Oprah reif þakið af húsinu og boðaði nýja dögun

Oprah klæddist svörtu, eins og nánast allar aðrar konur sem …
Oprah klæddist svörtu, eins og nánast allar aðrar konur sem til hátíðarinnar mættu, í samstöðu við #metoo-hreyfinguna. AFP

Allir elska Opruh. Eða svo segir Reese Witherspoon og líklega hefur hún rétt fyrir sér.

Oprah Winfrey hlaut Cecil B. DeMille-verðlaunin svonefndu á Golden Globe-verðlaunahátíðinni í kvöld. Þau eru heiðursverðlaun hátíðarinnar og Oprah er fyrsta svarta konan til að hljóta þau.

Oprah er að sögn Witherspoon, sem kynnti hana á svið, bæði nafnorð, sagnorð og lýsingarorð og það er vissulega nokkuð ljóst að með ræðu sinni Oprah-ði Oprah gjörsamlega yfir hátíðina alla, viðstöddum til gríðarlegrar ánægju.

Winfrey minntist þess þegar hún sat á stofugólfinu heima hjá sér árið 1964 og horfði á Sidney Poitier verða fyrsta svarta manninn til þess að hljóta Óskarsverðlaun. Seinna hlaut hann einmitt sömu verðlaun og Oprah tók við nú.

„Mér er það ljóst að það eru litlar stelpur að horfa á mig verða fyrsta svarta konan til að hljóta þessi verðlaun,“ sagði Oprah. 

Hún stýrði umræðunni inn á mál málanna, #metoo, og sagði það að tjá sinn sannleika vera sterkasta vopnið. Kvaðst hún sækja innblástur í þær konur sem hafa fundið nægan styrk og valdeflingu til að segja frá.

„Í kvöld vil ég tjá þakklæti mitt í garð allra þeirra kvenna sem hafa þolað áralangt ofbeldi og misnotkun. Þær eru konur hverra nöfn við munum aldrei þekkja – þær sem vinna á heimilum, á bóndabæjum, í verksmiðjum,“ sagði Oprah.

Því næst vatt hún sér að sögu Recy Taylor, sem var ung móðir og eiginkona árið 1944 þegar henni var rænt á leið heim úr kirkju. Mannræningjarnir voru sex. Þeir voru vopnaðir. Þeir voru hvítir.

Mennirnir nauðguðu henni, hótuðu að myrða hana ef hún segði frá og skildu hana svo eftir, keflaða í vegarkanti. En þrátt fyrir hótanir mannanna barst saga hennar til NAACP – samtaka um réttindi svartra í Bandaríkjunum. Þar, sagði Oprah, tók ung kona við málinu sem barðist fyrir réttlæti. Sú kona hér Rosa Parks.

„En réttlæti var ekki mögulegt á tímum Jim Crow. Mennirnir sem reyndu að gjöreyða henni voru aldrei sóttir til saka,“ sagði Oprah. 

„Recy Taylor lést fyrir tíu dögum, rétt fyrir 98 ára afmælið sitt. Hún lifði eins og við höfum öll lifað, í of mörg ár innan menningar sem er brotin vegna hrottalega valdamikilla manna. Of lengi hefur ekki verið hlustað á konur eða þeim ekki trúað ef þær dirfast að tala gegn valdamiklum mönnum. En tími þeirra er kominn. Tími þeirra er kominn!“

AFP

Andinn og krafturinn í salnum reis hærra og hærra eftir því sem Oprah talaði lengur og víða mátti sjá baráttutár á hvarmi. 

Oprah sagðist vonast til þess að Taylor hefði látist, vitandi það að hennar sannleikur, líkt og veruleiki svo margra kvenna á þessum tíma, fengi að heyrast. Hann hafi verið einhvers staðar í hjarta Rosu Parks þegar hún, næstum 11 árum síðar, ákvað að sitja sem fastast í rútunni. Hann væri hér, innan hverrar konu sem veldi að segja „Ég líka“ og með hverjum þeim manni sem kysi að hlusta.

„Svo ég vil að allar stelpurnar sem eru að horfa núna viti að það er nýr dagur við sjóndeildarhringinn,“ sagði hún að lokum við dynjandi lófatak. 

„Og þegar sá dagur loksins rís, mun það vera vegna fjölmargra magnaðra kvenna [...] og ansi frábærra karla, sem vinna af hörku til að vera viss um að þær verði leiðtogarnir sem færa okkur þann tíma þar sem enginn þarf nokkurn tíma að segja „ég líka“.“

Hér að neðan má sjá ræðu Opruh í heild sinni.


 

mbl.is
Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Þrá eftir fullkomnun og óraunsæjar áætlanir eiga hug tvíburans allan um þessar mundir. Og það sem meira er, þetta er ekkert mál fyrir þig! Oftast viltu nefnilega það sama.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar
3
Torill Thorup
5
Birgitta H. Halldórsdóttir
Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Þrá eftir fullkomnun og óraunsæjar áætlanir eiga hug tvíburans allan um þessar mundir. Og það sem meira er, þetta er ekkert mál fyrir þig! Oftast viltu nefnilega það sama.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar
3
Torill Thorup
5
Birgitta H. Halldórsdóttir