Breski leikarinn og leikstjórinn Ralph Fiennes, sem meðal annars lék Voldeemort í Harry Potter myndunum, fékk í dag afhent serbneskt vegabréf. Um er að ræða heiðursríkisborgararétt fyrir að koma landinu á framfæri við umheiminn.
„Ég átti nú aldrei von á því að ég yrði Serbi en svo virðist sem það sé raunin,“ sagði Fiennes í Belgrad í dag þar sem hann tók við viðurkenningunni. Það var ríkisstjórn Serbíu sem ákvað þetta fyrr í mánuðinum og var það forseti landsins, Aleksandar Vucic, sem afhenti honum persónuskilríki og vegabréf í dag.
Fiennes, sem er 54 ára gamall og hefur leikið í fjöldamörgum kvikmyndum. Hann var tilnefndur til Óskarsverðlauna fyrir túlkun sína á Amon Göth í Schindler's list árið 1993 og hlaut bæði Golden Globe verðlaunin og BAFTA verðlaunin fyrir leik sinn í myndinni.
Hann var jafnframt tilnefndur fyrir hlutverk Count Almásy í myndinni The English Patient árið 1996 til Óskars-, BAFTA og Golden Globe verðlauna.
Fiennes er við tökur í Belgrad á kvikmynd um ballettdansarann Rudolph Nureyev. Árið 2010 tók hann upp sína fyrstu kvikmynd í hlutverki leikstjóra í Serbíu. Myndin Coriolanus sem byggir á leikriti Shakespeare.