Óratórían Edda II: Líf guðanna eftir Jón Leifs verður heimsfrumflutt á tónleikum Sinfóníuhljómsveitar Íslands í Eldborg Hörpu föstudaginn 23. mars kl. 19.30 rúmri hálfri öld eftir að tónskáldið lauk við verkið. Tónleikarnir eru hluti af opinberri hátíðardagskrá í tilefni af aldarafmæli fullveldis Íslands. Með hljómsveitinni koma fram einsöngvararnir Hanna Dóra Sturludóttir, Elmar Gilbertsson og Kristinn Sigmundsson ásamt Schola cantorum, en hljómsveitarstjóri er Hermann Bäumer. Snemma í næsta mánuði verður verkið síðan tekið upp á vegum sænska útgáfufyrirtækisins BIS sem gefur það út. Bäumer stjórnaði einnig frumflutningi og upptökum á Eddu I: Sköpun heimsins árið 2006.
„Edda sem heild er stóra lífsverk Jóns Leifs. Það spannar stærstan hluta af hans starfsævi og í því kristallast hugmyndir um tilgang listsköpunar hans,“ segir Árni Heimir Ingólfsson, tónlistarfræðingur og listrænn ráðgjafi Sinfóníuhljómsveitar Íslands, sem þekkir mjög vel til verka Jóns Leifs en hann ritaði ævisögu tónskáldsins, Jón Leifs – Líf í tónum, sem kom út árið 2009.
„Upphaflega var Edda hugsuð sem fjögurra kvölda tónsmíð, sem spanna átti upphaf og endalok heimsins samkvæmt Eddukvæðum,“ segir Árni Heimir og rifjar upp að Jón hafi aðeins verið 29 ára, skömmu fyrir 1930, þegar hann fékk hugmyndina að verkinu. Í framhaldinu eyddi hann nokkrum árum í að safna saman ýmsum textum úr Eddukvæðunum til að búa til líbrettóið áður en hann hófst handa við að tónsetja. „Jón lauk við Eddu I árið 1939, en þegar verkið fékkst ekki flutt sneri hann sér að öðrum verkefnum. Árið 1951 byrjaði hann að semja Eddu II en um sama leyti mætti honum ýmis konar mótbyr bæði í einkalífi og faglega þannig að hann missti eiginlega móðinn og lagði verkið til hliðar og leit ekki á það í tíu ár og kláraði það ekki fyrr en 1966. Þá hófst hann þegar handa við að semja Eddu III: Ragnarök, en dó frá því óloknu árið 1968 og fjórða verkið sem hafði undirtitilinn Endurreisn er ekki til,“ segir Árni Heimir og bendir á að af Eddu III séu til rúmar 200 bls. í partítúr sem jafngildi rúmlega 20 mínútum af tónlist eða um þriðjungi verksins.
„Edda III er eitthvað það áhugaverðasta sem Jón samdi. Hann var hamfaratónskáld í sinni listsköpun. Það fór honum mjög vel að túlka eldgos, jarðskjálfta og endalok heimsins, svo þarna var hann virkilega í essinu sínu. Vonandi fást þessar 20 mínútur einhvern tímann fluttar og áhrifamikið verður í miðjum heimsendi að ærandi þögnin taki við þar sem dauðinn læsti klóm sínum í Jón Leifs,“ segir Árni Heimir og dregur ekki dul á að í Eddu birtist ein stórhugaðasta tilraun sem nokkurt íslenskt tónskáld hafi nokkru sinni látið sér til hugar koma.
Að sögn Árna Heimis voru engar forsendur á Íslandi til að flytja Eddu þegar Jón lauk við fyrri hluta hennar tvo. „Hann samdi þessa óratóríu í raun fremur fyrir alþjóðamarkað. Hann var alltaf að reyna að útskýra Ísland, íslenska menningu og hið norræna eðli fyrir útlendingum. Jón hafði mikla trú bæði á sjálfum sér og efniviðnum og það skín mjög rækilega í gegn í þessu verki,“ segir Árni Heimir og tekur fram að það þurfi mikið hugrekki fyrir ungan Íslendinginn að láta sér detta í hug að keppa við Wagner á heimavelli.
„Edda er að einhverju leyti hugsuð sem svar Jóns við eða leiðrétting á Niflungahring Wagner. Honum fannst Wagner hafa misskilið hið norræna eðli, eins og hann orðaði það sjálfur, og að tónlistin í Niflungahringnum væri of suðræn og veikgeðja,“ segir Árni Heimir og tekur fram að mikill áhugi Þjóðverja á norrænni menningu á árunum fyrir seinna stríð hafi vafalítið veitt Jóni Leifs byr í seglin.
