Peningar eru sýra sem virkar hægt

Feðgarnir Þórarinn Leifsson og Leifur Ottó.
Feðgarnir Þórarinn Leifsson og Leifur Ottó. Eggert Jóhannesson

Þótt Þórarinn Leifsson hafi helst unnið sér orð fyrir barnabækur sínar hefur hann líka skrifað fyrir fullorðna og í vikunni kom skáldsagan Kaldakol þar sem við sögu kemur meðal annars rýming Íslands og rýmislistaverkið Ísland allt á Tempelhof-flugvelli í Berlín.

Þórarinn, sem býr í Berlín, segir að kveikjuna að bókinni megi einmitt rekja til atkvæðagreiðslu um framtíð vallarins. „Flugvellinum er lokað 2008 og fyrir nokkrum árum var haldin samkeppni um hvað ætti eiginlega að gera við svæðið og samhliða því fór fram hin klassíska umræða um kapítalisma og almannarými. Það sem var svo óvenjulegt við Tempelhof-kosninguna 2015 var að almenningur vann, meirihlutinn kaus að flugvallarsvæðið yrði ekki skert til að hægt yrði að byggja.“

Peningar eru sýra sem virkar hægt og rólega

– Í bókinni stillir þú líka upp list og peningum, það hvernig peningaöfl nota allt í sína þágu, ást og væntumþykju og náttúruna og auðvitað listina líka.

„Það verður alltaf togstreita þegar listamenn eru komnir of nálægt peningum, svona VG-Sjálfstæðisflokkur-togstreita, en listamenn eru samt háðir peningum, þurfa peninga til að lifa. Þetta er það grátt svæði að það er ekki hægt að hafa eina skýra afstöðu. Ég held að listamenn þurfi í eðli sínu að vera tækifærissinnar til þess að dæmið gangi upp.“

– Það er hægt að vera trúr listinni, en peningarnir smita allt.

„Þeir skemma allt á endanum. Þeir eru nauðsynlegir, græðandi áburður en ef það er of mikið af honum drepst gróðurinn. Allt góða vinstraliðið sem ég hef þekkt í gegnum árin fer á endanum að þiggja kokkteila hjá Sjálfstæðisflokknum og verður hægrisinnaðra með aldrinum. Peningar eru sýra sem virkar hægt og rólega.“

– Á hvaða stigi ert þú?

„Ég er einhvers staðar í miðjunni,“ segir Þórarinn og hlær, „ég er vinstra megin við Miðflokkinn.“

Svört heimsmynd

– Heimsmyndin sem birtist í Kaldakoli er býsna svört.

„Bókin er skrifuð undir áhrifum af því að vera í Berlín og af því sögulega samhengi sem er þar. Mér finnst nútíminn ekki vera eins og ég lýsi honum í Kaldakoli og írónískt nokk, þá var ég farinn að vinna við ferðamannaiðnaðinn daginn eftir að ég kláraði bókina, var sendur út með míkrófón og þar með orðinn hluti af þessari paródíu og uni mér vel við það.

Sá dökki tónn sem er í bókinni byggist á því hvað og hvenær hún var skrifuð, við hvaða aðstæður, í hvaða umhverfi og svo framvegis. Ég var að klára hjónaband í sögulega mjög dökku umhverfi með kalda stríðið og seinni heimsstyrjöldina yfir mér. Það getur vel verið að hún hefði orðið eitthvað allt annað ef ég hefði skrifað hana á Hellu.“

– Tempelhof-flugvallarsvæðið er merkilegt rými þegar maður kemur inn í garðinn, þetta gríðarlega stóra opna svæði í borginni, en í bókinni verður til annað merkilegt svæði – Ísland án Íslendinga.

„Já, þessi villta náttúra sem alla túrista dreymir um, það sem þeir elska mest er þegar landið er tómt sem ég held að Íslendingar séu ekki alveg búnir að átta sig á. Túristarnir vilja helst ekki sjá tré eða hús og helst enga Íslendinga, þeir vilja losna við helvítis Íslendingana,“ segir Þórarinn og hlær.

– Án þess ég vilji upplýsa of mikið um bókina af tillitssemi við væntanlega lesendur þá er endir hennar býsna kaldhæðinn.

„Já, hann er kaldhæðinn og það býr líka ákveðið pólitískt komment undir öllu án þess það sé flokksbundið komment. Það er ákveðin gagnrýni undirliggjandi, en svo vissi ég ekki fyrr en eftir á að menn hafa undanfarið verið að skrifa hér heima um eign á landi og fleira sem ég kem inn á í bókinni. Ég lagði samt áherslu á að þetta yrði ekki einhver paródía á íslenska stjórnmálamenn, það er enginn Sigmundur Davíð eða Bjarni Ben. eða Kata Jakobs, ég vildi ekki að þetta yrði einhver pistill eða áramótaskaup.“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Viðvörunarbjöllur í tilfinningalífinu hringja sem mest þær mega. Nú væri gott að ræða við maka um orlof og skapandi verkefni.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar
Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Viðvörunarbjöllur í tilfinningalífinu hringja sem mest þær mega. Nú væri gott að ræða við maka um orlof og skapandi verkefni.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar