Músíktilraunir hefjast í Hörpu í kvöld og þá keppa fyrstu sjö sveitirnar um sæti í úrslitum næstkomandi laugardag. Áheyrendur velja eina hljómsveit áfram í kvöld og sérstök dómnefnd aðra, en dómnefndin velur síðan tvær til þrjár hljómsveitir frá kvöldunum fjórum áfram í úrslit sýnist henni svo.
Keppnin hefst kl. 19.30 og verður meðal annars boðið upp á rapp, háskólarokk, gítarpopp, indírokk og tilraunatónlist og hljómsveitirnar eru úr ýmsum áttum; úr Reykjavík, Kópavogi og Eyjafjarðarsveit, frá Akureyri, Akranesi, Stykkishólmi og Ísafirði.