Fjölmennur hópur leikara stígur á svið í sirkussöngleiknum Slá í gegn sem frumsýndur verður í Þjóðleikhúsinu 24. febrúar. Þjóðleikhúsið hefur þurft að gera nokkrar mannabreytingar í leikhópnum en nú er það leikarinn Hilmir Snær Guðnason sem hleypur í skarðið fyrir Stefán Karl Stefánsson.
Hilmir Snær mun leika Frímann flugkappa en Stefán Karl þurfti að segja sig frá hlutverkinu sökum heilsubrests. Hilmir Snær og Stefán Karl þekkjast vel enda léku þeir saman í yfir 200 sýningum af Með fulla vasa af grjóti. „Hann á raunhæfan möguleika á að gera þetta jafnvel og ég – en þó ekki betur!“ segir Stefán Karl.
„Ég þurfti að vera skynsamur gagnvart eigin úthaldi og heilsu og því varð ég því miður að láta þetta hlutverk frá mér,“ segir Stefán Karl. „Ég fæ í staðinn að njóta sjónarspilsins úr salnum með öðrum áhorfendum og hlakka til að sjá Hilmi þenja sig og hefja sig til flugs, það er meiri Frímann í honum en hann heldur.“
Í lok janúar var tilkynnt að Jón Gnarr hefði tekið við hlutverki Sigurjóns digra en Eggert Þorleifsson átti í fyrstu að fara með hlutverk Sigurjóns.