Sannkölluð gleðisprengja

Örn Árnason (fyrir miðju) í hlutverki Binna sem keypti sér …
Örn Árnason (fyrir miðju) í hlutverki Binna sem keypti sér sirkus frá Rúmeníu á eBay. Ljósmynd/Hörður Sveinsson

„Þegar ég sit úti í sal á æfingum langar mig iðulega að stökkva upp á svið og vera með – ég held að það sé góðs viti,“ segir Guðjón Davíð Karlsson, betur þekktur sem Gói, höfundur og leikstjóri fjölskyldusirkussöngleiksins Slá í gegn sem frumsýndur verður í Þjóðleikhúsinu á laugardag.

Fyrir rúmi ári frumsýndi Þjóðleikhúsið fjölskyldusöngleikinn Fjarskaland úr smiðju Góa í leikstjórn Selmu Björnsdóttur og því verða tveir söngleikir Góa í sýningu á Stóra sviðinu næstu vikurnar. „Ég er þakklátur Ara [Matthíassyni þjóðleikhússtjóra] fyrir að hafa trú á mér og fyrir að fá tækifæri til að gera marga og ólíka hluti innan leikhússins,“ segir Gói og rifjar upp að hann hafi frá fimm ára aldri átt sér draum um að verða leikhúslistamaður þegar hann yrði stór. „Ég hef verið svo lánsamur að sá draumur rættist. Ég þreytist aldrei á því í samtölum mínum við skólabörn að hvetja þau til að fylgja ávallt hjartanu, elta draumana og gefast aldrei upp. Því það er ekkert eins dásamlegt og þegar maður sér drauma sína rætast.“

Sýningin á að breyta heiminum

En hvernig kemur það til að þú leikstýrir eigin verki að þessu sinni?

„Mér fannst það spennandi, ekki síst vegna þess að ég hafði mjög skýra sýn á hvað mig langaði til að gera við þennan efnivið. Markmið mitt er að smita gleði út í samfélagið í anda Stuðmanna. Stuðmenn eru ótrúlega hæfileikaríkir listamenn, frábærir hljóðfæraleikarar og snilldarlegir laga- og textasmiðir, enda hafa þeir samið ógrynni hittara. Þeirra aðalsmerki er samt húmorinn, ekki síst fyrir sjálfum sér, sem skýrir, að ég held, áratugalangar vinsældir þeirra. Mig langaði að fanga þennan létta blæ og færa gleðina á svið. Þetta verður sannkölluð gleðisprengja. Markmið mitt hefur frá fyrsta bókstaf verið að breyta heiminum með þessu verki, því ég held að hægt sé að breyta heiminum til góðs þegar 500 áhorfendur koma út af hverri sýningu með dillandi Stuðmannatakt í líkamanum, bros á vör og gleði í hjarta,“ segir Gói og tekur fram að þó hann hafi skýra listræna sýn og sterkar skoðanir hafi hann engar áhyggjur af því að verða einræðisherra.

Guðjón Davíð Karlsson höfundur og leikstjóri sirkussöngleiksins Slá í gegn.
Guðjón Davíð Karlsson höfundur og leikstjóri sirkussöngleiksins Slá í gegn. mbl.is/Árni Sæberg

„Ég er með frábært listrænt teymi í kringum mig sem er mikið leikhúslistafólk,“ segir Gói og nefnir í því samhengi Maríu Th. Ólafsdóttur sem hannar búninga, Finn Arnar Arnarson sem hannar leikmynd, Magnús Arnar Sigurðsson sem hannar lýsingu, Kristin Gauta Einarsson og Kristján Sigmund Einarsson sem hanna hljóðmynd, Stefán Hall Stefánsson aðstoðarleikstjóra, Vigni Snæ Vigfússon tónlistarstjóra, Nicholas Arthur Candy sirkusstjóra og Chantelle Carey danshöfund. „Við höfum átt mjög gott samtal og ég er algjörlega ófeiminn að treysta öðrum. Ég er alltaf til í að skoða allar hugmyndir og lít ekki á mig sem einræðisherra. Ég veit að heildin virkar ekki nema allir fái sína rödd og eigi hlutdeild í sköpuninni,“ segir Gói og tekur fram að hann sé einstaklega heppinn með leikhópinn og samverkafólk.

