Ljónatemjari hins óvænta

Werner Herzog.
Werner Herzog. mbl.is/Árni Sæberg

Werner Herzog, einn virt­asti og áhrifa­mesti kvik­mynda­gerðarmaður sög­unn­ar, er einn af heiðurs­gest­um Alþjóðlegr­ar kvik­mynda­hátíðar í Reykja­vík sem hófst í fyrra­dag. Fimm verka hans, þar af þrjár heim­ild­ar­mynd­ir, verða sýnd á hátíðinni og mun hann sitja fyr­ir svör­um að lokn­um sýn­ing­um á tveim­ur þeirra, auk þess að bjóða upp á meist­araspjall.

Herzog er með endem­um af­kasta­mik­ill og fjöl­hæf­ur listamaður, hef­ur gert tugi kvik­mynda og heim­ild­ar­mynda sem ein­kenn­ast m.a. af ljóðræn­um og óhefðbundn­um tök­um hans á viðfangs­efn­um sín­um. Hann leik­stýrði sinni fystu stutt­mynd, Herak­les, árið 1962 en fyrsta kvik­mynd hans í fullri lengd, Le­benszeichen, eða Lífs­mörk, var frum­sýnd árið 1968 og hlaut hann fyr­ir hana Silf­ur­björn­inn á kvik­mynda­hátíðinni í Berlín sama ár. Voru það fyrstu verðlaun­in af ótal­mörg­um sem Herzog hef­ur hlotið og hann er hvergi nærri hætt­ur, orðinn 75 ára.


Herzog fædd­ist í München árið 1942 en ólst upp í af­skekktu fjallaþorpi í Bæj­aralandi og vissi ekki af til­vist kvik­mynda fyrr en hann var orðinn ell­efu ára. Hann stundaði nám í sagn­fræði og þýsk­um bók­mennt­um í München og Pitts­burgh og var einn af fremstu kvik­mynda­gerðarmönnum Nýju þýsku kvik­mynda­stefn­unn­ar, var þar í hópi manna á borð við Volker Schlöndorff og Rainer Werner Fass­bind­er. Þess­ir leik­stjór­ar höfðu úr litlu fjár­magni að spila og ein­kennd­ist stíll þeirra af þátt­töku viðfangs­efna í heim­ild­armynd­ar­gerðarformi, sem var á sama tíma und­ir hand­leiðslu eða und­ir áhrif­um leik­stjór­ans sjálfs. Þess­ir leik­stjór­ar áttu til að fara með viðfangs­efni sín í óvænt­ar átt­ir og ögra þeim, hvetja eða brjóta niður, seg­ir á vef RIFF. Þessi stíll var einkum áber­andi í heim­ild­ar­mynd­um en var einnig beitt í kvik­mynd­um.





Óbilandi þraut­seigja
Ein þekkt­asta kvik­mynd Herzog, Fitzcarr­aldo frá ár­inu 1982, verður sýnd á RIFF en hún er lík­lega þekkt­asta dæmið um þraut­seigju hans og hversu langt hann er til­bú­inn að ganga þegar kem­ur að list­rænni sköp­un og sýn. Það tók um fimm ár að klára kvik­mynd­ina sem var tek­in upp í regn­skóg­um Perú án leyf­is yf­ir­valda. Í henni seg­ir af ræn­ingja­barón­in­um Bri­an Sweeney Fitz­ger­ald sem ein­set­ur sér að byggja óperu­hús í miðjum Amazon-regn­skóg­in­um. Til að fjár­magna bygg­ing­una hyggst hann sölsa und­ir sig gúmmí­skóg en til þess þarf hann að flytja mörg hundruð tonna gufu­skip, með aðstoð frum­byggja, yfir bratta hæð.

Herzog vildi ekki beita kvik­mynda­brell­um við gerð mynd­ar­inn­ar, lét byggja tvö gufu­skip og fékk aðstoð frum­byggja við að flytja annað þeirra yfir hæð í skóg­in­um og gekk það ekki áfalla­laust fyr­ir sig. Fræg eru átök Herzog og aðalleik­ara mynd­ar­inn­ar, Klaus Kinski, á tökustað en Kinski var þekkt­ur af æðis­köst­um sín­um (sjá næsta mynd­band). Herzog hlaut verðlaun sem besti leik­stjór­inn á kvik­mynda­hátíðinni í Cann­es árið 1982 fyr­ir kvik­mynd­ina sem þykir mikið þrek­virki.





