinni og er ég mjög spenntur að sjá hvert það leiðir mig.
Ertu búinn að ákveða sérhæfingu í náminu?
Persónulega er ég mjög hrifinn af skurðsviði læknisfræðinnar og öllu sem að því kemur, en við fáum að sjá mikið af aðgerðum úti í Slóvakíu eftir 2. ár sem er mjög áhugavert. Ég veit svo sem ekki hvar ég mun enda, en ég er á leiðinni á mitt 4. ár og skurðsviðið er allavegana það sem heillar mig mest akkúrat núna. Svo er aldrei að vita nema að það verði komin sérgrein í tónlistarlækningum þegar maður klárar námið, þannig að ég er opinn fyrir öllu!