Stefán Karl Stefánsson vinnur um þessar mundir að bók um leikferilinn í samstarfi við Mark Valenti, sem var aðalhandritahöfundur Latabæjar. „Bókin mun fókusera á þátttöku mína í annars vegar Latabæ og hins vegar leikritinu Tröllið sem stal jólunum,“ segir Stefán Karl og tekur fram að hann hafi frá miklu að segja.
Blaðamaður Morgunblaðsins náði tali af Stefáni Karli daginn eftir að lokasýning á Með fulla vasa af grjóti eftir Marie Jones í leikstjórn Ians McElhinneys var sýnd í beinni útsendingu í Ríkissjónvarpinu sl. sunnudagskvöld, en upptakan verður aðgengileg í Sarpi RÚV til 30. desember. Í verkinu leika Stefán Karl og Hilmir Snær Guðnason samtals fjórtán ólíkar persónur á ýmsum stigum þjóðfélagsskalans.
„Ég er dálítið eftir mig auðvitað, en samt bara þægilega þreyttur. Ég freistaðist til að kíkja á upptökuna þegar hún var komin í Sarpinn í gærkvöldi [sunnudag] og gat ekki betur séð en að þetta hefði komið mjög vel út,“ segir Stefán Karl og bendir á að vandasamt sé að gera leikhúsi skil í sjónvarpi, en það hafi tekist mjög vel undir styrkri stjórn Egils Eðvarðssonar útsendingarstjóra og Salóme Þorkelsdóttur aðstoðarútsendingarstjóra. „Þetta heppnaðist því einstaklega vel í alla staði og ég get ekki annað en verið sáttur,“ segir Stefán Karl og tekur fram að sér þyki vænt um að heyra hvað útsendingin hafi fallið í góðan jarðveg hjá áhorfendum.
Sýningin var upphaflega frumsýnd í Þjóðleikhúsinu í árslok 2000 og sett aftur upp 2012, í bæði skipti við afar góðar viðtökur áhorfenda. Það er ekki oft sem leikarar hafa tækifæri til að koma aftur að sama hlutverkinu, hvað þá sömu uppfærslunni líkt og hér er raunin. Hvernig hefur þér fundist þetta ferli?
„Þetta hefur verið einstakt tækifæri. Við erum búin að leita að fordæmum um slíkt, en höfum ekki fundið þau enn. Ég lék sýninguna fyrst þegar ég var 25 ára, síðan 37 ára og loks 42 ára. Það hefur ýmislegt gerst á þessum tíma í lífinu. Leikari skilur sjálfan sig aldrei eftir uppi í búningsherbergi. Það þýðir að reynsla manns og þroski fer með manni á svið, sem gerir það að verkum að þegar leikarar eldast þá dýpkar oft túlkun þeirra. Það hefur svo sannarlega gerst í þessu tilviki. Þetta er einstakt og frábært tækifæri. Við Hilmir erum báðir miklir leiktæknimenn, mætti jafnvel lýsa okkur sem leiktækninördum. Í því felst ákveðin nákvæmni en einnig tveir til þrír dropar af kæruleysi sem heldur hlutunum lífrænum. Tækifærin sem við höfum haft til að þroska okkur og þessa karaktera er einstakt. Þetta er búið að vera mikill skóli,“ segir Stefán Karl og tekur fram að hann vildi óska að allar þrjár uppfærslur sýningarinnar hefðu verið teknar upp í heild sinni. „Því það hefði getað orðið frábært kennsluefni í leiktækni.“
Þegar sýningar hófust að nýju á Stóra sviði Þjóðleikhússins 31. ágúst sl. var ég örugglega ekki ein leikhúsgesta um að dást að úthaldinu og kraftinum í þér á sviðinu vitandi að aðeins væru örfáar vikur liðnar síðan þú fórst í erfiðan uppskurð.
„Ég hef reyndar farið í tvo holskurði á sl. tíu mánuðum ásamt geisla- og lyfjameðferð. Þegar við frumsýndum voru aðeins liðnar sex vikur frá því ég útskrifaðist af spítalnum eftir seinni aðgerðina,“ segir Stefán Karl og rifjar upp að hann hafi fengið heiftarlega sýkingu eftir aðgerðina og legið miklu lengur á spítalanum en upphaflega stóð til. „Allan júnímánuð og fram í júlí lá ég á spítalnum. Þegar ég útskrifaðist skellti ég mér svo eins og brjálæðingur hringinn um landið með fjölskyldunni í þrjár vikur.“
Var það ekki létt geggjun að fara út í þetta á þessum tíma þegar ljóst var að þú værir á sviðinu alla sýninguna og þyrftir að dansa og hoppa?
„Nei, alls ekki. Það var annaðhvort að hrökkva eða stökkva. Þegar þú ert dæmdur í að glíma við svona veikindi hefur þú um tvennt að velja: Að leggjast veikur eða standa upp úr rúminu. Ég ákvað þegar ég vaknaði á gjörgæslunni að ég ætlaði mér að standa upp úr rúminu. Ég veit það frá fyrstu hendi að ég hef hjálpað fullt af fólki að standa upp úr rúminu, miklu fyrr en það kannski hélt að það myndi gera og jafnvel fólki sem hefur lengi verið rúmliggjandi. Það er svo auðvelt þegar maður veikist að dæma sig úr leik, en við megum það ekki. Það er akkúrat á þessum ögurstundum sem við verðum að horfa í spegilinn og segja: „Nú lækna ég mig sjálfur“ vegna þess að það gerir það enginn fyrir mann. Að taka það í mál að leika þessa sýningu var mikilvægur þáttur í að ná fyrr bata. Það er alveg sama hvaða verkefni í lífinu við tökum okkur fyrir hendur, það klárar þau enginn fyrir mann. Þetta hef ég lært í veikindum mínum og segi fyrir mitt leyti að ég hefði viljað læra þetta miklu fyrr í lífinu og með öðrum hætti. Ég vona bara að ég geti deilt reynslu minni með jákvæðum hætti, því lífið er núna,“ segir Stefán Karl og gerir þannig að sínum slagorð Krafts, stuðningsfélags fyrir ungt fólk á aldrinum 18-40 ára sem greinst hefur með krabbamein og aðstandendur þess.