Fjöl­hæf­ur listamaður
Herzog hef­ur komið víða við því auk þess að skrifa hand­rit og leik­stýra kvik­mynd­um og heim­ild­ar­mynd­um hef­ur hann skrifað fjölda hand­rita og bóka og leik­stýrt óper­um, auk þess að bregða sér af og til í hlut­verk leik­ara. Þannig hef­ur hann ljáð per­sónu í ein­um þátt­anna um Simp­son-fjöl­skyld­una rödd sína og leikið ill­menni í kvik­mynd­inni Jack Reacher á móti Tom Cruise. Þá hef­ur hann vakið at­hygli hin síðustu ár sem álits­gjafi og grein­andi og má m.a. nefna áhuga­verða grein­ingu hans á mynd­bandi við lag Kanye West, „Famous“, sem vakti mikla at­hygli í net­heim­um.


Herzog hef­ur tvisvar verið til­nefnd­ur til Gullpálm­ans, fyr­ir Woyzeck árið 1979 og Wh­ere the Green Ants Dream árið 1984, og hlaut sína fyrstu Óskar­sverðlauna­til­nefn­ingu árið 2007 fyr­ir heim­ilda­mynd­ina Encoun­ters at the End of the World sem fjall­ar um lífið á suður­skaut­inu. Ein af þekkt­ustu heim­ild­ar­mynd­um hans, Grizzly Man, var frum­sýnd tveim­ur árum fyrr og vakti hún mikla at­hygli fyr­ir efnis­tök Herzog en í henni seg­ir af lífi Timot­hy Treadwell sem kallaður var Bjarn­ar­hvísl­ar­inn en hann og unn­usta hans voru drep­in af birni árið 2003.




Starfar með Gor­bat­sjof
„Ég fékk mjög ung­ur áhuga á kvik­mynda­gerð, 15 eða 16 ára og ég vissi að ég yrði að fram­leiða mynd­irn­ar líka því eng­inn vildi fram­leiða þær. Þannig að ég fór að vinna næt­ur­vakt­ir í stál­verk­smiðju sem logsuðumaður en á dag­inn var ég í skóla,“ seg­ir Herzog, spurður að því hvenær áhugi hans á kvik­mynda­gerð hafi kviknað. Þannig hafi hann safnað fé til að fram­leiða sín­ar fyrstu stutt­mynd­ir. „Ég hef ekki stoppað síðan. Í gær og fyrra­dag var ég að mynda í Moskvu með Mik­hail Gor­bat­sjof.“
–Máttu segja frek­ar frá því verk­efni?
„Við vit­um ekki enn hvert það mun leiða okk­ur,“ svar­ar Herzog. „Mér var bara boðið til Rúss­lands og ég greip tæki­færið. En þú ert s.s. að ræða við mann sem var að mynda í gær,“ seg­ir Herzog til frek­ari áherslu á því hversu lengi hann hef­ur verið að, 56 ár eða þar um bil.
–Þetta er lang­ur starfs­fer­ill …
„Ég hef aldrei átt mér starfs­fer­il því starfs­fer­ill fel­ur í sér ákveðið skipu­lag, að maður hafi stjórn á því sem maður er að gera en hana hef ég aldrei haft,“ svar­ar Herzog. Verk­efn­in streymi til hans linnu­laust. „Ég ætti núna að vera að skrifa hand­rit að kvik­mynd eða þrem­ur kvik­mynd­um en ég hef þann hátt­inn á að fylgja þeirri hug­mynd sem sæk­ir ákaf­ast að mér.“