„Ég hef aldrei áður verið í leikhóp sem kemur jafn jákvæður og æstur í að gera frábæra sýningu, eins og í þessu ferli. Það er sama hvað við höfum verið að fást við. Því er alltaf mætt með jákvæðni og allir eru til í að prófa,“ segir Gói og tekur fram að í ljósi þess að sirkus sé leiðarstef í gegnum sýninguna þurfi að leysa ýmis flókin tæknileg mál og skapa galdra á sviðinu.

„Hér hefur þurft að útbúa tæknilega flókna leikmuni, gervi og búninga ásamt því að og finna tæknilausnir til að skapa galdra á sviðinu. Enda er það ekki á hverjum degi sem starfsmenn hússins þurfa að finna lausn á því hvernig þeir geta látið Örn Árnason sitja í lausu lofti í heilt lag. Deildir hússins hafa unnið einstaklega vel saman og þar hefur jákvæðnin verið leiðarljósið. Ég held að jákvæðnin, sem birtist í öllum deildum Þjóðleikhússins, skýrist af því að það vita allir í húsinu hvað okkur langar til að gera með þessari sýningu. Hér eru allir mjög fókúseraðir á það að þetta er Þjóðleikhúsið okkar, öll þjóðin á þetta leikhús og það er mjög mikilvægt að bjóða upp á sýningu sem númer eitt, tvö og þrjú er gerð fyrir okkar dyggustu gesti – fólkið sem mætir hér í leikhús og styður við bakið á okkur. Ég held að það sé partur af skýringunni. Svo finnst öllum svo spennandi að fá að taka þátt í þessari frumsköpun sem hér fer fram við vinnslu sýningarinnar. Við eigum öll svo stóran þátt í þessari sýningu,“ segir Gói og áréttar að það séu mikil forréttindi að fá að vinna í slíku skapandi umhverfi. „Við sem hér vinnum erum sannkallaður forréttindahópur því við fáum að vinna við það sem við elskum og okkur dreymir um.“

Engu við myndina að bæta

En hvernig kviknaði hugmyndin að þessum sirkussöngleik?

„Hún kviknaði í samtali mínu við þjóðleikhússtjóra og Stuðmenn. Í desember sl. voru 35 ár síðan kvikmyndin Með allt á hreinu var frumsýnd og því fannst okkur sniðugt að gera eitthvað í tilefni afmælisins. Mér fannst ekki koma til greina að búa til söngleik upp úr myndinni, því hún stendur sem fullkomið listaverk og engu við hana að bæta. Ég varð strax mjög hrifinn af þeirri hugmynd að búa til glymskrattasöngleik þar sem allur katalógur Stuðmanna væri undir,“ segir Gói og tekur fram að söngleikurinn innihaldi bæði vinsælustu lög Stuðmanna og minna þekkt lög sem aðeins séu til í tónleikaupptöku.

Hilmir Snær Guðnason fer með hlutverk Frímanns flugkappa sem skotið …
Hilmir Snær Guðnason fer með hlutverk Frímanns flugkappa sem skotið er úr fallbyssu í sirkussýningunni. Ljósmynd/Hörður Sveinsson

Hefur þú verið aðdáanda Stuðmanna lengi?

„Já, ég hef alla tíð hlustað mikið á Stuðmenn og haldið upp á þá,“ segir Gói og tekur fram að það hafi verið sér mikill heiður þegar honum gafst tækifæri til að koma fram með Stuðmönnum á styrktartónleikum fyrir Stefán Karl Stefánsson leikara síðla árs 2016. „Það var stórkostleg upplifun,“ segir Gói og rifjar upp atvik úr æsku. „Þegar ég var á grunnskólaaldri bjó ég í miðbænum og hjólaði reglulega niður á Grettisgötu eftir skóla til að horfa á bílinn hans Egils Ólafssonar, enda fallegasti bíllinn í borginni,“ segir Gói og rifjar upp að um hafi verið að ræða hvítan Mercedes Benz. „Þegar ég sá samskonar grip á bílasölu fyrir nokkrum árum varð ég að kaupa hann,“ segir Gói kíminn.

Ég er að þroskast

En um hvað fjallar svo sirkussöngleikurinn Slá í gegn?

„Þegar ég hugsa um Stuðmenn og Með allt á hreinu fer ég strax að hugsa um félagsheimili. Hér á landi er starfandi leikfélag í nánast hverju byggðarlagi, en þessi mikli leiklistaráhugi Íslendinga er einsdæmi. Ég dáist að fólki sem mætir í félagsheimilið í byggðarlaginu að loknum löngum vinnudegi til að uppfylla leiklistardrauma sína. Ég er svo lánsamur að geta mætt í félagsheimilið hér við Hverfisgötu og sinnt minni listsköpun í fullu starfi,“ segir Gói og tekur fram að Slá í gegn gerist einmitt í litlu byggðarlagi þar sem leikfélagið á staðnum fagnar 100 ára starfsafmæli með því að setja upp Gullna hliðið eftir Davíð Stefánsson.

„Formaður leikfélagsins er Sigurjón digri, sem Jón Gnarr leikur, og hann hefur ásamt fjölskyldu sinni borið leikfélagið á herðum sér. Hann leikstýrir afmælissýningunni og yfirtekur smám saman öll hlutverkin því honum finnst enginn geta leikið jafnvel og hann sjálfur. Á staðinn mætir draumóramaðurinn Binni, sem Örn Árnason leikur, með sirkus frá Rúmeníu sem hann keypti á eBay og ætlar að nýta plássið til að þróa sirkussýninguna áður en hann heldur til höfuðborgarinnar. Með honum í för eru Helga eiginkona hans, sem Ólafía Hrönn Jónsdóttir leikur, og dóttir þeirra, Harpa Sjöfn sem Snæfríður Ingvarsdóttir leikur. Þá er nú heppilegt að Sigurjón digri er búinn að reka alla úr leikfélaginu, því bæjarbúar, sem dreymir alla um að slá í gegn með einhverjum hætti, ganga til liðs við sirkusinn og úr verður heilmikil sýning,“ segir Gói og bendir á að það sé engin tilviljun að sirkus hafi orðið fyrir valinu sem rauði þráður verksins. „Því það er mikill sirkus í Stuðmönnum. Sirkusinn er líka kjörin leið til að skapa þá gleðisprengju sem markmiðið er,“ segir Gói og tekur fram að í lokaþætti verksins gefist færi á góðri lagasyrpu, en í þriðja og síðasta þætti leikritsins fá áhorfendur að sjá sirkussýninguna sem verið hefur í undirbúningi allt verkið.

Edda Björgvinsdóttir og Jón Gnarr í hlutverkum sínum sem skeggjaða …
Edda Björgvinsdóttir og Jón Gnarr í hlutverkum sínum sem skeggjaða konan og Sigurjón digri. Ljósmynd/Hörður Sveinsson

Í ljósi þess að þetta er fyrsta stóra sýningin sem þú leikstýrir í atvinnuleikhúsi er eðlilegt að spyrja hvort þú sért nú kominn á bragðið og langi að leikstýra meira?

„Já, ekki spurning. Fyrir nokkrum árum, þegar ég hafði skrifað Góa og eldfærin, var ég spurður hvort mig langaði að skrifa meira og svaraði þá neitandi. Hálfu ári seinna var ég kominn á fullt við að skrifa Stundina okkar. Fyrir nokkrum árum var ég líka spurður hvort mig langaði að leikstýra og þá svaraði ég líka neitandi og sá fyrir mér að ég myndi bara vilja leika. Í dag get ég hins vegar svarað því einlæglega að ég væri til í að leikstýra meira. Sennilega er þetta það sem kallast þroski. Þannig að ég er að þroskast. Ég skal alveg viðurkenna að ég átti ekki von á því að það myndi gerast,“ segir Gói og skellihlær.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Létta lundin þín mun afla þér stuðnings og samvinnu á vinnustað. Farðu oftar út að ganga.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar
1
Unnur Lilja Aradóttir
2
Kathryn Hughes
3
Torill Thorup
4
Birgitta H. Halldórsdóttir
5
Steindór Ívarsson
Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Létta lundin þín mun afla þér stuðnings og samvinnu á vinnustað. Farðu oftar út að ganga.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar
1
Unnur Lilja Aradóttir
2
Kathryn Hughes
3
Torill Thorup
4
Birgitta H. Halldórsdóttir
5
Steindór Ívarsson