Ísold Uggadóttir var valin besti leikstjórinn í flokki alþjóðlegra kvikmynda á lokahátíð Sundace-kvikmyndahátíðarinnar í Park City í Utah í gærkvöldi.
Á lokahátíðinni voru veitt verðlaun í ýmsum flokkum en verðlaun fyrir leikstjórn eru ein af mikilvægustu verðlaunum þessarar virtu hátíðar, að því er segir í tilkynningu.
Andið eðlilega hlaut góðar viðtökur áhorfenda og fagfólks í kvikmyndabransanum á Sundance-hátíðinni. Myndin hefur einnig hlotið lof gagnrýnenda frá því að hún var frumsýnd í upphafi vikunnar.
Ísold Uggadóttir er leikstjóri og handritshöfundur myndarinnar. Með aðalhlutverk fara leikkonurnar Kristín Þóra Haraldsdóttir og Babetida Sadjo.
Andið eðlilega er fyrsta kvikmynd Ísoldar í fullri lengd. Áður hefur hún leikstýrt stuttmyndunum Góðir gestir, Njálsgata, Clean og Útrás Reykjavík.
Andið eðlilega fléttar saman sögum tveggja ólíkra kvenna, hælisleitanda frá Gíneu-Bissá og ungrar íslenskrar konu sem hefur störf við vegabréfaskoðun á Keflavíkurflugvelli. Leiðir þeirra liggja saman á örlagastundu í lífi beggja og tengjast þær óvæntum böndum.
Andið eðlilega keppti í öðrum af tveimur flokkum aðalkeppni Sundance, World Cinema Dramatic Competition, þar sem 12 kvikmyndir framleiddar utan Bandaríkjanna voru valdar úr þúsundum innsendra mynda.
Andið eðlilega verður frumsýnd á Íslandi á næstu vikum og mun Sena dreifa myndinni. The Match Factory sér um sölu og dreifingu á heimsvísu.