Bandaríski leikarinn Kevin Spacey tilkynnti í dag að að hann væri samkynhneigður og bað um leið leikarann Anthony Rapp afsökunar. Rapp hafði áður sakað Spacey um að reyna við sig í partíi árið 1986, þegar Rapp var 14 ára.
Spacey setti tilkynningu sína fram á Twitter skömmu eftir miðnætti, en Rapp, sem er best þekktur fyrir leik sinn í söngleiknum Rent á Broadway í New York, hafði sett ásökunina fram í viðtali við Buzzfeed News.
Kvaðst Spacey í twitterfærslu sinni ekki muna eftir samskiptum þeirra en ef hann hefði hagað sér líkt og Rapp lýsti ætti Rapp innilega afsökunarbeiðni skilið fyrir það sem hefði verið „verulega óviðeigandi ölvunarhegðun“.
„Líkt og þeir sem standa mér næst vita hef ég átt í sambandi við bæði karla og konur. Ég hef elskað og átt í ástarsambandi við karla alla mína ævi og ég kýs í dag að vera samkynhneigður. Ég vil taka á þessu á heiðarlegan og opinn máta og það byrjar á því að skoða mína eigin hegðun,“ sagði Spacey.
Rapp sagði í viðtalinu við Buzzfeed að árið 1986, þegar þeir Spacey hefðu báðir verið að leika í sýningum á Broadway, hefði Spacey, sem þá var 26 ára, boðið sér í partí í íbúð sinni. Kvaðst hann hafa verið að horfa á sjónvarpið í svefnherbergi Spaceys þegar leikarinn hefði staðið í dyragættinni undir lok kvölds og riðað til, greinilega drukkinn. Sagði hann Spacey hafa tekið sig og lagt sig á rúmið og því næst lagst ofan á sig.
„Hann var að reyna að tæla mig,“ sagði Rapp. „Ég veit ekki hvort ég hefði notað þau orð, en hann var að reyna við mig kynferðislega.“
Kvaðst Rapp hafa komið sér burtu eftir smástund og farið inn á bað og eftir það yfirgefið íbúðina.
Miklar fréttir hafa borist af kynferðislegri misnotkun og áreitni í kvikmyndaiðnaðinum undanfarið og hófust þær á fréttum af kvikmyndaframleiðandanum Harvey Weinstein, sem 50 konur, þeirra á meðal leikkonurnar Gwyneth Paltrow, Angelina Jolie og Mira Sorvino, hafa sakað um kynferðislega áreitni og misnotkun.