„Þessi slagorð urðu mér hvatning til að drífa mig af stað í hringferðina um landið í því skyni að búa til minningar með fjölskyldunni. Ég veit ekkert hvað ég á langt eftir – en það veit það svo sem enginn. Slagorðið gildir fyrir allt og alla. Lífið er núna, hvort sem þú ert með krabbamein, glímir við önnur veikindi eða heldur að þú sért fullkomlega frískur.“
Nú eruð þið búnir að kveðja Með fulla vasa grjóti í seinasta sinn. Hvað tekur við hjá þér núna?
„Já, núna er þessum kafla lokið. Eins og Dr. Seuss sagði: „Ekki gráta af því þessu er lokið. Brostu yfir því að það gerðist“. Nú ætla ég að taka mitt veikindafrí, sem ég hefði í raun átt að vera búin að taka. Ég veit því að læknarnir mínir verða ægilega glaðir að lesa það að ég ætli loks í frí,“ segir Stefán Karl kíminn. Í fríinu hyggst Stefán Karl sjá uppistand Ara Eldjárn í Soho-leikhúsinu um næstu helgi, en Ari hefur aðstoðað Stefán Karl við að undirbúa uppistand sem hann hyggst standa fyrir öðruhvorumegin við áramótin með skömmum fyrirvara.
„Ég er opinn fyrir nýjum og skemmtilegum ævintýrum. Ég er fastráðinn starfsmaður í Þjóðleikhúsinu í vetur og við þjóðleikhússtjóri erum að skoða hvaða verkefni gætu hentað mér. Ég get auðvitað ekki sökum veikinda minna tekið að mér hvað sem er, en það er fullt af skemmtilegum verkefnum framundan. Mér finnst þetta frábært leikár og ég hlakka til að fylgjast með konunni minni [Steinunni Ólínu Þorsteinsdóttur] fara á svið í Efa á nýju ári, en hún hefur ekki stigið á leiksvið í rúm 12 ár.“
Eru bókaskrif eitthvað inni í myndinni hjá þér?
„Já, við Mark Valenti vinnum um þessar mundir að bók um starfsferil minn úti. Þetta er í bland ferða- og starfssaga,“ segir Stefán Karl og bendir á að Valenti hafi verið aðalhandritahöfundur sjónvarpsþáttanna um Latabæ. „Bókin mun fókúsera á þátttöku mína í annars vegar Latabæ og hins vegar leikritinu Tröllið sem stal jólunum,“ segir Stefán Karl sem á árunum 2004 til 2014 bjó og starfaði í Bandaríkjunum þar sem hann gerði garðinn frægan sem Glanni Glæpur og Grinch eða Trölli. „Þó Latibær hafi verið tekinn upp á Íslandi frá 2004 má í raun segja að ég hafi farið frá landinu það ár og ekki komið aftur fyrr en 2014. Þannig hef ég meirihluta starfsævinnar verið erlendis,“ segir Stefán Karl og bendir á að hann hafi í raun tileinkað líf sitt tveimur hlutverkum.
„Þó ég hafi leikið eitt og eitt hlutverk inn á milli hef ég helgað mig annars vegar Glanna Glæp og hins vegar Trölla, sem er mjög sérstakt. En þetta eru svo stórir karakterar og viðamiklar uppfærslur að það hefur verið fullt starf að sinna þeim. Hlutverk Trölla lék ég um 600 sinnum út um öll Bandaríkin fyrir um tvær milljónir áhorfenda. Ég hef því frá miklu að segja þar,“ segir Stefán Karl og bendir á að bókin sé væntanleg í Bandaríkjunum í lok næsta árs og allar líkur séu á því að hún verði ekki aðeins gefin út á ensku heldur líka spænsku. „Ég á stóran og breiðan aðdáendahóp í hinum spænskumælandi heimi,“ segir Stefán Karl og bendir á að hann vilji nýta veikindi sín til góðs.
„Veikindi mín hafa ratað í öll helstu slúðurblöð heims og sökum þessa vita mjög margir hver maðurinn á bak við sminkið og grímuna er, sem gefur mér tækifæri til að ná til fólks með jákvæð skilaboð og auðvitað vil ég nýta mér það. Ég hef alltaf verið þeirrar skoðunar að við eigum að láta gott af okkur leiða. Við eigum ekki að hylma yfir mistök okkar og veikleika heldur læra af þeim og nýta til góðs,“ segir Stefán Karl og aftekur með öllu að hann muni senda frá sér hefðbundna ævisögu. „Sjálfur er ég ekki mikið fyrir ævisögur og ég hugsa þessa bók meira fyrir aðdáendur Latabæjar og þá sem hafa gaman af því að skyggnast á bak við tjöldin í leikhúsinu. Ég er alltaf eitthvað að skrifa. Hvort þær hugleiðingar enda uppi á leiksviðinu, á hvíta tjaldinu, á sjónvarpsskjánum eða á bók veit ég ekki. Það kemur allt í ljós,“ segir Stefán Karl. Lengi útgáfu af viðtalinu má lesa í Morgunblaðinu í dag.