Tónlistarmaðurinn Jóhann Jóhannsson hafði skömmu áður en hann lést gert samning við Disney um að semja tónlist við kvikmyndina Christopher Robin sem er byggð á bókum A.A. Milne um Bangsímon. Myndin verður bæði tölvuteiknuð og leikin.
„Hann var meira og minna að einbeita sér að því verkefni,“ sagði Tim Husom, umboðsmaður Jóhanns hjá Redbird Music, í samtali við The Hollywood Reporter.
„Þetta var frekar nýtt fyrir honum að gera svona mynd og þetta gekk mjög vel.“
Ian Canning starfaði með Jóhanni og Hildi Guðnadóttir við tónlist myndarinnar Mary Magdelene, eitt af síðustu verkefnunum sem Jóhann náði að klára áður en hann lést í Berlín.
„Við misstum mikið tónskáld og frábæran listamann um helgina,“ sagði Canning. „Jóhann hefur skilið eftir sig framúrskarandi tónlist en við höfum líka misst af ótrúlegu efni sem var væntanlegt.“
Hildur Guðnadóttir ræddi einnig við The Hollywood Reporter. „Núna er líkami hans farinn og myrkur hefur færst yfir hluta sálar minnar. Ég er ekki byrjuð að sætta mig við að ég verði að halda áfram án þess að hann sitji við hlið mér í hljóðverinu. Ég hef ekki öðlast hugrekki enn til að fara aftur í hljóðverið.“
Husom sagði að síðasta samtal hans við Jóhann hafi verið miðvikudaginn 7. febrúar og að þeir hafi rætt saman á hefðbundnum nótum. Meðal annars ræddu þeir tónlistina við Christopher Robin og fyrirhugaða tónleika í Sydney og í London vegna heimildamyndarinnar Last and First Men. Jóhann leikstýrði myndinni og samdi tónlistina við hana. Leikkonan Tilda Swinton talaði inn á hana.
Að sögn Husom benti ekkert til þess að eitthvað væri í ólagi. Þeir ræddu saman daglega og þegar Jóhann hringdi ekki daginn eftir hringdi Husom í samstarfsfélaga í Berlín. Þegar enginn svaraði í íbúð Jóhanns í Berlín var haft samband við lögregluna. Fannst hann í framhaldinu látinn.
„Ekkert benti til ofbeldis eða að eitthvað saknæmt hafi átt sér stað,“ sagði talsmaður lögreglunnar.
Yfirvöld fyrirskipuðu að eiturefnarannsókn yrði gerð á blóði Jóhanns og er niðurstöðu að vænta í fyrsta lagi í næstu viku. Engin rannsókn er í gangi í augnablikinu á orsök dauða hans.
Fram kemur í greininni að Jóhann hafi verið vinnualki. Á meðal nýrra verka hans var tónlist við The Mercy, með Colin Firth í aðalhlutverki og Mandy með Nicolas Cage í aðalhlutverki.
Að sögn Husom var Jóhann í eðli sínu rólyndismaður sem „hafði alls engan áhuga á sviðsljósinu. Hann bjó til tónlist eingöngu vegna tónlistarinnar sjálfrar“.