Gæti orðið dreki eða ljón
Herzog hef­ur gert um 70 mynd­ir á ferli sín­um, auk þess að spreyta sig sem leik­ari í fjölda kvik­mynda og seg­ir hann glott­andi að hann sé góður í að leika ill­menni. „Ég var reynd­ar að leika í mjög kostnaðarsamri Hollywood-mynd, einni af þess­um æv­in­týra­mynd­um sem kost­ar lík­lega um 200 millj­ón­ir doll­ara að fram­leiða. Ég fer með lítið hlut­verk í henni,“ seg­ir Herzog og að dul­nefni mynd­ar­inn­ar sé Mary Lou. „Þetta er ein af þess­um miklu vís­inda­skáld­skaparf­ant­así­um,“ upp­lýs­ir hann en seg­ist ann­ars lítið mega tjá sig um mynd­ina. „Þetta var allt unnið með „moti­on capt­ure“ aðferðinni og ég gæti orðið dreki, ljón eða maður,“ seg­ir hann kím­inn og hreyf­ir hand­legg­ina líkt og hann sé kom­inn með vængi. Herzog seg­ist hafa orðið heillaður af því að leika fyr­ir fram­an græn tjöld, klædd­ur sér­stök­um bún­ingi, á móti ímynduðum leik­ur­um sem léku sinn hluta atriðis­ins sex vik­um fyrr. „Þetta er ný vídd fyr­ir mér,“ seg­ir Herzog um þessa upp­lif­un sína.
–Leikreynsl­an hlýt­ur að koma sér vel þegar þú ert að stýra leik­ur­um?
„Það er gott eða auðvelt fyr­ir mig því ég skil hina hliðina en ástæðan fyr­ir því að ég geri svona lagað er ein­föld: ég ann öllu sem viðkem­ur kvik­mynd­um; að leik­stýra, skrifa hand­rit, klippa, fram­leiða eða leika, nefndu það bara. Þetta er það sem ég geri.“

–Það hef­ur þá aldrei hvarflað að þér að gera eitt­hvað annað?

„Nei, mér þætti gam­an að geta leikið á selló en það er orðið of seint. Mér þætti gam­an að vera stærðfræðing­ur en það er of seint því all­ar stór­kost­leg­ar upp­götv­an­ir í stærðfræði hafa ung­ir menn gert, á aldr­in­um 14 til 24 ára,“ svar­ar Herzog.

Hér má sjá Herzog í hlut­verki ill­menn­is í Jack Reacher:





Hver leik­ari hef­ur sín­ar þarf­ir
–En talandi um leik­ara, held­urðu að þú haf­ir lagt mjög hart að þeim sem þú hef­ur leik­stýrt?
„Það fer eft­ir hverj­um leik­ara fyr­ir sig, við hvern þeirra þarf að tala sér­stakt tungu­mál. Sum­ir hafa þurft á aga að halda og þrýst­ingi, aðrir hafa þurft að finna fyr­ir því að þeir væru í ör­ugg­um hönd­um og stund­um er maður með tvo eða þrjá leik­ara í sama atriði sem eru með þrenns kon­ar ólík viðhorf. “
–Þú þarft þá að vera hálf­gerður sál­fræðing­ur og leik­stjóri í senn?
„Nei, ég þoli ekki sál­fræði,“ svar­ar Herzog og brún­in þyng­ist á hon­um. „En „ svo og brún­in létt­ist.
–Christian Bale lék í kvik­mynd þinni Rescue Dawn og sagði í viðtali að hann hafi eina stund­ina langað að drepa þig og þá næstu að faðma þig.
„Það var nú afar sjald­an þannig. Við gerð þess­ar­ar mynd­ar urðum við fórn­ar­lömb svika­hrappa og kl. 5 að morgni þurfti ég að út­vega flutn­inga­bíla því eng­inn í taí­lenska flutn­inga­fyr­ir­tæk­inu sem vann fyr­ir okk­ur hafði fengið greidd laun og þeir yf­ir­gáfu svæðið. Við átt­um ekki einu sinni pen­inga fyr­ir bens­íni og þegar þú ert leik­ari og vilt kom­ast á tökustað kl. 7.30 get­ur auðvitað komið upp ágrein­ing­ur. En okk­ur Bale gekk mjög vel að vinna sam­an og þær vik­ur sem við vor­um við tök­ur í Taílandi lenti okk­ur aðeins tvisvar sam­an og það ör­stutt,“ svar­ar Herzog.