Spurður hvort líklegt megi telja að það hafi verið Jóni áfall að fá Eddu aldrei flutta meðan hann lifði svarar Árni Heimir því játandi. „Og ekki bara Edda, heldur að hann skyldi ekki fá að heyra öll sín stærstu verk, þeirra á meðal Baldur sem byggir líka á norrænni goðafræði. Þau verk sem fengust flutt, þeirra á meðal Sögusinfónían og tveir kaflar úr Eddu I í Danmörku, fengu afleitar viðtökur, sem dró verulega úr honum kjarkinn svo hann gafst um tíma upp á Eddu II,“ segir Árni Heimir í viðtali sem birtist í Morgunblaðinu um liðna helgi.
Þegar Edda I var frumflutt í heild og tekin upp 2006 vakti það heimsathygli og fékk verkið góða dóma. Spurður hvort Jón hafi verið svona langt á undan sinni samtíð bendir Árni Heimir á að viðtökur í tónlistarheiminum hafi breyst. „Andrúmsloftið á eftirstríðsárunum var mjög einstrengingslegt. Í dag er fólk miklu opnara fyrir ólíkum stílum og straumum sem gagnast tónskáldum á borð við Jón Leifs og aðra utangarðsmenn í tónlist, sem eru einir á báti í sínum stíl og sköpun. Það er meiri þolinmæði fyrir slíkum höfundum í dag en var fyrir 40-50 árum,“ segir Árni Heimir og dregur ekki dul á að stíll Jóns Leifs sé mjög sérstakur. „Þessi einstrengingslegi, kaldhamraði fornstíll í tónlist átti alls ekki upp á pallborðið. Á eftirstríðsárunum var að líka illa séð að tónskáld væru að semja tónlist sem flokkaðist sem þjóðleg, enda hafði þriðja ríkið litað svo um munar skoðanir manna á þess háttar list.“
Árni Heimir mun fræða gesti um Eddu á kvöldstund sem Vinafélag Sinfóníuhljómsveitar Íslands stendur fyrir í Kaldalóni í kvöld, miðvikudaginn 21. mars, kl. 20 og er aðgangur ókeypis. Þar hyggst hann sýna áður óbirtar skissur Jóns af verkinu og ræða við Hörð Áskelsson, stjórnanda Schola cantorum. „Markmið mitt er að veita áheyrendum ákveðna lykla að völundarhúsinu. Það er svo margt við þetta verk og tilurð þess og hvernig Jón vinnur það sem er mjög áhugavert. Þó að Jón mætti andstöðu bæði hér heima og erlendis meðan hann lifði var hann alltaf viss um það að tónlist hans yrði betur tekið eftir hans dag og að hann myndi einhvern tímann hljóta uppreisn æru. Þess vegna geymdi hann öll gögn. Hann var allt að því manískur bréfaskrifari og skissaði tónhugmyndir á allt frá nótnapappír til reikninga og matseðla. Allt er þetta varðveitt í Þjóðarbókhlöðu. Margt áhugavert má lesa úr skissum, bréfum og pári Jóns sem tengist verkinu,“ segir Árni Heimir, en þess má geta að í síðustu viku var, í tengslum við frumflutninginn, í Þjóðarbókhlöðunni opnuð sýning þar sem sýnd eru nótnahandrit að Eddu II, textaskissur, bréf og annað sem tengist verkinu og stendur sýningin til áramóta.
„Edda II er í sex köflum. Þetta eru í raun karakterlýsingar á persónum goðafræðinnar. Óðinn fær fyrsta kaflann og í framhaldinu eru kaflar helgaðir sonum hans, ásynjum, valkyrjum og nornum. Hin dramatíska atburðarás fer í raun ekki af stað fyrr en í Eddu III þegar heimurinn ferst,“ segir Árni Heimir. Aðspurður segir hann Eddu II taka um klukkutíma í flutningi, sem sé langt miðað við eitt tónverk. „En erfiðleikagráðan er samt ekki í neinu samræmi við lengdina,“ segir Árni Heimir og bendir á að tónskáldið geri ótrúlegar kröfur til kórflytjenda sinna sem birtist jafnt í tónvídd og hröðum textaflutningi sem sé á mörkum þess gerlega.