Ari Ólafsson flutti framlag Íslands, „Our Choice“, af miklu öryggi eins og við mátti búast á fyrra undanúrslitakvöldi Eurovision sem fram fer í Lissabon í kvöld. Flutningnum lauk rétt í þessu og nú er komið að Evrópu að ákveða örlög Ara og íslenska hópsins.
Sviðsframkoma íslenska hópsins var til fyrirmyndar og þau tóku sig vel út í klæðnaði eftir fatahönnuðinn Ýr Þrastardóttur. Ari klæddist hvítu jakkafötunum líkt og hann hefur gert hingað til, en fötin vísa í eldgos og ástríðueld.
Ari var annar á svið svo það er nóg fram undan áður en kemur í ljós hvaða 10 af 19 lögunum sem keppa í kvöld komast áfram í úrslitakeppnina sem fer fram á laugardag.
Hér er hægt að fylgjast með beinni lýsingu á mbl.is á fyrri undankeppninni.