Sænski leikarinn Johannes Brost lést í gær, fimmtudag. Fjölskylda Brosts tilkynnti andlátið en sænskir fjölmiðlar greina frá láti leikarans í dag. Samstarfsfélagar Brosts minnast hans sem góðs leikara og skemmtilegs og jákvæðs manns.
Brost lést á sjúkrahúsi eftir langa baráttu við krabbamein. „Hann barðist vel og lengi en þurfti að játa sig sigraðan. Hann er farinn frá okkur,“ skrifaði fjölskyldan. Aftonbladet greinir frá því að á mánudaginn hafi hann átt að segja frá krabbameinsbaráttu sinni á galakvöldinu „Tilsammans mot cancer“ sem sjónvarpstöðin TV4 stendur fyrir en í ágúst tilkynnti hann að hann væri með krabbamein og ætti að fara í aðgerð í haust.
Brost er sonur rithöfundarins Svens Forsells og leikkonunnar Gudrun Brost en hann er sagður hafa viljað feta í fótspor móður sinnar allt frá því hann var barn. Brost á að baki glæstan leikferil en hans er meðal annars minnst fyrir hlutverk sitt sem barþjónninn Joker í sænsku þáttunum Redieriet frá tíunda áratugnum en alls voru gerðir 318 þættir.