Mýt­ur á net­inu
–Fyrst þú minn­ist á þetta þá verða oft til á net­inu gróu­sög­ur um stirð sam­bönd leik­ara og leik­stjóra…
„Já og maður get­ur ekk­ert gert við þeim. Eitt sinn öskraði Bale á ljósa­mann sem var fyr­ir hon­um á meðan hann var að leika, var að setja upp ein­hvern ljósa­búnað. Upp­taka af þessu reiðik­asti Bale fór á netið, um 60 sek­úndna löng. Árum sam­an, kvik­mynd eft­ir kvik­mynd, hef­ur hann verið hið mesta ljúf­menni í tök­um, fag­mann­leg­ur og vel­viljaður, ör­lát­ur og tig­in­mann­leg­ur en netið og al­menn­ing­ur býr til svona mýt­ur og maður get­ur ekki breytt því eða forðast þær. Mér er al­veg sama um þær og sé þær ekki því ég á t.d. ekki farsíma.“
–Nú gerðir þú heim­ild­ar­mynd um netið en þú átt ekki farsíma og not­ar ekki netið, skv. minni eft­ir­grennsl­an.
„Jú, ég nota netið. Ég nota tölvu­póst á net­inu, vinn varla neitt leng­ur á papp­ír og stund­um tala ég við nána ætt­ingja á Skype því ég er oft mörg­um tíma­belt­um frá þeim,“ seg­ir Herzog. Þá noti hann netið til að afla sér lít­il­vægra upp­lýs­inga en í flókn­ari rann­sókn­um nýti hann aðra miðla.



Ein vika er nóg
–Af síðustu mynd­um þínum að dæma virðist þú vera að kanna hvaða merk­ingu það hef­ur að vera mennsk­ur, frum­mennsk­una, t.d. þeirri sem þú gerðir um elstu hella­mál­verk sem fund­ist hafa á jörðinni.
„Það hef ég alltaf gert. Alltaf. Sú mynd fjall­ar um vakn­ingu manns­sál­ar­inn­ar fyr­ir 30 eða 40 þúsund árum og í mynd­un­um mín­um um dauðarefs­ingu lít ég inn í myrk­ustu hyl­dýpi manns­sál­ar­inn­ar. Allt sem ég hef gert, t.d. kvik­mynd­in um Kasp­ar Hauser, all­ar mynd­irn­ar sem ég hef gert, eru eins að þessu leyti.“
–Mig lang­ar að ræða við þig um kvik­mynda­skól­ann sem þú stofnaðir, Rogue Film School, fjög­urra daga nám­skeið með fyr­ir­lestr­um sem þú held­ur. Nú fer fólk í margra ára nám í kvik­mynda­gerð, tel­ur þú það nauðsyn­legt?
„Nei, á einni viku get­ur þú lært allt sem þú þarft að læra til að geta gert kvik­mynd. Rest­ina get­ur eng­inn kennt þér og jafn­vel í Rogue Film School kenni ég ekki, að því und­an­skildu að kenna fólki að dírka upp lása og falsa skjöl. Ég lýk því á fyrstu klukku­stund­inni og það sem eft­ir er fjalla ég um mik­il­vægi sjálfs­trausts, ákveðinn lífs­stíl og leið til að búa til kvik­mynd­ir og þetta snýst um ljóðlist. Þess vegna eru Eddu­kvæðin skyldu­lesn­ing á nám­skeiðinu.“



Leiðar­vís­ir fyr­ir ráðvillta
„Með þess­um skóla er ég að reyna að svara, með skipu­leg­um hætti, mik­illi spurn ungra kvik­mynda­gerðarmanna eft­ir leiðsögn frá mér,“ held­ur Herzog áfram. „Þú get­ur ekki ímyndað þér hversu marg­ir þeir eru og mér fannst ég bera skyldu til þess að verða við þeim ósk­um á skipu­lagðan hátt. Og vel á minnst, Rogue Film School er ekki eina svarið því ég hef gefið út 500 blaðsíðna bók sem heit­ir A Gui­de for the Perp­l­ex­ed [Leiðar­vís­ir fyr­ir ráðvillta, þýðing blaðamanns] en titl­in­um stal ég af miðalda­heim­spek­ingn­um Mimoni­des,“ seg­ir Herzog og hlær inni­lega. „Þetta er svo fal­leg­ur tit­ill! Og það má líka sækja masterclass-nám­skeið hjá mér á net­inu, á veg­um fyr­ir­tæk­is sem er með fjölda slíkra nám­skeiða. Þú get­ur t.d. lært tenn­is af Ser­enu Williams,“ bæt­ir hann við. „Þetta er sex klukku­stunda nám­skeið og það er ekk­ert bull, frá fyrstu sek­úndu til þeirr­ar síðustu.“
–Og það er eng­in af­sök­un til fyr­ir því að gera ekki kvik­mynd?
„Hár­rétt,“ svar­ar Herzog.. „Ég er ekki bara að segja frá held­ur hef ég upp­lifað það sem ég er að tala um og þannig öðlast ákveðna stöðu og rétt til að tjá mig um hvað hægt er að gera og hvernig. Ég er ekki kenn­ari en hef áunnið mér þessa stöðu.“

Fimm verk eft­ir Herzog verða sýnd á RIFF: 

Úr Aguirre, reiði guðanna. Klaus Kinski með ónefndum apa.
Úr Aguir­re, reiði guðanna. Klaus Kinski með ónefnd­um apa.

 

Aguir­re, der Zorn Gottes/ Aguir­re, reiði guðanna
Spænski rann­sókn­ar­rétt­ur­inn leit­ar að hinum goðsagna­kennda El Dorado. Heill her hverf­ur spor­laust í frum­skóg­in­um. Saga um völd og geðbil­un. Kvik­mynd­in er frá ár­inu 1972 og með aðal­hlut­verk í henni fara Klaus Kinski, Helena Rojo, Del Negro, Ruy Gu­erra og Peter Berl­ing.
Fitzcarr­aldo
Sag­an um Sweeney Fitz­ger­ald, mjög staðfast­an mann sem er harðákveðinn í að byggja óperu­hús í miðjum frum­skógi. Kvik­mynd­in er frá ár­inu 1982 og með aðal­hlut­verk fara Klaus Kinski, Claudia Car­dinale, José Lewgoy og Migu­el Ángel Fu­entes.
Grizzly Man/​Bjarn­ar­maður­inn
Heim­ild­ar­mynd frá ár­inu 2005. Líf „bjarn­ar­hvísl­ar­ans“ Timot­hy Treadwell var flækja af eld­heit­um um­hverf­is-aktív­isma, hug­mynda­fræðileg­um hálfsann­leika og hrein­um og bein­um lyg­um, seg­ir um mynd­ina á vef RIFF. Þegar hann dó skyndi­lega í októ­ber árið 2003 fór sann­leik­ur­inn að koma í ljós. Það sem fáir vissu var að stór hluti lífs hans var upp­spuni.
Into the In­ferno/​Inn­gang­ur í hel­víti
Rann­sókn Herzogs á virk­um eld­fjöll­um um all­an heim en hann myndaði m.a. á Íslandi við Lakagíga, árið 2015. Heim­ild­ar­mynd frá ár­inu 2016.
Lo and Behold, Reveries of the Conn­ected World/​Og sjá! Dagdraum­ar um hinn tengda heim
Heim­ild­ar­mynd frá ár­inu 2016. Könn­un Werners Herzog á net­inu og hinum tengda heimi. Mynd­in fjall­ar um tækni og in­ter­netið, vél­menni og gervi­greind, sam­band okk­ar við tækn­ina og hvernig börn­in okk­ar munu – kannski – ekki þurfa á öðrum að halda eft­ir nokkr­ar kyn­slóðir af því þau hafa vél­ar.
Sýn­inga­tíma mynd­anna og frek­ari upp­lýs­ing­ar um hátíðina má finna á vefsíðu henn­ar á slóðinni riff.is.

mbl.is
Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Meyja

Sign icon Ástarævintýri með eldri eða ráðsettari manneskju er líklegra en ella núna. Deildu hæfileikum þínum með því að fá öðrum hnitmiðuð verkefni, þótt það sé í eigin þágu.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar
1
Torill Thorup
3
Sofie Sar­en­brant
4
Unni Lindell
5
Arn­ald­ur Indriðason
Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Meyja

Sign icon Ástarævintýri með eldri eða ráðsettari manneskju er líklegra en ella núna. Deildu hæfileikum þínum með því að fá öðrum hnitmiðuð verkefni, þótt það sé í eigin þágu.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar
1
Torill Thorup
3
Sofie Sar­en­brant
4
Unni Lindell
5
Arn­ald­ur Indriðason